Nicki Minaj og hvítþvegni femínisminn

Nicki Minaj er vinsælasti kvenrappari heims um þessar mundir en …
Nicki Minaj er vinsælasti kvenrappari heims um þessar mundir en fékk ekki viðurkenninguna sem mörgum þótti hún eiga skilið á VMAhátíðinni. AFP

Þúsundir hvítra krakka sem vita ekkert hvað orðið menningarnám (e. cultural appropriation) þýðir eignuðust nýtt uppáhalds slangur þegar rapparinn Nicki Minaj slengdi „Miley, what‘s good?!“ fram með fýlusvip (lesist „stank face“ ) á VMA hátíðinni fyrir rúmum mánuði síðan.

Fyrir þá sem ekki þekkja til „What‘s good“ þá mætti útleggja orðasambandið sem „Hvað er að frétta“ á íslensku en í þessu tilviki er þýðingin nær „þorirðu í mig?“.

Orðunum beindi Minaj til söngkonunnar Miley Cyrus sem hún kallaði tík vegna orða Cyrus í New York Times um Twitterjur Minaj og söngkonunnar Taylor Swift.

Margir lesendur fá eflaust klígju við að lesa þessa setningu. Við fyrstu sýn virðist rifrildi poppstjarnanna þriggja nefnilega eins og versta gelgjudrama en það er þó mikilvægara en margur myndi ætla.

Þegar litið er til efnistaka í textum og tónlistarmyndböndum Nicki Minaj er ekki skrítið að fáir tengi hana við femínisma. Texti hennar við lag David Guetta „Hey Mama“ er til þess fallinn að láta flestar konur svíða í sjálfsvirðinguna og þó svo að hún tali fyrir gerðarlegum afturendum í  „Anaconda“ er lítið annað tengt líkamsvirðingu að sjá í myndböndum hennar. Eftir VMA verðlaunin hefur hróður hennar sem málsvari svartra kvenna hinsvegar vaxið og hafa margir hampað henni sem femínískri hetju.

Við skulum byrja á byrjuninni.

Tilnefningin sem týndist

Þegar stjórnendur VMA hátíðarinnar tilkynntu um tilnefningar ársins reiddist Minaj. Myndband hennar við „Anaconda“ hafði slegið öll met á YouTube rás Vevo  og verið krufið til mergjar af poppkúltúr spekúlöntunum, siðapostulum og masturbatörum internetsins. Það vakti áleitnar spurningar um hvort og þá hvenær kynferðislegt sjónarhorn á kvenlíkamann geti verið femínískt en þrátt fyrir áhrif og augljósar vinsældir þess hlaut það ekki tilnefningu fyrir tónlistarmyndband ársins. Minaj tók þessu óstinnt upp og tjáði sig um málið á Twitter þar sem hún sagði tónlistarbransann ekki meta svartar konur að verðleikum og að aðeins ein tegund líkama virtist ásættanleg vilji maður vinna verðlaun.

„Ef myndbandið þitt fagnar konum með mjög granna líkama færðu tilnefningu fyrir myndband ársins,“ tísti Minaj meðal annars. Þessum ummælum tók Taylor Swift til sín og skyldi engan undra enda er myndband hennar „Bad Blood“, sem vann síðar verðlaunin, stútfullt af tágrönnum ofurfyrirsætum.

Swift leit svo á að Minaj væri að ráðast gegn henni persónulega og gaf í skyn að orð hennar væru andfemínísk. Minaj furðaði sig á viðbrögðum Swift og benti henni á að frekar en að gagnrýna hana ætti Swift að taka undir með henni og gagnrýna mismunun í bransanum.

Taylor Swift tók tístum Minaj persónulega.
Taylor Swift tók tístum Minaj persónulega. AFP

Eins og Corinne Redfern hjá Marie Claire bendir á setti Nicki Minaj sig í kunnuglegar, kynferðislegar og klæðalitlar stellingar í myndbandinu við „Anaconda“.

Þegar Britney Spears huldi nekt sína með pallíettunum einum í „Toxic“ fékk hún tilnefningu fyrir besta tónlistarmyndbandið á VMA hátíðinni. Robin Thicke var einnig tilnefndur fyrir myndbandið „Blurred Lines“ þar sem Emily Ratajkowski valsaði um allsnakin og þegar Miley Cyrus skellti sér á Evu-klæðunum á niðurrifskúluna vann hún verðlaunin. Öll myndböndin voru umdeild en fengu samt viðurkenningu iðnaðarins fyrir áhrif sín.

Slík viðurkenning bauðst Minaj ekki fyrir „Anaconda“. Myndbandið er á yfirborðinu, líkt og hin myndböndin, skammlaus „sex sells“ sölubrella en þegar leitað er dýpra má sjá að hugmyndin er ekki svo einföld. Myndbandið fagnar stórum afturendum útfrá forsendum Minaj sjálfrar. Vald Minaj yfir kyngervingu eigin líkam er bersýnilegt í myndbandinu þar sem hún lætur sem hún njóti (hins klassíska reðurtákns ) banana á kynferðislegan hátt en sker hann síðan niður.

