Fólk eyddi meiri fjármunum í vínylplötur en niðurhal tónlistar í Bretlandi í síðustu viku í fyrsta skipti.
Vínylplötur seldust fyrir 2,4 milljónir punda en 2,1 milljón punda var eytt í niðurhal samkvæmt tölum frá Bretlandi.
Breytingin er mikil frá því á sama tíma í fyrra. Þá seldust vínylplötur fyrir 1,2 milljónir punda en stafræn tónlist fyrir 4,4 milljónir punda.
Samtök smásölukaupmanna (ERA) telur að aukninguna í vínylsölu megi rekja til þess að vinsælt sé að gefa plötur í jólagjöf og fleiri verslanir en áður selji plöturnar.
„Enn og aftur koma aðdáendur tónlistar okkur öllum á óvart,“ sagði Kim Bayley, forseti ERA.
„Fyrir ekki svo löngu síðan var talið að niðurhal væri framtíðin. Fáir hefðu spáð því fyrir nokkrum árum að hefðbundnar plötur myndu seljast jafn-vel og raun ber vitni í ár.“
Vert er að taka fram að vínylplötur eru mun dýrari en niðurhalið. Til að mynda kostar plata með Kate Bush 52 pund á vínyl en 12 pund sé henni halað niður.
Niðurhalið er því enn vinsælla en 120.000 vínylplötur seldust í síðustu viku en á sama tíma var 295.000 plötum hlaðið niður.