Nokkrir dagar eru síðan stiklan úr Zoolander 2 var gerð opinber, en nú hefur verið blásið til mótmæla og fólk hvatt til að sniðganga myndina sökum þess að hún þykir sýna transfólk í neikvæðu ljósi. Vefurinn Contactmusic greindi frá þessu.
Undirskriftarlistinn var stofnaður á síðunni change.org og hafa, þegar þetta er skrifað, rúmlega 9.000 manns skrifað undir.
Við undirskriftasöfnunina stendur ritað:
„Karakter Cumberbatch er augljóslega sýndur sem yfirdrifinn og ýktur þar sem gys er gert að trans- og kynsegin fólki. Þetta jafnast á við það að nota „blackface“ [þar sem andlit hvítra leikara voru máluð svört til að gera grín að hörundsdökku fóki].“
Zoolander 2 verður tekin til sýninga 12. febrúar á næsta ári, en auk Ben Stillers og Owen Wilsons munu Justin Bieber, Kim Kardashian Kanye West og fleiri stórstjörnur fara með hlutverk í myndinni.
Kynningarstiklu myndarinnar má sjá hér að neðan.