„Við erum búnar að vera mjög heppnar með efni og það er ótrúlegt hverju fólk er að henda,“ segir Sólveig Dóra Hafsteinsdóttir nemi í fatahönnun en hún ásamt öðrum nemum undirbýr sýningu á fötum sem eru endurunnin úr fötum sem hafa verið gefin til Rauða Krossins en eru ekki seljanleg.
mbl.is kom við í Þverholti þar sem annars árs nemar í fatahönnun vinna nú myrkranna á milli við að undirbúa sýninguna sem verður í Flóa í Hörpu á fimmtudagskvöld kl.19 og þangað eru allir velkomnir. Sólveig og Una Guðjónsdóttir sýndu meðal annars flíkur sem verið er að skapa en einnig það sem skilaði sér til Rauða Krossins.