Íslensk náttúra og íslenskir dansarar fara með aðalhlutverkið í nýju myndbandi kanadísku raftónlistarsveitarinnar Keys N Krates. Myndbandið er við lagið Nothing But Space sem er af EP-plötu sveitarinnar Midnite Mass sem kom út í janúar.
Auður Huld Gunnarsdóttir og Thea Atladóttir eru dansarar í myndbandinu en Auður segist ekki hafa þekkt til hljómsveitarinnar áður en hún landaði hlutverkinu. „Það var haft samband við íslenskt framleiðslufyrirtæki og þau höfðu samband við nokkra dansskóla á landinu og meðal annars dansskólann sem ég var í, Listdansskóla Íslands,“ segir Auður.
Auður sá því auglýsingu í Listdansskólanum og sóttist í kjölfarið eftir hlutverkinu. Hún segir fyrirvarann hafa verið stuttan en tökur fóru fram aðeins viku eftir að hlutverkið varð hennar.
„Þetta var einn tökudagur frá sex um morguninn til tíu um kvöldið,“ segir Auður en þær höfðu mátað búninga og tekið stutta æfingu daginn áður. Þrátt fyrir að hafa ekki heyrt um sveitina áður segist Auður kunna vel við lagið og er ánægð með afraksturinn.
Það eru íslensku framleiðslufyrirtækin Hero Production Iceland og 23 Frames sem framleiddu myndbandið en tökustaðir voru víðs vegar um Suðurland, svo sem við Seljalandsfoss og skammt frá Reynisfjöru.