Leikkonan Rita Wilson, eiginkona Tom Hanks, greindist með brjóstakrabbamein á síðasta ári. Hún gekkst undir aðgerð þar sem bæði brjóst hennar voru fjarlægð og er í dag laus við sjúkdóminn.
Wilson þurfti að taka sér frí frá leiklistinni um tíma, en hún fer með hlutverk í leikritinu Fish in the Dark, sem sýnt er á Broadway. Hún var frá vinnu í mánuð, en sneri svo aftur á sviðið þar sem hún leikur á móti Larry David.
„Ég er laus við krabbann. Ég er hundrað prósent heilbrigð. Mér finnst ég afar heppin og vil sýna fólki að það getur fengið krabbamein, en samt gert hluti sem það elskar að gera. Þetta er ekki dauðadómur líkt og hér áður fyrr“ sagði Wilson sjónvarpsviðtali í gær.
Eiginmaður Wilson, Tom Hanks, hefur einnig tjáð sig um veikindi konu sinnar, en hann segir Wilson algera hetju.
„við erum lánsöm því við höfum efni á bestu læknisþjónustu sem völ er á, engu að síður get ég ekki annað gert en dáðst að hugrekki konu minnar.“