„Þetta er grjóthart leikrit“

Atli Rafn Sigurðsson leikari og leikstjóri
Atli Rafn Sigurðsson leikari og leikstjóri mbl.is/Árni Sæberg

Maður fær einhvern verk í magann við að lesa þetta leikrit og ef vel tekst til á sú tilfinning að sitja eftir hjá áhorfandanum að sýningu lokinni,“ segir Atli Rafn Sigurðarson um Heimkomuna eftir Nóbelsverðlaunaskáldið Harold Pinter, sem hann leikstýrir í Þjóðleikhúsinu og frumsýnt var á Stóra sviðinu í gærkvöldi.

Verkið fjallar um óvænta heimkomu eða heimsókn heimspekikennarans Teddy og eiginkonu hans Ruthar á æskuheimili eiginmannsins. Þau hafa frá því að þau giftu sig sex árum áður búið í Bandaríkjunum þar sem hann hefur kennt og hún alið manni sínum þrjá syni. Í heimsókninni uppgötvar Ruth áður óþekktar hliðar á eiginmanni sínum þegar hún kynnist fjölskyldu hans sem samanstendur af föður hans, Max, sem er fyrrverandi slátrari, föðurbróður hans, Sam, sem er bílstjóri, og bræðrum hans tveimur, hórmangaranum Lenny og boxaranum Joey. Þessir óhefluðu karlmenn taka að bítast um athygli Ruthar og samskiptin á heimilinu verða sífellt ofsafengnari. Íslensk þýðing leikritsins er í höndum Braga Ólafssonar, leikmynd gerir Börkur Jónsson, búninga hannar Helga I. Stefánsdóttir og um tónlist sér Einar Scheving. Í hlutverki ættföðurins Max er Ingvar E. Sigurðsson, syni hans þrjá, þá Lenny, Joey og Teddy, leika Björn Hlynur Haraldsson, Snorri Engilbertsson og Ólafur Egill Egilsson, en Ruth, eiginkonu Teddy, leikur Vigdís Hrefna Pálsdóttir. Eggert Þorleifsson fer með hlutverk Sam.

Valdabarátta kynja og kynslóða

Að sögn Atla Rafns er hugmyndin að uppfærslu Heimkomunnar tilkomin frá Ara Matthíassyni leikhússtjóra. „Þetta er hugmynd sem hann hefur lengi gengið með í maganum. Ég þekkti verkið fyrir en þegar Ari stakk upp á þessu sem leikstjórnarverkefni fyrir mig las ég verkið aftur og þá varð ekki aftur snúið,“ segir Atli Rafn og heldur áfram til útskýringar: „Verkið hefur sterk áhrif á mann, sem erfitt er að setja fingur á. Áhrifin eru bæði mjög vitsmunaleg og líka tilfinningaleg. Svo er þetta óvenju vel skrifað leikrit. Samtölin eru frábær og allar persónur verksins mjög vel mótaðar. Allt sem gerist og sagt er í leikritinu er á einhvern hátt ónotalegt samtímis því sem þetta er óþægilega fyndið,“ segir Atli Rafn og tekur fram að hann nálgist verkið samt alls ekki eins og gamanleik.

„Fyndnin liggur í því að maður kannast við þessar óbærilega óþægilegu aðstæður,“ segir Atli Rafn og ber þýðanda vel söguna. „Við Bragi höfum leitast við að hafa þýðinguna frekar harðari en hitt. Með því á ég við að við höfum lagt áherslu á að vinna út þessa tilfinningu fyrir hörðum samskiptum og reynt að kanta þýðinguna og orðavalið sjálft í stað þess að mýkja það. Þetta er grjóthart leikrit og orðanotkun Pinter sjálfs er grjóthörð og gengur fram af manni. Við drögum þannig fram þá dökku tóna sem í verkinu eru.“

Var eitthvað sem kom þér á óvart við endurlestur verksins?

