Á síðasta ári var oft talað um að konur væru að taka sér rými, með því að deila og dreifa sögum af kynbundnu ofbeldi og frelsa geirvörtuna. Þessi hugmynd um rýmið byggist á því að áður fyrr (og raunar enn í sumum tilfellum) áttu konur ekki hluta í hinu almenna rými samfélagsins. Þær voru punt en ekki „players“, máttu sjást en ekki heyrast. Það voru því mikil umskipti frá því sem áður var þegar fjölmennasta rappsveit landsins steig á svið í sjónvarpsþættinum Vikan í umsjá Gísla Marteins Baldurssonar og tók allt rýmið.
Reykjavíkurdætur röppuðu, dilluðu sér og dönsuðu um alla stofuna, í sófunum og fyrir aftan þá og jafnvel á kjöltu Gísla Marteins. Einum gestanna, Ágústu Evu Erlendsdóttur, var svo misboðið að hún stóð á fætur og gekk út, áður en laginu „Ógeðsleg“ var lokið.
Atriðið hefur varla farið framhjá neinum og skipt samfélagsmiðlum í stríðandi fylkingar, þá sem styðja Reykjavíkurdætur, þá sem styðja Ágústu, þá sem eru í báðum liðum og jafnvel þá sem eru í hvorugu.
Áður en lengra er haldið skal tekið fram að persónur og leikendur í „Ógeðsleg(a)“ málinu eru fleiri en umræðan hefur gefið til kynna. Reykjavíkurdætrum var boðið í Vikuna af þáttastjórnandanum Gísla Marteini Baldurssyni og auk Ágústu Evu voru þrír aðrir gestir; Sólmundur Hólm, Jóhannes Haukur Jóhannesson og Eivør Pálsdóttir.
Líklegt má þykja að gestum þáttarins hafi ekki verið ljóst hvers eðlis flutningur Reykjavíkurdætra yrði en Gísli Marteinn hefur verið við öllu búinn.
Yfir hverju voru Reykjavíkurdætur brjálaðar? Það kom ekki fram í þættinum en þegar litið er til liðinnar viku í tónlistarbransanum verður ekki horft fram hjá samantekt Sölku Sólar Eyfeld og í kjölfarið Knuz.is sem sýndi fram á gríðarlegan kynjahalla þegar kemur að lagahöfundum og flytjendum á stærstu útihátíð landsins; Þjóðhátíð í Eyjum.
Reykjavíkurdætur deildu innleggi Sölku með fylgjendum sínum á Twitter og er hugsanlegt að framkoma þeirra í Vikunni hafi að einhverju leiti komið til vegna þessa kynjahalla sem í gegnum tíðina hefur verið réttlættur með orðum um „vinsælustu“ og jafnvel „skemmtilegustu“ listamennina.
Frétt mbl.is: Viljum bara skemmtilegustu skemmtikraftana
Frétt mbl.is: Þurfa konur að bíða til 2039?
Lagið „Ógeðsleg“ markaði vissa stefnubreytingu hjá Dætrunum. Þær hafa mátt þola nokkra andstöðu allt frá upphafi en í febrúar 2015 fór Twitter yfir um eftir að rapparinn Emmsjé Gauti sagði þær vera „feita pælingu sem gekk ekki upp“.
Ummælum hans tóku margir sem leyfi til að rakka þær niður með mismálefnalegum og hatursfullum ummælum. Var þar mikið sett út á femínísk skilaboð sveitarinnar sem og almenna hæfileika meðlima hennar auk þess sem einn notandi Twitter kallaði þær „remúlaði fylltar brundbuddur.“
„Reykjavíkurdætur hljóma eins og gólin í hundi sem verið er að farga. Rakið ykkur undir höndunum og drullið ykkur í eldhúsið,“ sagði annar.
Hingað til höfðu Reykjavíkurdætur að mestu leiti forðast að níða aðra til að upphefja sjálfar sig, meðvitað eða ómeðvitað. Sú iðja er nátengd rappinu sem listgrein sem spratt út frá þörf svartra Bandaríkjamanna til valdeflingar og þess að skapa sér rými í heimi sem heldur þeim niðri.
