Emmanuelle Riva er stödd á hótelherbergi sínu á Hótel Borg. Umhverfið fer henni vel. Þessi 89 ára gamla Parísardama er mjög lágvaxin en teinrétt, óförðuð, fáguð og töffaraleg með grátt, stutt og strítt hár. Hún er lífleg í fasi þrátt fyrir að segja mér að hún sé dauðþreytt eftir tökur dagsins. Riva er um þessar mundir að leika í nýrri kvikmynd Kristínar Jóhannesdóttur sem ber vinnuheitið Alma og er framleidd af Guðrúnu Eddu Þórhannesdóttur fyrir Duo Productions.
Riva, sem var tilnefnd til Óskarsverðlauna árið 2012 fyrir leik sinn í stórvirkinu Amour eftir Michael Haneke, varð stjarna þegar hún lék sitt fyrsta aðalhlutverk í kvikmyndinni Hiroshima mon amour eftir leikstjórann Alain Resnais árið 1959. Hún leikur burðarhlutverk í kvikmynd Kristínar á móti Kristbjörgu Kjeld og með önnur hlutverk fara hin unga Snæfríður Ingvarsdóttir, Hilmir Snær Guðnason og Snorri Engilbertsson ásamt fleirum.
Það eru vissulega stórtíðindi, segir Guðrún Edda mér áður en ég hitti Riva, að Kristín Jóhannesdóttir sé að fara að gera kvikmynd en síðasta kvikmynd hennar Svo á jörðu var í „Out of Competition“-dagskránni á Cannes á tíunda áratug síðustu aldar. „Kristín er einn af okkar merkustu kvikmyndagerðarmönnum, með doktorsgráðu í leikstjórn frá Frakklandi,“ segir Guðrún.
Í framhaldi af velgengni Svo á jörðu fékk Kristín ekki brautargengi hér á landi og menn hafa jafnvel líkt því við menningarslys. Ásgrímur Sverrisson ritar m.a. í Morgunblaðið árið 2009: „Ég vil ganga svo langt að fullyrða að það sé menningarlegt slys að Kristínu hafi ekki auðnast að gera fleiri myndir, ég tel hana hafa verið í hópi framsæknustu leikstjóra Evrópu á sínum tíma.“
Riva, sem talar enga ensku og aðeins frönsku líkt og flestir Frakkar yfir miðjum aldri, segist hafa kolfallið fyrir handritinu og slegið strax til, þrátt fyrir ferðalagið til Íslands, sem hafi verið krefjandi sökum aldurs. Þetta er fyrsta heimsókn hennar til Íslands og hún viðurkennir að hafa ekki vitað mjög mikið um landið. „En það er vissulega mikið talað um Ísland í Frakklandi. Margar heimildarmyndir hafa verið sýndar um Ísland og ég hef lesið fjölmargar blaðagreinar um landið. Ég var keyrð í kringum Reykjavík sem var áhugavert og skemmtilegt og svo fékk ég aðeins að kynnast landslaginu. Ég fór að skoða Geysi, það var stórkostlegt ferðalag og áhrifamikið. Þetta var eins og að ferðast í gegnum ísilagða eyðimörk. Og ljósið, það var svo óraunverulegt og töfrandi.“
Riva segist þó hafa orðið undrandi yfir úrvali verslana í miðborg Reykjavíkur. „Einu búðirnar í miðbænum eru minjagripabúðir. Það eru engar matarbúðir! Það er ekki að sjá að það sé til einn einasti ávöxtur eða grænmeti í bænum. Í París eru markaðir um allar götur og grænmetis- og ávaxtastandar í öllum búðum en hér er bara eins og fólk borði ekki slíkt.“
Hún er hugsi og segir svo afsakandi að hún sé ekkert að gagnrýna. „Þið eruð með stórkostlegar bókabúðir, það er greinilegt að það er mikill áhugi á bókmenntum á Íslandi. En veistu hvað, umboðsmaðurinn minn fór á stúfana, við fundum eina heilsuvörubúð i miðbænum, og þar var allt selt þurrkað í pökkum. Ekkert grænmeti. Meira að segja á hótelinu mínu þá fékk ég bara þrjú lítil spínatblöð með matnum mínum. Ég þarf að borða mikið grænmeti á hverjum degi en ég held að Íslendingar borði ekki grænmeti. Ég býst við að þið borðið bara fisk og lamb sem er dásamlega góður matur. Ég fékk fisk í gær með kartöflumús en svo var bara pínulítið grænt á disknum. Maður þarf að hafa fyrir að leita að þessu græna.“
Ég spyr hvað hún geri þá í slíkum kringumstæðum, grænmetislaus á norðurhjara veraldar og hvort hún hafi þurft að láta keyra sig út í almennilega búð. „Ertu brjáluð? Átti ég að fara út, í hálkunni og renna þar og slasa mig í leit að grænmetisbúðum? Nei, ég geri ekki slíkt. Ég bara borða lambakjöt, fisk og svo hafa þeir búið til fínustu eplamús hér fyrir mig á hótelinu. Ekki misskilja mig, þetta er bara svo ólíkt frönsku mataræði,“ segir hún og andvarpar. En ferðast hún mikið vegna vinnu sinnar?
