Það er óhætt að segja að Super Bowl, eða Ofurskálin, hafi verið stjörnum prýdd í ár. Fyrir utan fótboltamennina, sem þetta á víst allt að snúast um, var það söngkonan Lady Gaga sem skemmti gestum. Áður en leikurinn hófst flutti Luke Bryan bandaríska þjóðsönginn.
Þegar Gaga hélt sýningu sína leit allt út fyrir að leikmenn Atlanta Falcons myndu fagna sigri gegn New England Patriots í Ofurskálarleiknum í Houston í nótt. Staðan 21:3, Fálkunum í vil, en hálfleikssýning Gaga hefur barið leikmönnum Patriots baráttuanda í brjóst en þeir sigruðu að lokum eftir framlengingu.
Frétt mbl.is: Ævintýralegur sigur New England
Gaga tók flest sín frægustu lög, Poker Face, Born This Way, Telephone, Just Dance og Bad Romance við frábærar undirtektir áhorfenda sem virtust ekki vera vissir um hvort þeir væru á tónleikum eða íþróttakappleik.
Almenn ánægja virðist hafa verið með frammistöðu Gaga, ef marka má Twitter í það minnsta. Meðal þeirra sem lýstu ánægju sinni með atriði Gaga var forsetaframbjóðandinn Hillary Clinton. Gaga var opinber stuðningsmaður Clinton í kosningabaráttu hennar gegn Donald Trump á síðasta ári.
I'm one of 100 million #SuperBowl fans that just went #Gaga for the Lady, & her message to all of us. https://t.co/8AoNqjwr1b
— Hillary Clinton (@HillaryClinton) February 6, 2017