Uppselt var í forsölu á Justin Bieber tónleikana sem haldnir verða í Kórnum í Kópavogi næsta september á aðeins klukkustund í morgun. Á morgun klukkan 10 hefst svo almenn sala, en þá er mun um helmingur miðanna fara í sölu. Þetta staðfestir Ísleifur Þórhallsson, tónleikahaldari Senu, en fyrirtækið flytur listamanninn inn.
Ísleifur segir að miðað við viðbrögðin í morgun, þar sem „mörg þúsund náðu ekki miðum“ megi gera ráð fyrir að strax seljist upp á morgun. „Eftirspurnin er miklu miklu miklu meiri en framboðið,“ segir hann. Það hafi bæði sést í forsölunni í dag og í gær þegar sala hófst til aðdáendaklúbbs Bieber og strax seldist upp. Samt sem áður þurftu þeir sem keyptu miða að greiða fimm þúsund til að ganga í klúbbinn aukalega við miðagjaldið.
„Ég viðurkenni að okkur óraði ekki fyrir þessum hita og látum,“ segir Ísleifur og bætir við að þetta séu 19 þúsund manna tónleikar í 330 þúsund manna landi. Hann tekur fram að þótt skemmtilegt sé þegar vel gangi þá finnist honum einnig leiðinlegt að geta ekki sinnt eftirspurninni betur og að margir muni væntanlega ekki fá miða. Ljóst sé þó að eitthvað verði um tónleikamiða í jólapökkum í ár.
Mbl.is fékk upplýsingar frá ósáttum Bieber-aðdáendum í dag um að villa hefði komið upp þegar reynt var að kaupa miða. Í sölunni í dag var notast við svokallaða stafræna biðröð, en slíkt dregur úr álagi á netþjóna og verður til þess að síðan fer síður niður vegna mikillar umferðar. Fær hver og einn númer og er sagt frá því hvar hann sé í röðinni og hvenær hann geti gengið frá greiðslu og öðru slíku.
Ísleifur segir að rafræna biðröðin hafi gengið mjög vel í dag, en að það líti út fyrir að komið hafi upp bilun hjá netþjónustufyrirtæki í dag á sama tíma og biðröðin var í gangi. Það hafi orðið til þess að einhverjir misstu sæti sitt í röðinni. Segir hann leiðinlegt þegar svona gerist, en erfitt sé að taka ábyrgð á því sem gerist hjá þriðja aðila. Þá komi kerfið í veg fyrir örtröð og að kerfin hrynji. „Þetta kemur röð á hlutina og er gott fyrir alla,“ segir hann og bætir við að þessi tækni hafi sannað sig og verði notuð áfram.