„Við vorum að fá okkur Brynju ís þegar við rákumst á hann í ísbúðinni. Ég spurði hvort þetta væri hann. Hann játti því og tók vel í hugmyndina um að spila við mig körfubolta,“ segir Júlíus Orri Ágústsson sem spilaði í gær einn á móti einum körfuboltaleik á móti NBA-stjörnunni Jeremy Lin á Akureyri.
Lin er staddur hér á landi í fríi en tímabili hans í NBA lauk nú nýverið.
Júlíus Orri er 14 ára gamall og er Íslands- og bikarmeistari með Þór Akureyri og mikill áhugamaður um körfubolta. Hann spilar sjálfur í stöðu bakvarðar eins og Jeremy Lin.
Aðspurður hvernig hafi verið að spila við Lin segir Júlíus Orri það hafa verið mjög gaman. „Hann sagðist ekki vera búinn að hreyfa sig mjög mikið undanfarið og að hann væri þreyttur eftir langt tímabil. En það var mjög gaman að spila á móti honum. Þegar hann reyndi á sig var hann mjög snöggur og mjög góður.“
Hann segist ekki hafa trúað því fyrst að þetta væri raunverulega Lin. „Ég spurði mömmu mína í ísbúðinni hvort hún vissi hvort þetta væri hann. Hún hélt ég væri bara eitthvað að rugla. Svo elti ég hann út úr ísbúðinni og bað hann um mynd og eiginhandaráritun og svo í framhaldinu hvort hann vildi spila leik. Hann ók svo á eftir okkur heim til mín þar sem við spiluðum.
Jeremy Lin hefur greinilega verið á Íslandi í nokkra daga en hann birti mynd af sér á Instagram fyrir helgi þar sem má sjá íslenskt landslag.
A photo posted by Jeremy Lin (@jlin7) on May 18, 2016 at 7:10pm PDT