Að elska að hata Kardashian fjölskylduna

Kardashian systurnar, Jenner systurnar og mömmboðsmaðurinn Kris.
Kardashian systurnar, Jenner systurnar og mömmboðsmaðurinn Kris.

Raunveruleikasjónvarp þykir ekki hámenningarlegt áhorf nema síður sé. Sumir myndu jafnvel ganga svo langt að kalla það forheimskandi, og þannig á þveröfugum pól við t.d. heimildarmyndir, sem þó eru náskylt efni.

Líklega er það þess vegna sem stór hluti þeirra sem horfa á raunveruleikaþætti að staðaldri eiga erfitt með að viðurkenna áhorfið eða í það minnsta að þeir njóti þess. Þeir „detta óvart inn í þá“, „festast í þeim“, sjá þá sem „guilty pleasure“ eða jafnvel „elska að hata þá“.

Viðbrögðin við fréttaflutningi af komu raunveruleikastjarnanna Kim og Kourtney Kardashian, auk Kanye West til Íslands þurfa því ekki að koma á óvart. Þó allar fréttir af uppátækjum hópsins séu lesnar upp til agna og unga kynslóðin elti hann um alla borg heyrist hæst í þeim sem spyrja sig „Er þetta frétt?“.

Það liggur þó í augum uppi af hverju fjölmiðlar fjalla um Kimye og félaga. Öllu áhugaverðara er að spyrja sig af hverju samfélagið hefur eins mikinn áhuga á að lesa um þau og raun ber vitni og hvað raunveruleikaþættir segja um samtímann.

Hvað er það sem dregur okkur að Kim, Kourtney, Kendall og öllum hinum? Af hverju eru þessar konur, sem virðast frægar fyrir ekki neitt, með milljónir fylgjenda á samfélagsmiðlum? Hvers vegna er svona gaman að elska að hata þær? Og af hverju er þetta fólk frægt?

Kanye hafði auðvitað aflað sér frægðar á eigin forsendum löngu áður en hann gekk til liðs við Kardashian klanið. Frægð tengdafjölskyldunnar byggist hinsvegar nær alfarið á á raunveruleikasjónvarpi og hefði líklega seint komið til ef ekki hefði verið fyrir ein frægustu réttarhöld seinni tíma.

Morðmál í beinni

Kardashian nafnið komst fyrst í heimsfréttirnar árið 1994 í tengslum við réttarhöldin yfir O.J. Simpson. Sá var besti vinur fjölskylduföðurins, lögmannsins Robert Kardashian, sem var fenginn til að aðstoða við málsvörn vinar síns.

Kim, Kourtney, Kanye og Simon Huck á íslenskum jökli.
Kim, Kourtney, Kanye og Simon Huck á íslenskum jökli. Instagram

Simpson sem var einn ástsælasti íþróttamaður Bandaríkjanna var sakaður um að hafa myrt fyrrverandi eiginkonu sína og vin hennar. Líta má sem fjölmiðlaumfjöllunina sem fylgdi morðinu sem einskonar raunveruleikasjónvarp enda eru línurnar á milli frétta og afþreyingar stundum óskýrar. Sýnt var beint frá því um öll Bandaríkin hvernig Simpson reyndi að komast hjá handtöku með því að flýja á hvítum Ford Bronco á meðan lögregla veitti honum eftirför. NBC truflaði jafnvel útsendingu sína á úrslitum NBA deildarinnar til að sýna frá „eltingarleiknum“.

Áður en kom til handtöku Simpson hafði hann búið um skeið á heimili Roberts, sem þá var skilinn við Kris Jenner – ættmóður og núverandi höfuð Kardashian veldisins. Fyrir bílaeltingaleikinn hafði Robert lesið bréf frá Simpson fyrir fjölmiðla sem margir túlkuðu sem sjálfsmorðsyfirlýsingu. Þá var réttarhöldunum sjónvarpað og hvað sem á dundi mátti alltaf sjá Robert við hlið vinar síns.

Þannig varð Kardashian nafnið frægt, þrátt fyrir að Robert sjálfur væri víst lítt hrifinn af athyglinni.

Myndbandið sem breytti öllu

Robert lést árið 2003, sama ár og næstelsta dóttir hans, Kim, gerði kynlífsmyndband með þáverandi kærastanum sínum, Ray J. Myndbandið birtist þó ekki fyrr en fjórum árum síðar, árið 2007.

Kim fór í skaðabótamál við fyrirtækið sem dreifði því og hefur gefið út að hún viti hver lak því en vilji ekki deila því með um heiminum. Hún þvertekur fyrir að hafa sjálf staðið að baki lekanum en hefur viðurkennt að hann hafi komið nafni hennar á kortið. Rétt og eðlilegt er að láta Kim njóta vafans og telja lekann til hrellikláms en líklega eru fáir sannfærðir. 