„Ég er hætt því. Ég er orðin 89 ára þú skilur. Það er ekki eins og að vera tvítugur, þrítugur, fertugur, fimmtugur, sextugur. Þegar maður er 89 ára þá koma upp allskonar kvillar í líkamanum. Maður fer að finna til út um allt.“ Hún hristir höfuðið og brosir. „Þú skilur greinilega ekki hvernig það er að eldast. En þú munt hafa nægan tíma til þess. Jú jú, ég ferðast stundum. Ég var á Ítalíu um daginn og ég mun ferðast eitthvað áfram en ég reyni að passa að ferðast ekki of mikið, ég vel bara úr verkefnum það sem mér finnst áhugaverðast. Annars verð ég of þreytt.“
En svo ljómar á henni andlitið og hún segir: „Það er alveg merkilegt hvað mér hefur boðist mikið af verkefnum á gamals aldri. Ég er afskaplega heppin. Það hjálpar mér að vera ennþá hress. Maður finnur að maður er ennþá til einhvers nýtur. En flugvélar þreyta mig. Mig langaði bara svo mikið að vinna með Kristínu. Hún valdi mig, hún hafði séð mig í Hiroshima mon amour og í Amour og hún sagði: „Ég vil fá hana, já og takk.“ Og ég sló strax til. Handritið að kvikmyndinni er algjörlega stórkostlegt, ég kolféll fyrir því. Það er dramatískt, töfrandi, erfitt og fyndið allt í senn. Ég ætla ekki að segja þér frá allri sögunni en í stuttu máli leik ég gamla konu, franska, á móti annarri gamalli konu sem er íslensk og leikin af Kristbjörgu Kjeld. Þær þekktu báðar móður ungrar stúlku, Ölmu, og stúlkan annast svo konurnar tvær í ellinni. Í myndinni á sér stað dramatísk atburðarás með ýmislegum persónum og atvikum.“
Riva segir kvikmyndina gerólíka öllu sem hún hefur áður fengist við. „Þú skilur, það er þannig að þegar maður er leikari vill maður alls ekki endurtaka sig.“ Henni verður mikið niðri fyrir. „Ég þoli ekki þetta „le star system“ (stjörnukerfið). Ég er gersamlega mótfallin því. Allir eru svo vanir einhverskonar stjörnudýrkun í heiminum í dag. Mér var boðið þetta stjörnukerfi í kjölfar Hiroshima mon amour en ég hafnaði því algjörlega. Það olli mér erfiðleikum í kjölfarið af því þegar maður neitar þá verður fólk móðgað. Svo kemur bara einhver eyðimörk þar sem maður fær ekkert að gera,“ útskýrir hún. „En svo bara kom þetta allt aftur. Ég byrjaði að leika aftur, á sviði, í útvarpi, í kvikmyndum.“
Hún verður dálítið kímin á svip og lækkar róminn. „En ég er alltaf að ýkja. Það er bara minn stíll. Ekki taka mark á mér. Og ekki skrifa þetta allt,“ segir hún og hlær.
