„Hvernig datt ykkur í hug að gera heimildarmynd um rúntinn?“

„Þetta er heimildamynd um rúntinn eins og hann var á þessum tíma, árið 1999, og í myndinni blasir allt annað Ísland við en við þekkjum í dag,“ segir Steingrímur Dúi Másson en heimildamynd hans, Rúnturinn I, var frumsýnd í síðustu viku.

Í stiklu sem fylgir fréttinni sést að ekki höfðu allir skilning á framtakinu, þar sem ungur maður spyr hvernig kvikmyndargerðarfólkinu datt þetta í hug.

Rúnturinn I er sjálfstæð heimildamynd í fullri lengd og jafnframt fyrsti hluti þríleiks. Steingrímur Dúi ferðaðist um landið fyrir um 17 árum og heimsótti 10 stærri og smærri þéttbýliskjarna á Íslandi þar sem það þekkist að rúnta, þótt ekki væri nema eftir örlítilli og stuttri götu, á föstudags- og laugardagskvöldum. Fyrst og fremst fjallar myndin þó um menningu ungs fólks á rúntinum sumarið 1999 og í þessum fyrsta hluta eru Akranes, Keflavík og Blönduós viðkomustaðirnir.

Eftir að tökum lauk fékkst ekki fjármagn til að ljúka við að klippa myndina svo verkið lagðist í dvala. „Eftir því sem á leið fór ég að hugsa um að þessi heimild væri mjög dýrmæt og ég yrði að skila henni frá mér. Ég lauk mastersnámi í menningarstjórnun frá Háskólanum á Bifröst þar sem lokaverkefnið fjallaði um Rúntinn og byrjaði á sama tíma að klippa myndina og hér er hún komin, þessi fyrsti hluti. Það var mikil áskorun að vinna allt þetta efni enda gríðarlega mikið magn sem við stóðum uppi með og erfitt að velja og hafna en það styrkti myndina að klippa hana svona mikið.“ Myndin var öll tekin upp að sumarlagi en Steingrímur Dúi, Ísold Uggadóttir aðstoðarleikstjóri og Bjarki Kaikumo hljóðmaður leigðu húsbíl og ferðuðust þannig milli staða vítt og breitt á landinu. Þeir bæir sem bíða næstu tveggja mynda eru Akureyri, Egilsstaðir, Hólmavík, Höfn í Hornafirði, Ísafjörður, Reykjavík og Vestmannaeyjar.

 „Í myndinni eru tveir „leikarar“, svona innan gæsalappa, Viðar H. Gíslason tónlistarmaður og Ólafur Jónsson arkitektanemi, en við lögðum upp með að þeir væru ákveðnar stereótýpur sem lifðu og hrærðust í bílamenningu, héngu í sjoppum, lifðu á ruslfæði og hefðu auðvitað gríðarlega mikinn áhuga á rúntinum. Þótt þeir hafi vissulega sett sig í smá stellingar enduðu þeir á því að vera bara mestmegnis þeir sjálfir og þeir náðu mjög góðum tengslum við fólkið á rúntinum,“ segir Steingrímur Dúi og bætir við að í myndinni sé ekki verið að gera grín að neinum og enginn komi illa út. Þvert á móti sé þetta mynd sem skilji eftir sig góðar tilfinningar.

Varstu sjálfur metnaðarfullur rúntari á yngri árum?

„Ég var á rúntinum sem unglingur, líkt og örugglega flestir sem fæddir eru fyrir 1980 og eitthvað síðar. Ég get ekki sagt að ég hafi gengið langt í þessu og sýnt mikinn metnað en ég bjó í Reykjavík og þar var það Laugavegurinn, framhjá Ingólfstorgi, út Hafnarstrætið og svo upp Hverfisgötu.

Rúnturinn sem akstursleið er hins vegar bara tæknilegt fyrirbæri sem tilheyrir þeirri jaðarmenningu sem við erum fyrst og fremst að fjalla um og við leyfum atburðarásinni að eiga sér náttúrulega framgöngu og fylgjum með sem fremur hlutlausir áhorfendur eins og gert er í „observational“ heimildarmyndum.“

Að uppgötva hvernig hver staður hafði sína sérstöðu í rúntmenningunni kom Steingrími Dúa skemmtilega á óvart og í þessum fyrsta hluta þríleiksins hafa bæirnir allir afar ólíkt yfirbragð.

„Við vorum alltaf að uppgötva og kynnast einhverju nýju á hverjum stað sem við komum á, það var eins og nýr lítill heimur opnaðist fyrir okkur í hvert sinn sem við komum á nýjan stað,“ segir kvikmyndagerðarmaðurinn og bætir við að þótt myndin sé ekki stórmynd heldur lítil heimildamynd, unnin við þröngan fjárhag, sé frásögnin einlæg og heimildin einstök fyrir þennan tíma.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þrá eftir fullkomnun og óraunsæjar áætlanir eiga hug tvíburans allan um þessar mundir. Og það sem meira er, þetta er ekkert mál fyrir þig! Oftast viltu nefnilega það sama.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Torill Thorup
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þrá eftir fullkomnun og óraunsæjar áætlanir eiga hug tvíburans allan um þessar mundir. Og það sem meira er, þetta er ekkert mál fyrir þig! Oftast viltu nefnilega það sama.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Torill Thorup