Greta Salóme Stefánsdóttir, er á leið í Eurovision fyrir hönd Íslendinga í annað skipti, í þetta sinn með lagið „Hear Them Calling“.
Lagið var í öðru sæti eftir fyrri kosningu kvöldsins, þar sem lögð voru saman stig dómnefndar og áhorfenda. Lagið „Now“ í flutningi Öldu Dísar Arnardóttur tróndi þá á toppnum en aðeins 78 stig skildu þær stöllur að í fyrstu símakosningunni.
Þegar bæði lögin höfðu verið flutt á ný og spurt var að leikslokum var það hinsvegar Greta sem stóð uppi sem sigurvegari. Lagið er hennar eigin smíð, rétt eins og árið 2012 þegar hún flutti lag sitt „Never Forget“ ásamt Jóni Jósepi Snæbjörnssyni í Aserbaídsjan.
Greta átti marga aðdáendur í salnum í kvöld sem kyrjuðu nafn hennar áður en útsending hófst. Einn vissi þó ekki í hvorn fótinn hann átti að stíga en það var Pétur Örn Guðmundsson sem var bakraddasöngvari í báðum lögunum. Stillti hann sér því upp mitt á milli hópanna tveggja, en fagnaði svo með Gretu og hennar teymi þegar úrslitin urðu ljós.