Sama má segja þegar hún dansar með eggjandi hætti fyrir rapparann Drake í lok myndbandsins en gengur í burtu þegar hann reynir að snerta hana. Myndbandið ögraði ekki aðeins á kynferðislegan hátt heldur ögraði það einnig viðteknum femínískum gildum með hugmyndum Minaj um að einkaréttur kvenna á eigin líkama sé samofinn réttinum til að sýna hann í kynferðislegu ljósi.

„Sú tíðni sem Nicki vinnur á er ekki sú auðveldasta fyrir okkur að glíma við því hún snýst um sjálfræði, hver hefur það og hvort við getum í raun séð muninn á sjálfs-hlutgervingu og sjálfs-fullnægingu,“ segir Treva B. Lindsey, lektor í kvennafræðum við ríkisháskóla Ohio um myndbandið. „Vitum við einu sinni hvernig sjálfráð kona lítur út í poppmenningu?“

Svo fór að lokum að Taylor baðst afsökunar og það réttilega því eins og hún sagði sjálf fór hún varhuga af merg málsins. Bandaríski afþreyingarbransinn hefur átt í vanda með mismunun kynþátta  og menningarnám allt frá upphafi síðustu aldar. Vandamálið stækkar síðan aðeins ef litið er til svartra kvenna, og raunar allra kvenna utan hins hvíta kynstofns, sem eru undirokaður hópur innan undirokaðs hóps. Til að mynda búa þær ekki aðeins við þá lítilsvirðingu að samfélagið kyngeri líkama þeirra heldur eru líkamar þeirra: húðlitur, holdafar, hár og andlitsfall, oft metnir sem óæðri líkömum hvítra kvenna. Það heyrir til undantekninga að mjög dökkar konur á við Lupitu Nyong'o nái langt og á verðlaunahátíðum er svörtum tónlistarkonum nær alltaf haldið innan R&B flokkana. Má í því samhengi nefna að þrátt fyrir að engin kona geti státað af fleiri Grammy tilnefningum en Beyoncé hefur hún aldrei unnið verðlaunin fyrir plötu ársins. Skyldi einhvern undra að Kanye reiðist?

Swift og Minaj fallast í faðma eftir að hafa komið …
Swift og Minaj fallast í faðma eftir að hafa komið fram saman á VMA hátíðinni. AFP

Af reiðum svörtum konum

Með afsökunarbeiðni Taylor Swift hefði málið getað endað. Swift og Minaj komu jafnvel fram saman á VMA hátíðinni og var þeim ákaft fagnað. Strípalingurinn og vandræðagemsinn Miley Cyrus gat ekki hinsvegar ekki stillt sig um að tjá sig þegar New York Times varpaði fram spurningu um málið í aðdraganda hátíðarinnar og þar með fór boltinn aftur á flug. Cyrus sagðist ekki hafa fylgst vel með orðaskiptum Minaj og Swift og hafði lítið að segja um umræðuefnið sjálft en þess meira um hvernig Minaj setti það fram.

„Ég virði ekki yfirlýsingu þína út af reiðinni sem fylgdi með henni,“ sagði Cyrus og bætti við að reiði Minaj snerist hreint ekki um kynþáttamál heldur um hennar eigin hagsmuni.

„Það sem ég las hljómaði mjög Nicki Minaj, ef þú þekkir hana [veistu] að Nicki Minaj er ekki of góð [við aðra]. Það er ekki sérlega kurteislegt.“

Hún sagðist gera sér grein fyrir því að hún sjálf væri hvít poppstjarna og að það væri auðvelt að láta líta út fyrir að hún vissi ekki hvað hún væri að tala um en að hún héldi hreinlega að MTV hafi ekki litið framhjá Minaj viljandi.

Miley Cyrus þykri hafa gerst sek um rómstjórnun með gagnrýni …
Miley Cyrus þykri hafa gerst sek um rómstjórnun með gagnrýni sinni á Minaj. AFP

Þessi ummæli féllu í grýttan jarðveg hjá Minaj enda smættuðu þau hana niður í erkitýpuna „reið svört kona“ sem samfélagið gerir í að henda gaman að til að þurfa ekki að taka umkvörtunarefni svartra kvenna alvarlega. 

Í stað þess að leiða ummæli Cyrus hjá sér notfærði Minaj sér tækifærið á VMA verðlaunahátíðinni og skaut hinu alræmda „What‘s good“ þvert yfir skarann á Cyrus. Sú svaraði því til að blaðamenn tækju hlutina oft úr samhengi og gaf svo aftur í skyn að Minaj væri einfaldlega bitur yfir að hafa ekki verið tilnefnd.


Svartir femínistar fögnuðu Minaj ákaft í kjölfar útsendingarinnar og hrósuðu henni fyrir að berjast gegn rómstjórnun (e. tone policing).  Rómstjórnun á sér stað þegar undirokað fólk tjáir sig um lífskilyrði sín og fólk úr meira ríkjandi hópum einblínir ekki á hvað var sagt heldur hvernig.

