Breski söngvarinn Elton John mun ekki koma fram við innsetningarathöfn Donalds Trump, verðandi Bandaríkjaforseta, í janúar. Þetta segir talsmaður söngvarans.
Anthony Scaramucci, úr aðlögunarhópi Trumps, hafði sagt í samtali við BBC að Elton John myndi spila við athöfnina, og virtist taka það sem dæmi um stuðning forsetans við réttindi samkynhneigðra.
Fulltrúi söngvarans hefur nú neitað þessu alfarið, eftir fyrirspurn BBC.
„Það er algjörlega ekkert til í þessu,“ segir hún í samtali við fréttastofuna.
Á meðan kosningabaráttunni stóð lýsti Elton yfir stuðningi við andstæðing Trumps, Hillary Clinton, frambjóðanda demókrata.
Á fjáröflunarsamkomu fyrir Clinton í Los Angeles í október, var hann sagður hafa sagt við viðstadda: „Við þurfum mannvin í Hvíta húsið, ekki villimann.“
Þrátt fyrir yfirlýstan stuðning Eltons við Clinton, notaði Trump á fjöldafundum sínum fyrir kosningarnar lög Eltons, Rocket Man og Tiny Dancer, án samþykkis söngvarans.