Margir hefðu eflaust kosið að Reykjavíkurdætur héldu sig við jákvæða uppbyggingu, við að tala fallega. Á þessum tímapunkti virðist Dætrunum hinsvegar hafa verið nóg boðið því fáeinum mánuðum síðar kom „Ógeðsleg“ út með löngutöng á lofti.
Í „Ógeðsleg“ urðu Reykjavíkurdætur grófari, meira „grótesk“ og „ókvenlegri“ en áður. Textinn er kynferðislega ögrandi og var það meðal annars hann sem fór fyrir brjóstið á Ágústu Evu og mörgum áhorfendum.
„Oft hef ég fengið kjánahroll en aldrei skammast min jafn mikið og nú. Hlustar td einhver á lagatexta nú til dags? Skora á ykkur að lesa þennan texta,“ skrifaði Ágústa á Facebook.
Í samtali við Nútímann minntist hún sérstaklega á setninguna „Sjúgðu á mér snípinn tík“ en þeirri gagnrýni voru starfsbræður Dætranna í Úlfi Úlfi fljótir að svara.
Seinna staðfestu þeir að umrædda upphrópun hefðu þeir kastað fram í beinni sjónvarpsútsendingu og að eins hefðu þeir haft uppi ögrandi dans, þó reyndar hefðu þeir ekki tekið með gervisköp. Ein Reykjavíkurdætra, Anna Tara Andrésdóttir, mætti búin „strap-on“ gervilim í Vikuna. Betur verið vikið að því síðar.
Það er nefnilega ekki sama hver segir hlutina. Karlkyns tónlistarmenn hafa í gegnum tíðina haft mun meira svigrúm til að vera kynferðislegir í textasköpun og framkomu en konur. Mörgum kann að finnast sem svo að karlkynsrapparar séu undir ósanngjarnri pressu femínista. Hvað er þá hægt að segja um stöðu einu kvennasveitar Íslands sem vogar sér inn á svið blygðunarlaus kynferðis og er samstundis gripin fyrir „andfemíníska“ hegðun, mikið til af fólki sem hafnar hugmyndafræðinni og þykist vera að fella sveitina á eigin bragði.
Í dag er vaxandi þrýstingur á karlkyns tónlistarmönnum að forðast niðrandi skilaboð um konur en á sama tíma hefur ný pressa bæst á konur. Enn er til sá hópur sem frábiður þeim að vera kynferðislegar fyrir sakir siðsemi en nú er kynþokkinn og kynferðið einnig útilokað af þeim sem telja slíkt ýta undir hlutgervingu kvenlíkamans. Það er vandratað í skógi kvenfrelsisins.
Þegar kemur að því að gagnrýna eða greina texta og framkomu tónlistarmanna þarf einmitt oft að líta til þessa samhengis. Þegar Reykjavíkurdætur rappa um að eiga marga bólfélaga er merkingin önnur en þegar karlrapparar stæra sig af hinu sama.
Bæði er ætlað (meðvitað eða ómeðvitað) að vera valdeflandi en á meðan karlrappararnir draga vald sitt af því að „eiga“ margar konur er vald kvennanna sprottið út frá því að ögra kynhlutverki sínu með því að vera „lauslátar“ sama hvað svo sem samfélaginu kunni að finnast um það. Þannig staðfesta þær vald sitt yfir eigin líkama. Margir kynnu að líta á það sem ójafnrétti að þýðing þess sem sagt er ráðist af kyni viðkomandi en þá er líklega best að líta til samfélagsins sem skapar þann jarðveg, frekar en orðanna sem spegla hann.
Þegar rapptextar eru skoðaðir er einnig mikilvægt að skoða þá í heild, ekki bara setningu fyrir setningu. Lítum tildæmis á línurnar á undan snípslínunni umdeildu sem sökuð hefur verið um að fela í sér karlfyrirlitningu.
