Sonur guðforeldra pönksins, umboðsmanns Sex Pistols, Malcolm McLaren, og tískuhönnuðarins, Vivienne Westwood, Joe Corre brenndi til kaldra kola muni sem tengjast pönkinu í gær. Með þessu vildi Corre mótmæla áformum hins opinbera um að fagna 40 ára afmæli pönksins.
Frétt mbl.is: Guðmóðir pönksins dregur ekkert undan
Hlutirnir sem Joe Corre brenndi um borð í bát á Thames í Lundúnum síðdegis í gær eru metnir á 5 milljónir punda, sem svarar til rúmlega 700 milljóna króna.
Hann segir að pönkið hafi aldrei átt að verða ljúfsár fortíðarþrá sem hægt er að læra um á safni í Lundúnum. Pönkið er orðið að enn einu markaðstækinu, segir Corre. Að selja þér eitthvað sem þú hefur enga þörf fyrir. Táknmynd um eitthvað annað val sem er pakkað inn í þægilegan búning, sagði Corre við fjölmiðla í gær.
Það logaði glatt í mununum sem fóru á bálið ásamt eftirlíkingum af ráðandi stjórnmálamönnum og flugeldum.
Corre hafði áður sagt að hann væri ósáttur við áætlanir um að pönksins yrði minnst með alls konar uppákomum í Lundúnum. Svo sem viðburðum, tónleikum og sýningum sem yrðu styrktir af borgarstjórn Lundúna, Breska bókasafninu og Bresku kvikmyndastofnuninni (Mayor of London, British Library og British Film Institute).
Að sögn Corre vildi hann vekja athygli á hræsninni sem fylgdi því að ræða 40 ára minningu Anarchy in the UK, lagi Sex Pistols sem var gefið út 26. nóvember 1976. Lagið er af mörgum talið marka upphafið að pönkinu.
Times hefur eftir Corre að ráðandi öfl hafi ákveðið að það væri orðið tímabært að fagna pönkinu og reyna að einkavæða það, pakka því inn og gelda það. „Það er orðið tímabært að kveikja í því öllu,“ segir Corre.
Hér eru hljómgæðin betri en engar myndir bara hrátt pönk