Megnið af ensku konungsfjölskyldunni skellti sér í jóladagsmessu í morgun. Þó vantaði mikilvægasta ættmennið, sjálfa Elísabetu Englandsdrottningu en hún þurfti að sitja heima vegna kvefs eins og fram kom á mbl.is í morgun.
Fyrri frétt mbl.is: Drottningin fer ekki í messu
Eiginmaður hennar, hinn 95 ára gamli Filippus prins, var þó nógu hress til þess að fara til messu í Sandringham, eins og fjölskyldan gerir yfirleitt. Þar var hann ásamt syni sínum Karli og konu hans Camillu, hertogaynjunni af Cornwall. Yngri sonur Karls, Harry prins, var einnig á svæðinu, án kærustunnar, bandarísku leikkonunnar Meghan Markle.
Konungsfjölskyldan eyðir yfirleitt jólunum á heimili sínu í Sandringham og er það hefð að hún gangi þaðan yfir í messuna á jóladagsmorgun.
Vilhjálmur prins, eldri bróðir Harry, eyddi hins vegar jólunum með fjölskyldu eiginkonu hans Katrínar í Berkshire. Er þetta í fyrsta skiptið síðan að Vilhjálmur og Katrín urðu foreldrar sem þau eru ekki í Sandringham um jólin. Mátti sjá Vilhjálm og Katrínu ásamt börnum sínum, hinum þriggja ára Georg prinsi og Karlottu prinsessu sem er eins árs, fara saman í kirkju í morgun.
Þá vantaði líka prinsessuna Zöru Tindall í messuna í Sandringham í morgun en í gær var sagt frá því að hún hafi nýlega misst fóstur. Hins vegar mátti sjá móður Zöru, Önnu prinsessu, yngri son drottningarinnar, Andrew prins, og dætur hans Beatrics og Eugenie, koma úr kirkjunni í Sandringham ásamt yngsta syni drottningarinnar, Edward prins.
Þúsundir höfðu safnast saman fyrir utan kirkjuna og ræddi Harry prins við nokkra viðstadda.