Fyrrverandi eiginkona rokkarans Scotts Weilands segir hann hafa dáið fyrir mörgum árum. Weiland, sem var fyrrverandi söngvari Stone Temple Pilots, féll frá í síðustu viku, 48 ára að aldri.
Söngvarinn, sem hafði lengi glímt við áfengis- og fíkniefnavanda, lést um borð í tónleikarútu en hann var á ferðalagi með hljómsveit sinni Scott Weiland and the Wildabouts.
Mary Forsberg Weiland, barnsmóðir og fyrrverandi eiginkona söngvarans, lýsti því yfir í opnu bréfi sem birtist á vef Rolling Stones að 3. desember hefði ekki verið dánardagur hans, heldur síðasti dagurinn sem hægt var að stilla honum upp fyrir framan hljóðnema til að græða á honum fé og skemmta öðrum.
Einnig segir hún að þennan dag hafi börn hennar misst alla von um að faðir þeirra myndi nokkru sinni snúa aftur.
„Ég ætla ekki að segja að nú geti hann hvílst, eða að hann sé á betri stað. Hann á heima með börnunum sínum, úti í bakgarði að grilla. Við erum reið og sorgmædd yfir missinum, en algerlega niðurbrotin yfir því að hann hafi kosið að gefast upp.
Ekki upphefja þennan harmleik með því að tala um rokk, ról og djöflana, sem þurfa alls ekki að fylgja því.“
Weiland og Forsberg skildu árið 2007 eftir sjö ára hjónaband. Þau eiga saman tvö börn á unglingsaldri.
Frétt mbl.is: Rokkarinn Scott Weiland látinn