Samanburðurinn við fyrrverandi yfirmann Kim, Paris Hilton, sem jafnframt var æskuvinkona hennar er áhugaverður í því samhengi. Hilton sem var aðeins þekkt sem erfingi hótelveldis á þeim tíma, varð heimsfræg á einni nóttu eftir að kynlífsmyndband sem seinna hlaut nafnið „1 Night in Paris“ lak út árið 2003, fimm vikum áður en raunveruleikaþættir Hilton og Nicole Richie, The Simple Life, hófu göngu sína. Paris hefur einnig neitað því að standa sjálf að baki birtingunni.

Myndböndin tvö eru þannig eitt frægasta dæmið um hrelliklám, án þess þó að það orð sé almennt notað um þau. Síðan þá kynlífsmyndbönd smáfrægra nefnilega orðið að einskonar brandara, alþekktri og klisjukenndri leið til að koma sér á framfæri, einmitt með vísun í raunveruleikastjörnurnar tvær.

Milljarðaveldið brýtur internetið

 Kynlífsmyndbandi Kim var lekið í febrúar 2007 og í október sama ár hóf raunveruleikaþáttaröðin Keeping Up with the Kardashians göngu sína. Nú hafa verið framleiddar 11 seríur af þættinum sem nýtur enn í dag mikilla vinsælda. Hún hefur leitt til heimsfrægðar allrar Kardashian/Jenner fjölskyldunnar sem fær um 1,2 milljarða króna fyrir hverja hverja framleidda þáttaröð en að auki hafa flestir fjölskyldumeðlimir byggt upp sín eigin vörumerki sem hala inn milljörðum.

Keeping Up with the Kardashian hefur svo leitt af sér fjölmargar aðrar þáttaraðir um meðlimi fjölskyldunnar sem hafa notið nokkurrar velgengni. Fjölskyldan er enda góð í að halda athygli almennings, stundum með skipulögðum hætti og stundum bara með því að vera hún sjálf.

Caitlyn Jenner á rauða dreglinum.
Caitlyn Jenner á rauða dreglinum.

Nokkra viðburði sem nefna má í því samhengi er 72 sólarhringa hjónaband Kim og Kris Humphries, þegar Caitlyn Jenner tilkynnti heimsbyggðinni að hún væri trans kona, forsíðumyndin sem „braut internetið“ og alvarleg veikindi Lamar Odom eftir að hafa fundist meðvitundarlaus á vændishúsi. Nú er svo komið að fjölskyldan þarf ekki lengur á sjónvarpsþættinum að halda, enda heldur hún aðdáendum sínum upplýstum um líf sitt í gegnum samfélagsmiðla sjö daga vikunnar, og viðheldur þannig veldi sínu.

Ástæðurnar hér að ofan eru grunnurinn að frægð Kardashian fjölskyldunnar en þessi frægð væri auðvitað ekki möguleg án viljugra neytenda, m.a. á Íslandi. Beinum nú sjónum að þeim.

Sviðsetning sjálfsins

Civic Science greinir frá því að því að 36 prósent þeirra sem horfa á raunveruleika sjónvarp í meira en fimm klukkustundir á viku eru yfir 55 ára aldri og aðeins 10% líklegri til að vera konur en karlar. Þá eru þeir 25 prósent líklegri til að fylgjast með straumum og stefnum í heimi afþreyingar og tísku og 19 prósent líklegri til að fylgjast með straumum og stefnum í mat og eldamennsku.

Ein helsta staðalímyndin af aðdáendum raunveruleikaþátta snýst um að viðkomandi séu minna gáfaðir en aðrir en fyrir því virðast engar haldbærar sannanir.

Nýlega kom hinsvegar út rannsókn hvers niðurstaða gaf til kynna að aðdáendur raunveruleikasjónvarps væru sjálfsánægðari en aðrir. Þessi niðurstaða er í sjálfu sér ekki ný en er kannski ekki eins einföld og hún virðist vera. Eins og Kaitlin Sheets orðar það:

„Aðdáendur [raunveruleika]þáttanna eru mun líklegri til að vera sammála staðhæfingum á við „Frami er mér mikilvægur“ og „Merkjavörur vekja aðdáun mína“ en annað fólk. Við höfum rannsakað svipuð fyrirbæri áður og komist að því að óskin eftir [hærri samfélags]stöðu er aðeins leið til að fá athygli. Og meiri athygli eykur á upplifun á eigin mikilvægi: Okkur finnst við mikilvæg ef aðrir sýna okkur athygli og ekki mikilvæg ef við erum hunsuð.“

Kendall Jenner og Kylie Jenner eru miklar fyrirmyndir ungra stúlkna.
Kendall Jenner og Kylie Jenner eru miklar fyrirmyndir ungra stúlkna.

