David Bowie látinn

Tónlistarmaðurinn David Bowie er látinn, 69 ára að aldri. Hann hafði barist við krabbamein í átján mánuði. 

David Bowie árið 1983
David Bowie árið 1983 AFP

Bowie, sem er einn þekktasti tónlistarmaður sinnar kynslóðar, gaf út síðustu plötu sína í síðustu viku.

David Bowie árið 1996
David Bowie árið 1996 mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir

Talsmaður Bowies greindi frá andláti hans í morgun en mikil leynd hafði hvílt yfir veikindum tónlistarmannsins.

Bowie kom fram á tónleikum á Listahátíð árið 1996 og lék hér fyrir fullu húsi.

Í færslu á twittersíðu Bowies kemur fram að hann hafi látist í faðmi fjölskyldunnar á sunnudag. Aðdáendur hans eru beðnir að virða einkalíf fjölskyldunnar og leyfa henni að syrgja í næði.

Nýjasta plata hans, Blackstar, kom út á föstudag, á afmælisdegi Bowies en hún er 25. stúdíóplata hans. Aftur á móti hefur David Bowie nánast ekkert sést opinberlega í marga mánuði en veikindi hans hafa farið afar leynt. Mun lengra er þó síðan hann hefur komið fram á tónleikum eða tíu ár þegar hann kom fram á tónleikum í New York. Orðrómur hefur verið uppi um heilsufar hans í nokkur ár án þess að nokkuð hafi fengist upplýst þar um. 

David Bowie
David Bowie AFP

Sonur Bowies, Duncan Jones, einnig þekktur sem Zowie Bowie, staðfestir fréttirnar á Twitter. „Mér þykir það mjög leitt að segja að þetta er satt. Ég verð ótengdur í einhvern tíma. Ég elska ykkur.“  Duncan Jones er sonur Bowies og fyrri eiginkonu hans, Angela Bowie.

David Bowie og fyrirsætan Iman gengu í hjónaband árið 1992 og saman eiga þau dóttur, Alexandriu „Lexi“ Zöhru Jones, 15 ára. 

Nýjasta plata hans hefur fengið jákvæð viðbrögð gagnrýnenda en hana má nálgast í heild, alls sjö lög, á Spotify. 

Bowie öðlaðist heimsfrægð árið 1972 með plötunni The Rise and Fall of Ziggy Stardust and the Spiders From Mars.

Meðal þekktra laga hans eru: Let's Dance, Space Oddity, Heroes, Under Pressure, Rebel, Rebel, Life on Mars og Suffragette City.

Fjölmargir hafa minnst söngvarans í morgun enda einn helsti áhrifavaldur í vestrænni tónlist áratugum saman.

Iman skrifaði á Twitter á laugardagað stundum sé því þannig farið að þú gerir þér ekki grein fyrir því sem mestu skiptir fyrr en það er orðið að minningu.

Marc Almond skrifar á Twitter í morgun að það sé ekki oft sem hann bresti í grá við fráfall listamanns en svo sé nú. „Hann skipti svo miklu máli. Bless David Bowie og vor æska. Við elskuðum þig.“

Madonna segist vera gjörsamlega eyðilögð eftir að hafa heyrt fréttir af andláti hans og David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, þakkar Bowie fyrir allt.

David Bowie á tónleikum 2002.
David Bowie á tónleikum 2002. AFP

AFP fréttastofan segir andlát Bowies marka tímamót í sögu breskrar tónlistar en ferill hans nær aftur til sjöunda áratugarins. Árið 1969 kom Space Oddity út en þar er fjallað um geimfarann Major Tom sem er skilinn eftir í geimnum.

Bowie kom víða við á ferlinum, glamúrrokk, nýrómantík, krautrokk, og danstónlist. Svo ekki sé talað um hefðbundið rokk og svo mætti lengi telja. 

David Robert Jones fæddist í Brixton 8. janúar 1947 og bjó þar þangað til fjölskyldan flutti til Bormley þegar hann var sex ára gamall.

