Söngvarinn George Michael er ekki á flæðiskeri staddur, en hann halar inn milljónir fyrir stefgjöld og plötusölu, þrátt fyrir að hafa ekki unnið í langan tíma. Þó að Michael hafi verið frá vinnu í nokkra mánuði skilaði fyrirtæki hans Nobby‘s Hobbies gríðarlegum hagnaði á árinu samkvæmt frétt Contactmusic.
Michael, sem lengi hefur barist við áfengis- og eiturlyfjafíkn, hefur dvalið á meðferðarstofnun í Sviss síðan í sumar. Meðferðarstofnunin sem varð fyrir valinu nefnist Kusnacht Practice og er í Zurich, en hún er hlaðin íburði og ein sú dýrasta í heiminum. Sögur herma að söngvarinn hafi skráð sig í meðferð til að leita sér lækninga við krakk og kókaín fíkn, en talsmaður hans segir orðróminn úr lausu lofti gripinn.
„Þrátt fyrir að það sé stefna hjá okkur að tjá okkur ekki um persónuleg málefni viljum við árétta að í þessar sögusagnir eiga ekki við rök að styðjast. Upplýsingarnar eru fengnar frá eiginkonu fjarskylds ættingja, en hvorugt þeirra hefur verið í tengslum við Michael árum saman. Það kemur því lítið á óvart að sögusagnirnar séu svo afbakaðar.“
Samkvæmt ónefndum heimildamanni er Michael áfjáður í komast aftur til vinnu, en á næsta ári eru 30 ár liðin frá því að hljómsveitin Wham lagði upp laupana og söngvarinn hóf sólóferil sinn. Heilsa söngvarans er þó sögð skipta hann mestu máli eins og er.