Gísli Marteinn Baldursson verður þulur í útsendingu RÚV frá Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva sem fer fram í Stokkhólmi í maí. Gísli Marteinn tekur við af Felix Bergssyni sem eins og kunnugt er hefur kynnt keppnina síðustu þrjú ár. Þetta kemur fram á vef RÚV.
Gísli Marteinn er þó enginn byrjandi í starfinu en hann var þulur í keppninni á árunum 2003-2005. Í frétt RÚV er vitnað í tilkynningu frá dagskrárdeild RÚV þar sem segir að Gísli Marteinn hafi á dögunum verið valinn besti íslenski þulurinn í óformlegri kosningu meðal félaga í FÁSES, íslenskum aðdáendaklúbbi Söngvakeppninnar.
Eurovision fer fram eins og fyrr segir í Stokkhólmi dagana 10., 12. og 14. maí. Greta Salóme Stefánsdóttir keppir fyrir Íslands hönd, með laginu Hear Them Calling.