Árið 1966 breytti hann nafni sínu í David Bowie svo honum yrði ekki ruglað saman við Davy Jones, aðalsöngvara The Monkees. Á áttunda áratugnum gaf hann út mörg af sínum þekktustu lögum en það var síðan á Berlínar árunum 1976-1979 sem hann fór að gera tilraunir með raftónlist og þrennan Low, Heroes og Lodger leit dagsins ljós hjá kamelljóninu Bowie. 

Á níunda áratugnum kom út platan Let's Dance með lögum eins og China Girl og Modern Love og árið 1985 kom hann fram á LiveAid tónleikunum og flutti lagið Dancin' in the Street með Mick Jagger. 

David Bowie á tónleikum 2002.
David Bowie á tónleikum 2002. AFP

Filmography

David Bowie
David Bowie AFP


 Ívar Páll Jónsson skrifaði gagnrýni um tónleika Bowies í Laugardalshöllinni í júní 1996 í Morgunblaðið:

Tónleikar breska rokkarans David Bowie á Listahátíð 1996. Með honum voru Gail Ann Dorsey á bassa, Reeves Gabrels á gítar, Mike Garson á hljómborð og Zachary Alford á trommum. Hljómsveitin Lhooq hitaði upp.

„David Bowie gefst seint upp á að ögra aðdáendum sínum. Tónlist hans er ekki auðmelt og oftast þarf að hlusta nokkrum sinnum á plötur rokkgoðsins til að njóta þeirra til fullnustu. Þó eru tveir kaflar á ferli listamannsins sem svo er ekki um. Í byrjun 8. áratugarins og á þeim 9. sendi hann frá sér þrjár hlustendavænar plötur; The Rise and Fall of Ziggy Stardust and the Spiders from Mars , Let's Dance og Tonight .

Að öðru leyti hefur Bowie ekki samið "popptónlist". Gagnrýnendur hafa farið fögrum orðum um verk hans, en sjaldan hafa plötur hans náð gríðarlegri sölu.

Nýjasta skífa Bowies heitir 1.Outside . Þar fetar hann enn nýja stigu og er mál manna að töluverða hlustun þurfi til að grípa gripinn, en þegar á annað borð sé búið að brjóta "hlustunarmúrinn" skipi platan heiðurssæti.

Nú hefur það alltaf legið ljóst fyrir að tónleikaferðalagi Bowies er ætlað að kynna plötuna 1.Outside . Því var frumforsenda þess að njóta tónleikanna að hafa hlustað á þá plötu. Hins vegar hafa útvarpsstöðvar lítið kynnt þann grip, hinsvegar spilað "gömlu og góðu" lögin, ef einhver. Það er því kannski von að hinn venjulegi tónleikagestur hafi orðið fyrir vonbrigðum, því þótt meirihluti laga Bowies þetta kvöld hafi verið gamall voru útsetningarnar nýstárlegar og lítið var um gömlu góðu vinsælu lögin. Einna helst má segja að Under Pressure , sem hann söng með Freddie Mercury á sínum tíma, hafi verið í upprunalegri útsetningu. Jú og kannski Look Back in Anger , sem er nú reyndar varla "popplag" í væmnasta skilningi þess orðs.

Fyrir Bowie-aðdáanda voru tónleikarnir stórkostlegir. Þeir hófust á hinum magnaða Outside-seið Motel , sem náði hámarki með þungum trommuslætti og kraftmiklum söng meistarans. Undirritaður var reyndar einnig viðstaddur tónleika Bowies í Dublin í nóvember og fullyrðir að söngur hans hafi aldrei verið betri. Þó var eins og röddin væri hálf kraftlítil á köflum, hann veigraði sér við að syngja hæstu nóturnar, enda hefur hann haldið ófáa tónleika upp á síðkastið. Hafa ber í huga að hann er 49 ára gamall stórreykingamaður og hefur oft reynt á röddina.

Á eftir þessu fyrsta lagi komu nokkur gömul lög, eins og fyrrnefnt Look Back in Anger af plötunni Lodger og Scary Monsters af plötunni Scary Monsters and Super Creeps . Of langt mál væri að telja upp öll lögin, en á efnisskránni voru til skiptis gömul lög og ný. Mesta athygli vakti glænýtt lag, Telling Lies . Frábært, að mati undirritaðs.