„Allsherjargyðja, himnaríki rétt neðan um mig miðja
þröng, nóttin er löng,
Heldurðu að þú höndlir þessa dínamík,
sjúgðu á mér snípinn tík.“
Hér upphefur ljóðmælandi eigin kynfæri með því að líkja þeim við himnaríki. Orðin „sjúgðu á mér snípinn tík“ eru auðtúlkuð sem ofbeldisfull skipun og er það í grunninn rétt eins og svipaðar línur úr fleiri textum karlmanna en teljandi er. Línan sprettur enda úr rapphefð sem er ofbeldisfull gagnvart konum og speglar hana, snýr leiknum við.
Þegar kemur að jafnréttisbaráttunni eru margir mótfallnir því að láta hart mæta hörðu en lokaútkoman er alltént sú að valdið er sett í hendur konunnar. Réttlætir það notkunina? Það er hlustandans að ákveða fyrir sig en víst er að línan fellur ekki inn í rótgróið net fyrirlitningar og ofbeldis gegn ákveðnum samfélagshópi ólíkt þeim línum sem hún speglar.
Þegar litið er á textann við „Ógeðsleg“ eru raunar lítið um kynferðislegt níð. Orðin „tussufokker“ og „motherfokker“ vekja vissulega ákveðnar spurningar en bæði snúa þau að níði gegn konum. Tussa er níðyrði yfir konur og píkur og „motherfokker“ er langlíft skammaryrði fyrir menn sem fremja „dauðasyndina“, að stunda kynlíf með móður annars manns. Orðið vísar þannig til gamalgróins eignarréttar karlmanna yfir kvenkynsfjölskyldumeðlimum sínum.
Að öðru leiti, að því er undirrituð getur best séð, er það helst Ban Ki Moon sem hefur ástæðu til að kvarta enda heldur ein Reykjavíkurdóttirin því fram að hún sé „búin að bangann“.
Eftir þessa yfirferð á texta lagsins er rétt að víkja að atriðinu sjálfu og útgöngu Ágústu Evu. Í viðtali í Hanastél á Rás 2 á laugardagsmorgun varpaði Þórður Helgi Þórðarson, betur þekktur sem Doddi litli, fram spurningu til poppfræðingsins Arnars Eggerts Thoroddsen.
„Er þetta ekki leikþáttur, er Silvía ekki með í þessu?,“ sagði Þórður. „Ef hún hefði ekki farið og rantað um þetta á netinu þá væri enginn að tala um þetta í dag.“
Arnar Eggert svaraði því til að hann gæti vel tekið undir þessa kenningu, hún væri vel hugsanleg. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Dæturnar eru bendlaðar við slíka markaðstækni því svipuð kenning kom upp í kringum fyrrnefnt tíst Emmsjé Gauta á þessum tíma í fyrra. Hér verður þó gengið út frá því að svo hafi ekki verið.
Ágústa Eva hefur hlotið bæði lof og last fyrir að ganga út í miðju lagi. Hún hefur meðal annars verið sökuð um tepruskap, hræsni sökum persónunnar Silvíu Nætur og einnig hefur hún verið gagnrýnd fyrir að styðja ekki kynsystur sínar í valdeflandi gjörningi.
Það er hinsvegar ekki sérstakur staður í helvíti fyrir konur sem hjálpa ekki öðrum konum, sama hvað Madeleine Albright kann að segja. Konur hafa jafn mikinn rétt og aðrir að fylgja sinni sannfæringu og til þess að yfirgefa aðstæður sem þeim þykja ógnandi eða óþægilegar.
„Henni fannst að sér vegið, það var gengið inn á hennar persónusvæði, hún upplifði þetta sem áreiti,“ skrifa Katrín Harðardóttir og Kristín Vilhjálmsdóttir fyrir feminíska vefritið Knúz.
„Hún hefur fullan rétt til sinna skoðana, upplifana og tilfinninga og það er algjör óþarfi að fara að rugla Silvíu Nótt saman við þetta atvik (Silvía Nótt var nefnilega alls ekki á staðnum).“
Að því sögðu er væri rangt að útiloka samanburð við Silvíu Nótt fyllilega í umræðu um atriðið. Skilaboð og hegðun hinnar sjálfhverfu Silvíu vöktu gríðarleg viðbrögð í samfélaginu á sínum tíma, rétt eins og Reykjavíkurdætur nú, ekki síst vegna þess að hún var dónaleg kona. Hún þrýsti á ramma þess sem mátti segja og gera í íslensku og Evrópsku sjónvarpi og hvort sem það var af hneykslun eða aðdáun fylgdust allir með.
