Justin Bieber kom fram í einlægu viðtali við NME á dögunum þar sem hann greindi frá baráttu sinni við þunglyndi.
„Mér finnst ég vera einangraður. Maður er staddur á hótelherbergi og það eru aðdáendur og papparazzi ljósmyndarar sem elta mann út um allt, og það er erfitt. Þegar maður getur ekki farið neitt og ekki gert neitt verður maður þunglyndur. Ég óska engum að lenda í þessu.“
Bieber segist einnig hafa skilning á aðstæðum söngkonunnar Amy Winehouse sem lést um aldur fram fyrir nokkrum árum.
„Fólk sér bara glamúrinn og allt þetta ótrúlega dót, en það þekkir ekki hina hliðina. Þetta líf getur rifið mann í sundur. Ég horfði á heimildamyndina um Amy Winehouse í flugvélinni og var með tárin í augunum vegna þess að ég sá hvað fjölmiðlar voru að gera henni, hvernig þeir komu fram við hana.““
„Fólki fannst fyndið að atast í henni þegar hún var á botninum, að halda áfram að þrýsta henni niður þar til hún átti ekkert eftir af sjálfri sér. Sem er það sama og þeir reyndu að gera mér.“
Bieber hefur sjálfur komist í kast við lögin, en hann segir að hann hafi einfaldlega verið í uppreisn líkt og fram kemur í frétt People.
„Þetta var allt vegna þess hvernig Justin Bieber vörumerkið var kynnt.“
„Ég var heilsteypt poppstjarna sem var svo frábær, með svo flott hár og helvítis ímynd sem enginn getur með nokkru móti uppfyllt. Svo þegar allt þetta gerðist ákvað fólk að rífa mig í sig.“
Bieber segist hafa snúið við blaðinu, en hann lauk á dögunum samfélagsþjónustu vegna brots sem hann framdi á síðasta ári. Hann hefur einnig lýst því yfir að hann vilji bæta samband sitt við móður sína, en stirt hefur verið á milli þeirra.
Söngvarinn vill að fólk muni að hann er bara mannlegur.
„Ég erfiða við að komast í gegnum daginn. Ég held að margir séu í sömu sporum.“