„Það kom mér á óvart hvað persónur verksins ganga langt í valdabaráttu sinni, því verkið lýsir valdabaráttu kynslóða og kynjanna. Það kemur á óvart hvað persónur eru vægðarlausar bæði í orðum og gjörðum,“ segir Atli Rafn og bætir síðan hugsi við: „En þetta er bara sannleikurinn. Fólk hagar sér virkilega svona. Það er sjokkið sem maður fær þegar maður les verkið eða sér það – og þess vegna hlær maður.“

Heimkoman var frumsýnd í London fyrir rétt rúmum fimmtíu árum eða í júníbyrjun 1965. Finnst þér leikritið hafa elst vel?

„Já. Það hefur elst mjög vel, sem kemur kannski á óvart. Manni skilst að viðtökur við verkinu hafi verið rosalegar á sínum tíma og margir hneykslast óskaplega mikið. Þarna er auðvitað fjallað um stöðu konunnar á heimilinu, en Ruth er sólin sem allt hverfist um. Á þessum tíma var hlutverk konunnar skilgreint nánast alfarið inni á heimilinu, en um þetta leyti var að verða til ákveðin kvennabylting. Allt í okkar menningu gengur í bylgjum og er einhvers konar svar og andsvar og þetta leikrit er ekkert öðruvísi en önnur menningarleg fyrirbæri. Það er klárt svar við einhverju sem var að gerast í samtímanum þá, en er algjörlega upp á teningnum hjá okkur enn í dag. Við erum enn að rembast við að skilgreina stöðu kynjanna og gengur erfiðlega að ná einhvers konar jafnvægi. Verkið talar mjög sterkt inn í samtímann. Í því liggja líka gæði verksins og kannski líka harmurinn, því fátt hefur breyst. Kannski mun nútímaáhorfandinn fagna í lokin meðan áhorfandinn 1965 stóð upp snarhneykslaður og yfirgaf leikhúsið. Við eigum kannski auðveldara með að skilja Ruth í dag en þegar verkið var frumsýnt.“

Margir myndu segja að útfærslan á Ruth sé lykilatriði í því hvernig maður nálgast verkið. Hver er þín nálgun á Ruth?

„Þetta er auðvitað ekki bara mín nálgun, heldur Vigdísar og alls leikhópsins. Ég hefði getað farið þá leið með mínu samstarfsfólki að ákveða alla hluti eins og sumir leikstjórar gera, en ég hef ekki áhuga á að vinna í þannig leikhúsi – hvorki sem leikari né leikstjóri. Okkar leið og leit hefur snúist um það að finna Ruth marga fleti, frekar en einhvern einn. Menn hafa löngum tekist á um það að skilgreina konur í mæður, meyjar og hórur. Við hefðum getað farið eina af þessum leiðum með Ruth. En ég held að það sé áhugaverðara og flóknara að sjá Ruth á sviðinu sem gengst við öllum þessum hlutverkum. Enda hlýtur sú manneskja sem nær valdi á þessu þrennu að hafa ansi mikil ítök og völd á heimilinu og samfélaginu. Leiðin að Ruth hefur, án þess að ég vilji gefa of mikið upp, verið sú að gera hana margbrotna frekar en einfalda.“

Nú er þetta mjög karllægur heimur sem birtist í verkinu. Er Ruth ofurseld feðraveldinu eða sérðu hana sem sterka konu?

„Það er algjörlega klárt að hún er sú sem tekur völdin í lok leikritsins. Það verður að vera algjörlega skýrt. Ruth er ekki fórnarlamb. Hún hefur vissulega verið í aðstæðum þar sem hún hefur verið fórnarlamb ömurlegra aðstæðna og hefur hugsanlega þurft að selja sig á einhverjum tíma áður en hún kynntist Teddy. Það má segja að hún sé fórnarlamb leiðinlegs hjónabands, því fórnarlömbin geta verið margskonar. En svo brýtur hún af sér þær viðjar og tekur stjórnina í eigin lífi og á þessu heimili tengdaföður síns. Aðstæður verksins eru flóknar og það er ekki endilega auðvelt að skilja ákvörðun Ruthar, en hún tekur samt ábyrgð og stjórn á eigin lífi þar sem hún hefur verið stjórnlaus hingað til. Mér finnst hún undir lok verksins standa uppi sem manneskja sem getur gert það sem hún vill, en lýtur ekki lengur stjórn karlmanna.“

Mistök að gefa of mikið upp

Hvað var vandasamast í uppsetningarvinnunni?