En aftur að hinni íslensku kvikmynd. „Kristbjörg er alveg stórkostleg, og líka unga stúlkan sem leikur Ölmu. Kristín velur ótrúlega vel í hlutverkin og það er svo mikilvægt. Mér finnast þessar leikkonur alveg einstakar.“ En hvar eiga tökurnar sér stað? spyr ég og fer að hugsa um febrúarkuldann.
„Nú, við erum bara alltaf inni í gömlu húsi. Alltaf sama húsinu. Við Kristbjörg getum ekki verið í útitökum, þú skilur það. Við gætum dáið. Gætum kannski fengið lungnabólgu og dáið.“ Nú fer ég að skellihlæja.
„Trúir þú mér ekki? Finnst þér þetta fyndið? Ég gæti nú bara dáið hvenær sem er,“ segir hún en brosir svo. „Jæja, allt í lagi, það er ágætt að þú trúir mér ekki. En þess vegna erum við alltaf inni í þessu sama skrýtna húsi á mörgum hæðum. Sviðsmyndin, líkt og handritið, er alveg einstaklega áhrifamikil og heillandi.“
Ég segi henni hreinskilnislega að mér finnist hún mjög ungleg miðað við 89 árin og að hún líti bara ekkert út eins og hún sé að hrökkva upp af.
„Jahá,“ segir hún hugsi. „Það er áhugavert.“ Svo verður hún áköf og brosir. „ Það er kannski þessi bransi sem gerir mann unglegri. Það er eins og maður þurfi að innbyrða líf annarra í hvert skipti sem maður leikur nýtt hlutverk. Maður á sitt eigið líf og svo í hvert skipti sem maður leikur aðra manneskju þá er það ákveðin endurfæðing. Eða jafnvel endurlífgun. Mér dettur það nú bara í hug á meðan ég er að tala við þig. Þetta er mjög óvenjulegt starf, að vera leikari.“
Mig langar að vita hvort hún fylgist með kvikmyndaheiminum á Íslandi. „Ég veit að það er mikið að gerast hjá ykkur. Mig langar að sjá Hrúta og Hross í oss. Ég hef heyrt mikið um íslenskar kvikmyndir. Ég vona að ég geti tekið þær með mér á DVD þegar ég sný heim til Parísar. En ég á hvorki sjónvarp né tölvu og ekki einu sinni snjallsíma. Ekkert. Fólk horfir á kvikmyndir á litlum símum,“ segir hún hneyksluð. Ekki þó í Frakklandi? spyr ég. „Jú, allir horfa á kvikmyndir á pínulitlum skjá sem er jafnstór frímerki. En það er ekki hægt að finna tilfinningar í gegnum frímerki. Alvöru kvikmyndir á maður að sjá í kvikmyndahúsum, fyrir fullum sal af fólki. Þannig á það að vera.“
Ég segi við Riva að hún þyki nú ákveðið tákn fyrir franska kvikmyndagerð og þá sérstaklega frönsku nýbylgjuna með Hiroshima mon amour. „Nei, í rauninni var ég það ekki,“ leiðréttir hún mig. „Þrátt fyrir að margir tengi Resnais (leikstjórann) við nýbylgjuna þá var hann í raun ekki hluti af frönsku nýbylgjuhreyfingunni. Hann var oft nefndur í sömu andrá og leikstjórar eins og Truffaut og Godard en kvikmyndin hans var sér á parti. Hiroshima kemur svo mikið á óvart og handritið er svo sterkt. Upphaflega átti hann að gera heimildarmynd um kjarnorkusprengjuna á Hiroshima. Hann horfði á fjölmargar myndir um Hiroshima og varð fyrir svo miklum áhrifum að hann varð veikur. Þetta var auðvitað svo hryllilegt viðfangsefni. Hann neitaði að gera enn aðra heimildarmyndina en vildi í staðinn gera leikna kvikmynd og fékk rithöfundinn Marguerite Duras til að skrifa handritið. Hann fékk mig margoft í prufur og ákvað svo loks að ég ætti að leika aðalhlutverkið. Það var alveg stórkostlegt tækifæri fyrir mig.“ Hún segir að myndin eldist í raun aldrei. „Hún verður alltaf nútímaleg og kemur stöðugt á óvart. Kjarnorkusprengjur eru jú ennþá til og ástin er ennþá til. Þessi mynd brýtur sig frá öllum skilgreiningum og öllum tíma finnst mér.“
Spurð hvernig hennar daglega líf í París sé segir hún að það sé látlaust. „Ég á heima í París en ég er ekki frá París. Ég er frá Vosges-fjöllunum, frá Lorraine-héraðinu. Ég fæddist í pínulitlu þorpi og er sveitastúlka, kem af vinnufólki og listamönnum. Ég er mjög stolt af því. Afi minn, Alfredo Riva, var ítalskur smiður. Mér líður ekkert eins og Parísarbúa. Samt hef ég búið í París næstum alla ævi, og á marga vini þar. En ég ákvað að halda í æskuheimili foreldra minna í Vosges. Húsið er pínulítið og ekkert fínt, en ég er með garð, blóm og dýr. Ég þurfti að tala svo mikið við fjölmiðla fyrir myndina Amour að það eru örugglega allir hundleiðir á að heyra um æsku mína, en ég get samt sagt þér að ég var í ballett frá því að ég var lítil og mig langaði alltaf að verða leikkona. Ég elskaði að lesa upphátt fyrir fólk úr merkum bókum. Einn góðan veðurdag þegar ég var táningur sá ég auglýst inntökupróf um að komast í hinn virta Rue Blanche-skóla og þá sagði ég við foreldra mína: „Ég ætla að sækja um og komast inn.“ Ég labbaði inn alein án þess að þekkja neinn og komst inn og þetta var stórkostlegur skóli. Strax að honum loknum lék ég í leikriti eftir George Bernard Shaw og fékk frábærar viðtökur. Svona byrjaði þetta.“
Riva segir mér að hún hafi verið beðin um að vera viðstödd Stockfish-hátíðina í Reykjavík en hafi því miður ekki getað það sem henni þyki leiðinlegt. „Það hefði bara verið of þreytandi fyrir mig að þurfa að fljúga aftur til Íslands. Kvikmyndavesenið allt er þreytandi. Þegar Amour kom út þurfti ég að ferðast mikið, og það var erfitt. Ég þurfti að vera viðstödd Cannes-hátíðina og svo César-hátíðina þar sem ég vann verðlaun. Strax næsta dag þurfti ég að fljúga til Los Angeles þar sem ég var tilnefnd til Óskarsverðlauna. Þetta var fyrir fjórum árum og þetta var alveg hræðilegt. Það var ömurlegt að sitja í þessum sal. Fólk að tala og æpa og svo var allt of heitt. Yngri leikkonurnar allar með svo stórar tennur, eins og hákarlar. Alltaf að reyna að bíta í næsta hlutverk. En ég fékk auðvitað ekki Óskarinn, sem var löngu vitað af því að Frakki hafði fengið verðlaunin árinu áður og þeir fara auðvitað ekki að gefa fólki frá sama þjóðerni Óskar tvö ár í röð. Svo er þetta líka allt hápólitískt hjá þeim þarna.“
Hún hlær. „Ég slapp fallega frá þessum verðlaunum. L‘échappée belle. Maður þarf ekki á Óskarsverðlaunum að halda. Það er varla hægt að halda á þessari styttu og svo er hún virkilega ljót. Ég hugsaði með mér, úff, ég hefði litið fáránlega út með þessa styttu. Gamalt fólk með svona styttu er bara kjánalegt.“ Svo brosir hún sínu breiðasta.
„Veistu hvað. Ég er alltaf jafn ótrúlega hissa þegar fólk vill ennþá fá mig til að leika í kvikmyndum, þrátt fyrir að ég sé orðin svona gömul. Ég þakka örlögunum mínum kærlega fyrir það.“