Framleiðslufyrirtæki Baltasar Kormáks, RVK Studios, hefur samið við fyrirtækið Buccaneer Media um framleiðslu sjónvarpsþáttanna The Reykjavik Confessions sem munu fjalla um Guðmundar- og Geirfinnsmálið. Hefur handritshöfundurinn John Brownlow verið fenginn til þess að koma að myndinni. Breski blaðamaðurinn Simon Cox, sem hefur rannsakað málið um árabil verður ráðgjafi en myndin verður byggð á rannsóknum hans.
Fram kemur á vefsíðunni Deadline að þættirnir munu einnig koma inn á stöðu Íslands á þeim tíma þegar Guðmundar- og Geirfinnsmálið stóð sem hæst í miðju kalda stríðinu á hugmyndafræðilegum mörkum Bandaríkjanna og Sovétríkjanna sem meðal annars hafi komið fram í skákeinvígi aldarinnar á milli Bobbys Fischers og Boris Spassky. Á sama tíma hafi Íslendingar staðið í harðvítugum fiskveiðideilum við Bretland.
Haft er eftir Baltasari að Guðmundar- og Geirfinnsmálið hafi verið viðvarandi í íslensku samfélagi í rúma fjóra áratugi. Eftir að þeir sem fangelsaðir hafi verið í málinu hafi losnað hafi hann kynnst sumum þeirra og heyrt þeirra hlið. „Þeir halda enn fram sakleysi sínu og mér finnst það vera skylda okkar að blása lífi í þetta flókna morðmál.“
Þeir sem halda utan um framleiðsluna verða Tony Wood og Nicola Larder frá Buccaneer Media og Magnús Viðar Sigurðsson frá RVK Studios auk Baltasars og Simon Cox.