„Það er þrúgandi og óhjálplegt þegar fólk reynir að stjórna hvernig við tölum um baráttu okkar. Því þarf að ljúka,“ skrifar Maisha Z. Johnson á Everyday Feminism um atvikið. Hún bendir á að Cyrus sé ein þeirra stjarna sem hefur grætt hvað mest á menningarnámi og að með því að tala við hana á „tungumáli hverfisins síns“ hafi Minaj sýnt öllum að þó svo að Cyrus velji það sem hún kann vel við (og það sem selur plötur) úr svartri menningu og nýti sér það viti hún í raun ekkert um það hvernig það er að vera svört.

feminism animated GIF

„Þú ættir ekki vilja ekki vita það“

Eins og áður segir er rúmur mánuður liðinn frá VMA hátíðinni en í vikunni tjáði Minaj sig í fyrsta skipti opinberlega um skotið á Cyrus þetta kvöld. Það er nokkuð kaldhæðnislegt að hún hafi gert það við sama tímarit og birti fyrst hin vafasömu ummæli Cyrus, New York Times, og enn kaldhæðnislegra er að viðtalinu lauk snögglega þegar blaðamaðurinn spurði Minaj hvort hún þrífðist á drama og varpaði henni þannig aftur í hlutverk erkitýpu.

 Viðtalið og ummælin um Cyrus hafa þó vakið mikla athygli enda þykir Minaj útskýra kynþáttaklúður Cyrus listavel.

„Sú staðreynd að það að ég tali um eitthvað sem hefur áhrif á svartar konur komi þér í uppnám lætur mér líða eins og þú sért með stórar hreðjar. Þú ert í myndböndum með svörtum mönnum og færð svartar konur á sviðin þín en þú vilt ekki vita hvernig svörtum konum líður með eitthvað svona mikilvægt? Þú getur ekki viljað það góða án þess slæma,“ segir Minaj í viðtalinu og beinir orðum sínum að Cyrus.

„Ef þú vilt njóta menningar okkar og lífstíls, bindast okkur böndum, dansa með okkur, skemmta  þér með okkur , „twerk-a“ með okkur, rappa með okku, þá ættirðu líka vilja vita hvað hefur áhrif á okkur, hvað truflar okkur og hvað okkur finnst vera ósanngjarnt gagnvart okkur. Þú ættir ekki vilja ekki vita það.“

Hvítþveginn femínismi

Það sem Nicki Minaj er að vekja athygli á og Cyrus og Taylor gerðust sekar um er hvítþveginn femínismi, þ.e. þegar hvítar konur (og aðrir femínistar) gera sér ekki grein fyrir eigin forréttindum og gera lítið úr eða hunsa undirokaða stöðu kvenna af öðrum kynþáttum. Minaj vekur einnig athygli á daðri Cyrus við menningarnám þar sem“ twerk-ið“ (sem margir tengja alfarið við Miley) er upprunalega frá vestur Afríku og hefur verið hluti af menningu svartra Bandaríkjamanna í áratugi.

Eins og Kyrell Grant skrifar fyrir Teen Vouge er það rangt af samfélaginu að reyna að ákveða hvaða hegðun svartra kvenna sé „ásættanleg“. Femínismi sé flókinn og síbreytilegur, hann sé ekki strangt regluverk sem kona getur fylgt til að fá aðgang að klúbbnum.

„Það er ekki sanngjarnt að svartar konur séu síendurtekið skotnar niður þegar þær tjá sig um hvernig ofríki hvíta mannsins hefur áhrif á þær sem þeldökkar manneskjur og sem kvenkyns þeldökkar manneskjur...þetta eru tilfinningar sem hvítar konur þurfa að viðurkenna.“

Umræðan um hvítþveginn femínisma hefur verið lengi til staðar en er fyrst nú að ná eyrum meginstraumsins. Það er að miklu leiti svörtum tónlistarkonum á við Minaj að þakka  og eins og Grant segir skipta orð Cyrus máli mun víðar en bara í Hollywood.

„Þau skipta máli af því að þegar þú gerir lítið úr [tilfinningum] einhvers eins og Nicki, ertu að gera lítið úr þeim ungu svörtu konum sem lesa hvert orð. Að neita að rannsaka hvernig hvítleiki (e. whiteness) kemur sumum til góða og lokar á konur eins og Nicki er skaðlegt,“ skrifar Grant sem segir mikilvægt að samfélagið sjái heildarmyndina þegar litið er til erja þeirra Minaj, Swift og Cyrus.

„Og það sem kannski er mikilvægara, eins og endurspeglaðist í því þegar Taylor og Nicki fóru saman á svið, þá þurfum við að læra hvernig við getum stutt hvor aðra.“

 

mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Valdabarátta og persónuleg átök ríða húsum á vinnustað þínum. Máttarvöld heimsins, til dæmis foreldrar, sjá ekki sólina fyrir þér.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Torill Thorup
5
Birgitta H. Halldórsdóttir
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Valdabarátta og persónuleg átök ríða húsum á vinnustað þínum. Máttarvöld heimsins, til dæmis foreldrar, sjá ekki sólina fyrir þér.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Torill Thorup
5
Birgitta H. Halldórsdóttir