Ágústa Eva var þannig brautryðjandi fyrir margar konur innan skemmtanaiðnaðarins sem vilja út fyrir þann kassa sem kyn þeirra setur þeim, hvort sem um ræðir Reykjavíkurdætur, grínistann Bylgju Babýlóns, dj. flugvél og geimskip eða aðrar konur sem taka óhefðbundna persónusköpun upp á næsta stig. Það þýðir ekki að hún þurfi að „fíla“ arftaka sína og enn síður að henni sé skylt að styðja þær. Svo aftur sé vitnað í Knúz:
„(...) það er hreint út sagt ömurlegt að gert sé lítið úr manneskju sem forðaði sér úr aðstæðum þar sem henni var kynferðislega misboðið. Hvað er að í þjóðfélagi sem sameinast um að skamma konu sem kemur sér út úr aðstæðum sem ofbuðu henni?“
En hvað var það sem ofbauð Ágústu? Hún útskýrði málið fyrir Nútímanum.
„Okkur Eyvöru fannst okkur nauðgað í beinni útsendingu; fara úr að neðan, syngjandi: „Tottaðu á mer snípinn“, lappdans með strap-on og kastandi fötum í hausinn á manni. Ekki beint atriði sem maður er tilbúinn að taka þátt í í fjölskylduþætti,“ sagði Ágústa.
„Hvað ef hópur manna hefði troðist inn í settið með gervisköp, skakandi sér á viðmælendum og stjórnandanum, berir að neðan, segjandi fólki að totta á sér kónginn. Fáránlegt að það hafi ekki verið tekið úr sambandi og settar auglýsingar.“
Fötin sem fleygt var í gesti voru bolir merktir hljómsveitinni sem þær höfðu meðferðis. Helsta fórnarlamb kjöltudans Dætranna var þáttastjórnandinn, Gísli Marteinn, sem hefur sagst styðja bæði Dæturnar og Ágústu Evu. Af útsendingu sjónvarps verður ekki ráðið hvort Reykjavíkurdóttirin sem fór úr að neðan hafi verið með vænan hárvöxt eða í þveng en Jóhannes Haukur skírði málið.
Þá er umdeilanlegt hvort Vikan teljist fjölskylduþáttur, þó sýningartíminn gefi tilefni til slíkra tenginga, en því verður ekki neitað að Anna Tara dansaði víðar en á línunni með gerviliminn sinn.
Anna Tara, með fyrrnefnt ballarbelti, hóf innslag Dætranna með því að koma sér fyrir á milli Ágústu Evu og Jóhannes Hauks og ota glitrandi gervigandinum upp í loftið, nálæg andlitum þeirra, eins og hún væri að stunda kynlíf. Þar með gekk hún inn á þeirra persónulega svæði án þeirra samþykkis og hvort sem það var ætlunin eða ekki olli hún þeim óþægindum.
Að öðru leyti hélt Anna Tara, með gandinn sinn góða, sig að mestu leiti í nokkurri fjarlægð frá öðrum gestum þáttarins. Hún skók þó mjaðmirnar svo limurinn dansaði og gældi reglulega við hann með höndunum.
En af hverju var Anna Tara með umrætt tól í þættinum og er það í eðli sínu andfemínískt eða hægt að leggja að jöfnu við karlrappara með gervipíkur?
Svörin við seinni spurningunum tveimur er einfaldlega nei. Eins og áður sagði búa kynin ekki við jafnrétti og þýðing aðgerða sem virðast áþekkar er mismunandi eftir stöðu þess sem framkvæmir.
Hvað ástæðuna varðar býr meira en bara sjokkfaktorinn að baki.
