Bítlarnir hefðu hljómað öðruvísi

Upptökustjórinn George Martin árið 1999.
Upptökustjórinn George Martin árið 1999. AFP

Upptökustjóranum George Martin þótti ekki mikið til lagasmíða Bítlanna koma í fyrstu en hann átti eftir að hafa mikil áhrif á hljóm sveitarinnar í gegnum áratugina. „Án hljóðfæra minna og útsetninga hefðu margar plöturnar ekki hljómað eins og þær gera. Hvort þær hefðu verið betri, veit ég ekki,“ sagði Martin.

Martin lést í gær níræður að aldri en hann hefur verið nefndur fimmti Bítillinn vegna áhrif sinna á hljómsveitina. Samstarf hans við Bítlanna hófst árið 1962 þegar hann bauð fjórmenningunum í viðtal í upptökuverinu við Abbey Road fyrir útgáfufyrirtækið Parlophone. Martin hafði efasemdir um hæfileika Liverpool-búanna sem tónlistarmenn og lagasmiða en heillaðist strax af persónutöfrum þeirra og kímnigáfu.

„Ég kann ekki við bindið þitt, fyrst af öllu,“ sagði George Harrison við Martin þegar upptökustjórinn spurði hvort hljómsveitinni mislíkaði eitthvað við uppsetninguna í hljóðverinu.

Fyrsta smáskífa Bítlanna var „Love Me Do“ sem náði fjórða sæti vinsældalista á Bretlandi árið 1962. Martin sagði um lagið að það hafi verið „frekar slappt en það var það besta sem við gátum gert“.

Mótaði hljóðheim 7. áratugarins

Það var Martin sem sannfærði John Lennon, Paul McCartney og Harrison um að skipta út trommuleikaranum Pete Best út fyrir Ringo Starr því hann taldi Best ekki starfi sínu vaxinn. Auk þess hafði upptökustjórinn mikil áhrif á hljóm Bítlanna. Í andlátsfrétt The Guardian um Martin segir að áhrifin frá klassískri tónlistarmenntun Martin hafi bætt við og skreytt snilldarverk Lennon og McCartney.

Fyrir utan Bítlana tók Martin upp fjölda annarra hljómsveita sem mótuðu hljóðheim 7. áratugar síðustu aldar. Þeirra á meðal voru Cilla Black og Gerry and the Pacemakers. Síðar vann hann með heimsfrægum tónlistarmönnum eins og Elton John, Celine Dion, Kenny Rogers, Jeff Beck og Neil Sedaka. Þá tók hann upp tvö titillög fyrir James Bond-myndir; „Goldfinger“ með Shirley Bassey og „Live and Let Die“ með McCartney og Wings.

Air-upptökuverið sem Martin stofnaði, fyrst á Oxford-stræti í London og síðar á eynni Montserrat í Karíbahafi, varð fastur áfangastaður stórhljómsveita eins og Police á 8. og 9. áratugnum. Því var hins vegar lokað árið 1989 vegna skemmda sem urðu á því þegar fellibylurinn Húgó gekk yfir eyjuna.

Martin var aðlaður af Bretadrottningu árið 1996. Hann var tvígiftur og átti fjögur börn. Síðari eiginkona hans Judy Lockhart-Smith lifir hann.

Grein The Guardian um George Martin

Fyrri frétt mbl.is: Fimmti Bítillinn látinn

George Martin (t.h.) ásamt Ringo Starr á Grammy-verðlaunahátíðinni árið 2008.
George Martin (t.h.) ásamt Ringo Starr á Grammy-verðlaunahátíðinni árið 2008. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Það eru oft einföldustu hlutir sem vefjast mest fyrir manni. Ef þú gengur fram af þeim munu þeir svara þér fullum hálsi. Mundu bara að ekki er allt sem sýnist.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
3
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Birgitta H. Halldórsdóttir
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Það eru oft einföldustu hlutir sem vefjast mest fyrir manni. Ef þú gengur fram af þeim munu þeir svara þér fullum hálsi. Mundu bara að ekki er allt sem sýnist.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
3
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Birgitta H. Halldórsdóttir