Leikarinn Tom Hiddleston, sem þekktastur er fyrir hlutverk sitt sem Loki í The Avengers, hefur ýtt undir sögusagnir um að hann muni taka við af Daniel Craig sem næsti James Bond, með ummælum sínum við The Sunday Times. Þar lofsamar hann myndina og segir það stórkostlegt tækifæri að fá að taka við af Craig, ef til þess komi.
Á vef The Guardian segir að samkvæmt getspám sé Hiddleston talinn afar líklegur til að taka við af Craig en stuðullinn á hann er 10/1. Hann er í sjötta sæti yfir þá sem teljast líklegir en á undan honum koma Tom Hardy, Idris Elba, Damian Lewis, Aidan Turner og Henry Cavill.
Í viðtali við The Sunday Times sagði Hiddleston: „Tímaritið Time gerði skoðanakönnun um þetta og á þeim lista voru hundrað leikarar sem komu til greina, þar á meðal Angelina Jolie. Það er afar skemmtilegt að koma til greina og vera á listanum.“
Þá segist hann vera mikil aðdáandi myndanna. „Við fórum öll í bíó að sjá Spectre þegar við vorum að taka upp myndina Skull Island á Havaí. Ég elska þemalagið, klisjurnar og goðsögnina. Ég elska allt sem tengist myndinni. Það væri stórkostlegt tækifæri að fá að leika Bond.“
Hiddleston bætti því einnig við að hann áttaði sig vel á allri þeirri vinnu sem fer í hlutverkið. „Ég myndi leggja mig allan fram.“
Daniel Craig hefur farið með hlutverk Bond síðan árið 2005. Nýverið ýtti hann undir sögusagnir um að hann væri kominn með nóg af hlutverkinu þegar hann sagði við miðilinn Time Out að hann myndi frekar skera sig á púls en að leika í annarri Bond-mynd.
„Þetta er komið gott, nú langar mig að prófa aðra hluti,“ sagði Craig. „Ef ég myndi gera aðra Bond-mynd væri það bara fyrir peninginn.“
Seinna dró hann þó úr þessum ummælum sínum í viðtali við BBC þar sem hann sagðist oft skipta um skoðanir á hlutverkinu.