Auk Reykjavíkurdætra er Anna Tara meðlimur hljómsveitarinnar Hljómsveitt, sem á m.a. hugljúft lag um endaþarmsmök sem inniheldur setninguna „Saurfóbía er félagsmótun“. Að auki stjórnar hún kynlífs og kynjafræði-útvarpsþættinum Kynlegum kvistum á Rás 2 ásamt Hugleiki Dagssyni sem hefur það yfirlýsta markmið að „Kitla örvunarsvæði hlustandans með fjöður forvitninnar“.
Anna Tara er þannig mjög meðvituð um þá þýðingu sem það hefur þegar konur eigna sér hlutverk gerandans í kynlífi, þess sem „penetreitar“. Í því felst vald, upphafning og yfirráð yfir þeim sem „verður undir“. Hvort sem við hin erum almennt meðvituð um það sjálf eður ei hefur þessi hugmynd gegnsýrt samfélag okkar.
Erlendir rapparar nota hana gríðarlega mikið við textagerð og beina þá skáldareður sínum oftast gegn konum en einnig gegn andstæðingum sínum og taka þannig þátt í að ýta undir og viðhalda nauðgunarmenningu. Þessi hugmynd á einnig sinn skerf í fordómum gegn samkynhneigðum þar sem litið er á karlmenn sem eru „botninn“ í endaþarmsmökum sem ókarlmannlegri og aumari en ella.
Hefði karlmaður mætt með gervisköp á svið hefði verið erfitt að túlka það öðruvísi en sem enn einn karlmanninn að eigna sér líkama kvenna - nema þá hugsanlega ef viðkomandi myndi gera það sama og Anna Tara og bókstaflega klæðast píkunni og kvengera sjálfan sig til að sýna að að því er engin skömm. Aftur fer þýðingin eftir samhenginu.
Anna Tara tók sér typpi og þannig vald og sagði okkur - hvort sem við heyrðum það eða ekki - að konur mættu vera gerendur í kynlífi sem aftur myndhverfist yfir á konur sem gerendur í samfélaginu sjálfu. Án efa hafa sumir áhorfendur upplifað atriðið sem ógnandi eða niðurlægjandi fyrir karlmenn. Atriðið snerist þó einfaldlega ekki um karlmenn, ekkert frekar en Ofurskálaratriði atriði Beyoncé snerist um hvítt fólk, heldur um konur og tækifæri þeirra til að taka sér rými og vald í samfélaginu.
Eins og áður kom fram er „Ógeðsleg“ einskonar andsvar við mismálefnalegum gagnrýnisröddum sem herjað hafa á Reykjavíkurdætur í gegnum tíðina. Í lokaerindi lagsins lýsir Steiney Skúladóttir því yfir að þær kæri sig kollóttar um það sem aðrir hafa út á þeirra listsköpun að setja.
„Hef rekið mig of oft á besserwissera
sem hald’að allir vilja vita hvað þeim finnst
Fokk it.
Ég ætl’ekki að segja sorrí.“
Reykjavíkurdætur sögðu þannig „Bye Felicia“ við Ágústu Evu og aðrar gagnrýnisraddir jafnvel áður en atriðinu lauk.
Ættu Reykjavíkurdætur að biðja Ágústu afsökunar? Mjög líklega, enda væri það ákjósanleg iðja fyrir þá sem hyggjast hafa uppi kynferðislega (list)hegðun á við þá sem Anna Tara sýndi af sér að láta nærstadda vita áður svo þeir geti valið um að halda sig fjarri.
Ábyrgðin gagnvart áhorfendum sem kunna að hafa móðgast er hinsvegar Gísla Marteins og RÚV sem veittu sveitinni rými til að gera það sem hún gerir. Í Facebook færslu vísar Gísli til sögu hneykslanlegra atriða í sjónvarpi sem í dag þættu hversdagsleg.
Var atriðið hneykslanlegt? Óviðeigandi? Mjög greinilega í hugum margra. En það koma víst engar sprungur í glerþakið nema maður berji í það við og við og þeim sem eru ekki tilbúnir að fá smá skrámur í andlitið er velkomið að líta niður og loka augunum.