Hin níu ára gamla Guðrún Lilja Dagbjartsdóttir var á dögunum krýnd jólastjarna ársins, en hún var valin úr hópi rúmlega 200 keppenda.
12 krakkar tóku þátt í úrslitum keppninnar, en sýnt var frá henni í þáttum Stöðvar 2.
Guðrún, sem er mikill söngfugl, hefur ekki setið auðum höndum síðan hún sigraði en hún er nú í óða önn að undirbúa sig fyrir stærðarinnar jólatónleika sem fara fram 10. desember næstkomandi.
Tónleikarnir eru af stærri gerðinni og fara þeir fram í Laugardalshöll, en 6.000 manns munu hlýða á söng jólastjörnunnar sjálfrar.
Guðrún Lilja verður ekki í amalegum félagsskap, því ásamt henni munu Björgvin Halldórsson, Jóhanna Guðrún, Ágústa Eva, Friðrik Dór, Ragga Gísla og fleiri þjóðþekktir söngvarar stíga á svið.