Bandarískir aðdáendur Kaleo kunna vel að meta útgáfu fjórmenninganna af klassíkinni Vor í Vaglaskógi. Lagið verður að finna á breiðskífu sveitarinnar A/B sem kemur út þar vestra á morgun. mbl.is var á tónleikum sveitarinnar í síðustu viku og ræddi við tónleikagesti um tónlistina og sveitina.
Í gær birtist viðtal við sveitina sem var tekið sama dag en tónleikarnir fóru fram í Revolution Hall í Portland þar sem þeir komu fram fyrir fullu húsi. Upphaflega áttu þeir að vera að spila á mun minni tónleikastað en ásókn í miða var slík að hægt var að færa tónleikana á stærri stað.
Af svörum viðmælendanna að dæma er augljóst að íslensk tónlist hefur skapað sér stóran sess á þessum stærsta og mikilvægasta tónlistarmarkaði í heimi.
Fyrir þremur árum síðan var svipuð umfjöllun um tónleikaferðalag Of Monsters and Men í Bandaríkjunum á mbl.is.
Ótrúlegur árangur Of Monsters and Men