Lokahóf RIFF, Alþjóðlegrar kvikmyndahátíðar í Reykjavík, fór fram í Hvalasafninu í kvöld. Þar var hátíðinni formlega slitið og verðlaun veitt í keppnisflokkum hátíðarinnar.
Myndin Guðleysi/Bezbog/Godless (BUL/DEN/FRA) í leikstjórn Ralitza Petrova hreppti aðalverðlaun hátíðarinnar, Gullna lundann. Myndin var hluti af keppnisflokknum Vitranir/New Visions þar sem ellefu myndir kepptu um verðlaunin. Flokkinn skipuðu ellefu myndir sem eiga það sameiginlegt að vera fyrsta eða annað verk leikstjóra og ögra viðteknum gildum í kvikmyndagerð og vísa veg kvikmyndalistarinnar til framtíðar, samkvæmt tilkynningu frá RIFF.
Að auki hlaut myndin Risinn/Jätten/ The Giant (SWE/DEN) í leikstjórn Johannes Nyholm úr flokknum Vitranir/New Visions sérstaka viðurkenningu dómnefndar.
Í umsögn dómnefndar um Guðleysi segir:
Gullni lundinn kemur í hlut hrárrar en fagurrar myndar með áhrifamiklum leik og kvikmyndatöku. Myndin samþættir spennu glæpasögunnar við lágstemmda lýsingu á kúgun í fyrrverandi kommúnistaríki, þar sem einungis glittir í frelsi í hinni helgu veröld tónlistarinnar. Gullni lundinn fer til Guðleysis eftir Ralitzu Petrovu.
Dómnefnd skipuðu: Jonas Holmberg, listrænn stjórnandi kvikmyndahátíðarinnar í Gautaborg, Grímur Hákonarson leikstjóri og Yrsa Sigurðardóttir rithöfundur.
Myndin Eyjarnar og hvalirnir/The Islands and the Whales (FRO/SCO) í leikstjórn Mike Day var sigurmynd flokksins Önnur framtíð/A Different Tomorrow. Í þeim flokki mátti finna tólf áhrifamiklar heimildamyndir sem eiga það sameiginlegt að fjalla um mannréttinda- og umhverfismál.
Myndin Ungar/Cubs (ICE/USA) í leikstjórn Nönnu Kristínar Magnúsdóttur hlaut verðlaun sem besta íslenska stuttmyndin.
Í ár voru í fyrsta sinn veitt verðlaun í flokki erlendra stuttmynda og var það myndin Heima /Home (UK/KOS) í leikstjórn Daniel Mulloy sem hlaut þau.
Myndin Herra Gaga/Mr. Gaga (ISR/SWE/GER/NED) í leikstjórn Tomer Heyman hlaut áhorfendaverðlaun RIFF og kemur hún úr heimildamyndaflokki hátíðarinnar. Kosið var um áhorfendaverðlaunin á vefsíðunni mbl.is og kepptu þar myndir úr heimildamyndaflokki og Fyrir opnu hafi/Open Seas-flokki hátíðarinnar.
Loks hlaut myndin Hertoginn/The Duke (USA) í leikstjórn Max Barbakow Gullna eggið, viðurkenningarverðlaun fyrir unga leikstjóra.
Á morgun, sunnudag verður verðlaunamyndin Guðleysi sýnd í Bíó Paradís klukkan 15.30 og Herra Gaga sýnd klukkan 19.30 í Bíó Paradís. Einnig verður aukasýning á Ransacked í Bíó Paradís klukkan 21.30.