Stemmning var mestan tímann ekki sérlega góð, nema ef til vill fremst. Þar datt hún einnig töluvert niður um miðbik tónleikanna, þegar flutt voru hæg lög af 1.Outside á borð við Wishful Beginnings . Fólk tók þó vel við sér þegar nýjasta smáskífulagið, Hallo Spaceboy , tók að hljóma. Í lokin, þegar fólk heyrði lagið Under Pressure og Heroes ætlaði allt um koll að keyra. Gestir í sætum risu upp og klöppuðu móðursýkislega.

Eftir Heroes gekk Bowie af sviði ásamt hljómsveit sinni. Hann var síðan klappaður upp og lætin urðu ekki minni þegar hann tók lögin White Light, White Heat með Velvet Underground, All the Young Dudes , sem hann samdi fyrir Mott the Hoople og Moonage Daydream , eina lagið af Ziggy Stardust -plötunni þetta kvöld.

Hljómsveit Bowies var geysiþétt, enda hefur hann verið þekktur fyrir að velja aðeins úrvals hljóðfæraleikara til samvinnu. Mike Garson (sem er kannski ekki öllum að skapi) fór á kostum í lögunum Motel og Aladdin Sane . Reeves Gabrels sýndi ekki minni snilli á gítarinn. Undirritaður hreifst mjög af leikni bassaleikkonunnar Gail Ann Dorsey á hljóðfærið, ekki síst í laginu Under Pressure þar sem hún söng mjög krefjandi laglínu með bassaleiknum. Trommuleikur var einnig mjög góður.

Hljómur var hins vegar ekki góður, þótt hann hafi heldur lagast þegar á leið. Aftast var hljómburður hins vegar holur og tómlegur. Erfitt er að segja hverju er um að kenna, en þó er ljóst að höllin er ekki heppilegur tónleikastaður eins og áður hefur komið í ljós.

Greinilegt var að Bowie var heldur lúinn á tónleikunum og þótt sviðsframkoma hans hafi verið lífleg var hún rólegri en oft áður. Hann settist nokkrum sinnum niður, hvort sem um er að kenna þreytu eða ekki, því hann gerði það líka í Dublin í nóvember. Sviðið í Laugardalshöll er frekar lítið og ekki pláss til mikillar líkamsræktar. Ljósasýning var með ágætum og dró athyglina frá berangurslegri sviðsmynd, sem naktir hallarveggirnir bættu ekki.

Margt má setja út á framkvæmd tónleikanna og má segja að þótt Bowie hafi staðið fyllilega fyrir sínu, sé aðra sögu að segja um tónleikahaldara. Það þarf kannski ekki að koma á óvart eftir að einn þeirra lýsti opinberlega yfir gelgjulegri aðdáun á kappanum, þannig að margir fengu á tilfinninguna að tónleikarnir væru yfirvarp fyrir dýrasta stefnumót í heimi, að minnsta kosti framan af.

Til dæmis voru of margir miðar seldir í sæti eða ofgnótt af boðsmiðum dreift. Þurftu fjölmargir gestir að sitja á tröppum milli sætanna, sem er að sjálfsögðu ekki boðlegt fyrir tæplega 4.000 krónur. Þá voru allt of margir gestir niðri á gólfi. Sömuleiðis var öryggisgæslu þannig háttað að sjá mátti, þegar birta leyfði, gesti staupa sig. Einnig má nefna að sviðið var of lágt og margir gestir í lágvaxnari kantinum sáu Bowie illa eða alls ekki.

Viðvaningsbragnum á skipulagi tónleikanna tókst þó ekki að spilla fyrir ánægjunni samfara komu kappans til landsins.“

David Bowie
David Bowie AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú ert að uppgötva nýja hluti og þarft að gefa þér tíma til að njóta þeirra sem best þú getur. Þú átt á hættu að vera misskilinn.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú ert að uppgötva nýja hluti og þarft að gefa þér tíma til að njóta þeirra sem best þú getur. Þú átt á hættu að vera misskilinn.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar