Breska ríkisstofnunin um heilbrigði og öryggi á vinnustöðum hefur höfðað mál gegn framleiðslufyrirtækinu sem framleiddi nýjustu Star Wars-myndina. Ástæðan er óhapp sem varð við tökur á myndinni, með þeim afleiðingum að Harrison Ford fótbrotnaði.
Sjá frétt mbl.is: Harrison Ford slasaður
Það vakti mikla athygli þegar fréttir bárust af því að Harrison Ford hafi slasast við tökur. Þung stálhurð féll á hann með þeim afleiðingum að hann fótbrotnaði.
Forsvarsmenn framleiðslufyrirtækisins Foodles, sem er dótturfyrirtæki Disneys, segjast vonsviknir með ákvörðun stofnunarinnar um málshöfðunina. „Öryggi starfsmanna okkar er alltaf haft í fyrirrúmi. Við unnum vel með yfirvöldum í þessu máli og ákvörðun þeirra um að höfða mál gegn okkur veldur okkur vonbrigðum,“ segir talsmaður fyrirtækisins við BBC.
Talsmaður stofnunarinnar segir hins vegar að eftir að slysið hafði verið rannsakað komu í ljós ýmsir ágallar á vinnustaðnum sem gerðu það að verkum að staðurinn var hættulegur fyrir leikarana. „Samkvæmt lögum verða eigendur fyrirtækjanna að bera ábyrgð á öryggi starfsmanna sinna,“ segir talsmaðurinn í samtali við BBC.
Aðilar málsins mætast fyrir dómara í Wycombe í Bretlandi þann 12. maí næstkomandi.