„Vandasamast er að finna jafnvægið milli hins sagða og ósagða. Verk Pinters eru full af undirtexta og stöðugt er verið að gefa ýmislegt í skyn um persónur. Það eru mistök að gefa of mikið upp við áhorfandann. Ég held að kúnstin við að nálgast Pinter snúist fremur um að halda í þetta óræða og skilja áhorfendur eftir í þeirri angist að reyna að skilja persónur og gjörðir.

Pinter sagði sjálfur að verk hans væru nákvæm raunsæisstúdía, en ekki absúrd eða óhefðbundin leikrit. Hann vildi meina að meistarar raunsæisins á borð við Henrik Ibsen hefðu ekki verið að skrifa raunsæisleg leikrit, því fólk hagar sér ekki svona vel formað eins og sjá má í þeirra leikritum. Það er miklu nær raunveruleikanum að maður hagi sér og segi hluti hluti sem eru óvæntir og jafnvel út úr karakter.

Pinter var mikill prakkari og stríðnispúki. Við þurfum stöðugt að velta fyrir okkur hversu mikið persónur gefi upp gagnvart öðrum persónum verksins, hversu mikið leikarinn gefi upp gagnvart áhorfendum og hversu mikið sýningin gefi upp. Leikararnir þurfa þannig stöðugt að leika á þessum tveimur plönum, hins sagða og ósagða. Þetta þarf að stilla vel til þess að Pinter týnist ekki. Þetta er geggjuð glíma, en leikararnir eru á góðri leið með að fínstilla þetta samspil.“

Nú var Pinter sjálfur leikari. Telur þú að það hafi gert hann að betra leikskáldi að þekkja sjálfur heim sviðsins?

„Já, alveg örugglega. Hvað sem segja má um Pinter sem leikara þá hefur sviðsreynslan örugglega þroskað næmi hans fyrir samtölum og aðstæðum, en þetta tvennt eru mjög sterk einkenni hjá honum. En Pinter var fyrst og fremst stórkostlegt leikskáld; hvort það er því að þakka að hann var leikari veit ég ekki.“

Sjálfur ertu fyrst og fremst leikari. Hvaða þýðingu hefur það fyrir þig að stíga út úr því hlutverki og hafa möguleika á að takast á við leikstjórnarverkefni?

„Ég hef verið að dufla við annað síðustu tíu ár og reynt að útvíkka mitt starf. Ég leitast við að vinna í góðum félagsskap í leikhúsi. Ég væri frekar tilbúinn til að sjá um að skúra sviðið í góðum félagsskap í góðri sýningu, en að leika Hamlet með einhverjum sem mig langar ekki til að vinna með. Síðustu ár hef ég verið í þeirri stöðu að geta haft eitthvað um það að segja hvað ég geri í leikhúsinu. Það hefur alltaf verið ríkt í mér sem leikara að hafa skoðanir á hlutum og skipta mér af. Þess vegna hef ég leiðst út í það að leikstýra og skrifa og taka þátt í konseptvinnu.“

Áttu þér draumaverkefni sem leikstjóri?

„Já, ég sé mig fyrir mér leikstýra Shakespeare-leikriti einhvern tímann. Það eru mörg sem koma til greina, enda skrifaði hann nokkur góð,“ segir Atli Rafn og tekur fram að hann myndi frekar vilja leikstýra dramatísku verki eftir Shakespeare heldur en gamanleik. Í millitíðinni mun Atli Rafn leikstýra Djöflaeyjunni í samstarfi við Baltasar Kormák í Þjóðleikhúsinu með vorinu.

Úr Heimkomunni eftir Harold Pinter.
Úr Heimkomunni eftir Harold Pinter.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Valdabarátta og persónuleg átök ríða húsum á vinnustað þínum. Máttarvöld heimsins, til dæmis foreldrar, sjá ekki sólina fyrir þér.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Torill Thorup
5
Birgitta H. Halldórsdóttir
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Valdabarátta og persónuleg átök ríða húsum á vinnustað þínum. Máttarvöld heimsins, til dæmis foreldrar, sjá ekki sólina fyrir þér.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Torill Thorup
5
Birgitta H. Halldórsdóttir