Athyglisþörf er orðið fyrirferðameira fyrirbæri en áður með tilkomu samskiptamiðla og athygli, eðli hennar og hvernig hún er fengin, hefur tekið vissum stakkaskiptum. Vægi athygli í félagslegum veruleika samtímans er gríðarlegt og það er kannski ekki að furða að margir líti til Kardashian fjölskyldunnar, sérfræðinga í athygli, eftir vísbendingum um hvernig best sé að snúa sér í þeim efnum.

Áhorfendur raunveruleikaþátta eru líklegri til þess að deila meira af persónulegu efni á samfélagsmiðlum en aðrir. Stærsti aðdáendahópur Kardashian fjölskyldunnar hér á landi er alinn upp á tímum samfélagsmiðla, tímum þar sem mörkin milli hins opinbera og einkalífs eru óskýr, rétt eins og í raunveruleikaþáttum. 

Rétt eins og í raunveruleikaþáttum deilir þessi hópur, og við sem eldri erum, ritstýrðri útgáfu af lífinu með umheiminum þar sem erfitt er fyrir aðra að ákvarða hvað er raunverulegt og hvað er sviðsetning, markaðssetning sjálfsins. Við erum sjálf persónur í okkar eigin raunveruleikaþáttum sem við sendum út á samfélagsmiðlum.

Þáttagerð í rauntíma

Kardashian fjölskyldan halar inn milljörðum á því að „vera hún sjálf“, hvort sem það er með tekjum í gegnum sjónvarpsþætti, öpp eða vörulínur. Nú er raunar svo komið að áhorf á þáttaröðina Keeping Up With the Kardashians hefur dalað á sama tíma og vinsældir fjölskyldunnar, sérstaklega yngri meðlima,fara vaxandi. Ástæðan er sú að hún þarf ekki lengur á þáttunum að halda.

 AMAs kendall jenner kylie jenner pretty girl khloe kardashian

Fjölskyldan stjórnar taumlausu flæði persónulegra upplýsinga til gægjuhneigðs almúgans í gegnum samfélagsmiðla í rauntíma. Þannig gátu tugir ungmenna elt hópinn um götur borgarinnar, beinlýnis af því að Kourtney, Kim og félagar sögðu þeim sjálf hvar þau voru.

Þegar stjörnur koma til Íslands heyrast oft háværar raddir þeirra sem vilja að þær séu látnar í friði svo þær geti notið þess að vera á okkar litla landi, fjarri kastljósi fjölmiðla. Það væri auðvitað það versta sem gæti gerst fyrir Kardashian fjölskylduna. Hún er fræg fyrir að vera áhugaverð og ef við missum áhugann er voðinn vís.

Það er hinsvegar lítil hætta á því að við missum þennan áhuga í bili, sama hversu lágmenningarleg Kim og félagar verða. Eins og Charles McCoy útskýrir á Rawstory þá drekkum við í okkur ófágað efni af því að það er „svo slæmt að það er gott“ og sama hvað við reynum að halda í hugmyndina um að við höfum góðan smekk höldum við líka áfram að horfa, hvort sem það er af ánægju, kaldhæðni eða með snert af skömm.

Þá bendir Rachel Kitsons hjá Shrink Tank á að hversu ýktar sem aðstæður fjölskyldunnar eru endurspegli hún á margan hátt það síbreytilega og fjölbreytta fjölskylduform sem velt hefur kjarnafjölskyldunni úr sessi.

„Þeir sem telja að hún sé holdgervingur alls þess sem er að menningu okkar kunna að hafa eitthvað til síns máls en ég held að Kardashian fjölskyldan kunni að spegla menningu okkar fremur en móta og hafa áhrif á hana.“

girl kim kardashian style kanye west keeping up with the kardashians

Undirrituð er ekki fyllilega sammála Kitsons en þau áhrif sem Kardashian fjölskyldan hefur haft á stefnu og strauma fegurð og tísku þyrfti að taka fyrir í sérstakri skýringu. Hversu mikil sem þau áhrif eru má öllum vera ljóst að hvorki Kim né systur hennar spretta upp úr engu heldur úr jarðvegi sem samfélagið hefur skapað þeim.

Eins mikið og mörg okkar elska að hata Kardashian fjölskylduna er því ekki hægt annað en að enda þessi skrif á gömlu og góðu húsráði úr heimalandi hennar: „Don‘t hate the player, hate the game“.

mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Gerðu þér far um að vera jafn praktískur og þú ert tilfinninganæmur. Reyndu að sýna fyrirmennum eða yfirboðurum almennt kurteisi.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
3
Torill Thorup
5
Birgitta H. Halldórsdóttir
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Gerðu þér far um að vera jafn praktískur og þú ert tilfinninganæmur. Reyndu að sýna fyrirmennum eða yfirboðurum almennt kurteisi.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
3
Torill Thorup
5
Birgitta H. Halldórsdóttir