Gleði og glimmer í skugga stríðs

Gríðarleg öryggisgæsla er í Kænugarði þessa dagana vegna Eurovision.
Gríðarleg öryggisgæsla er í Kænugarði þessa dagana vegna Eurovision. AFP

Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva sem haldin er í Úkraínu í ár er sérstök fyrir margar sakir. Fyrst og fremst er það sú staðreynd að keppnin er haldin í skugga vopnaðra átaka í austurhluta landsins og bágs efnahagsástands en aðeins eru tvö ár síðan Úkraínumenn tóku ekki þátt í keppninni vegna fjárhagserfiðleika.

En þegar úkraínska söngkonan Jamala vann Eurovision í fyrra öllum að óvörum hófst strax undirbúningur Úkraínumanna fyrir keppnina og virðist hún ætla að verða hin glæsilegasta.

Snýst um stuðning við vestur eða austur

Úkraína hefur ítrekað ratað í heimsfréttirnar síðustu ár vegna þeirra vopnuðu átaka sem hafa staðið yfir í landinu frá árinu 2014 á milli uppreisnarmanna hliðhollum Rússum og úkraínska hernum og þjóðernissinnum. Eins og svo oft áður bitna átökin helst á almennum borgurum á svæðinu en samkvæmt tölum Sameinuðu þjóðanna hafa að minnsta kosti 9.800 almennir borgarar og hermenn látið lífið síðan átökin brutust út. Þá er talið að um fimm milljónir manna í Úkraínu flokkist undir stríðshrjáða borgara.

Í sinni einföldustu mynd snýr ágreiningurinn helst um hvort Úkraína eigi frekar að hallast að Evrópusambandinu í vestri eða Rússlandi í austri. Þjóðin er gífurlega skipt þegar það kemur að þessum málum, flestir stuðningsmenn Evrópusambandsins búa í vestri en flestir stuðningsmenn Rússa eru að mestu leyti í austri.

Frá úkraínsku borginni Donetsk.
Frá úkraínsku borginni Donetsk. AFP

Atburðarásin hófst með friðsælum mótmælum

Í nóvember 2013 hófust friðsæl mótmæli við sjálfstæðistorgið í Kænugarði eftir að þáverandi forseti landsins, Viktor Yanukovych, hætti við að skrifa undir samstarfssamning við Evrópusambandið og ákvað frekar að auka samskipti þjóðarinnar við Rússa. Stuðningsmenn Evrópusambandsins í Úkraínu tóku þessu illa og stóðu mótmælin yfir þar til ríkisstjórn forsetans svipti hann valdi í febrúar og hann flúði land. Mótmælin voru friðsæl til að byrja með en síðan brugðust stjórnvöld við með hörðu ofbeldi og létu tæplega 130 lífið í mótmælunum.

Frá mótmælunum á Sjálfstæðistorginu í Kænugarði 2014.
Frá mótmælunum á Sjálfstæðistorginu í Kænugarði 2014. AFP

Eftir að Yanukovych flúði land fóru Rússar að skipta sér í auknum mæli af gangi mála hjá nágrönnum sínum í Úkraínu, sérstaklega á Krímskaganum þar sem þeir studdu uppreisnarmenn. Uppreisnin tók stuttu síðar við stjórn skagans og 16. mars fór fram umdeild kosning um hvort svæðið ætti að færast undir stjórn Rússlands. Kosningarnar hafa aldrei verið viðurkenndar á alþjóðavettvangi en 96,7% kjósenda studdu það að Krímskagi myndi færast undir stjórn Rússlands.

Samkvæmt samantekt Félags Sameinuðu þjóðanna  töldu 13 af 15 aðilum Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna kosningarnar vera ógildar vegna þess að íbúar Krímskaga höfðu ekki vald til þess að taka slíka ákvörðun upp á eigin spýtur. Þá voru svarmöguleikarnir í kosningunum einnig vafasamir sökum þess að valið stóð í raun á milli tveggja leiða sem báðar leiddu til sundrunar milli Úkraínu og Krímskagans.

4.700 létu lífið á níu mánuðum

Það var þá sem átökin í landinu hófust fyrir alvöru. Sameinuðu þjóðirnar segja að þá hafi Rússar hafið stuðning sinn við uppreisnarmenn í Austur-Úkraínu sem unnu gegn úkraínskum stjórnvöldum. Þetta leiddi af sér vopnuð átök á svæðinu milli uppreisnarmanna hliðhollra Rússum og hersveita Úkraínustjórnar og þjóðernissinna. Ástandið var verst í héruðunum Donetsk og Luhanks og í lok árs 2014 höfðu átökin kostað yfir 4.700 manns lífið.

Átökin vöktu sérstaka athygli í júlí 2014 þegar 298 létu lífið eftir að farþegaþota Malaysian Airlines var skotin niður er hún flaug yfir átakasvæðið á leið til Kuala-Lumpur. Eftir tveggja ára rannsókn á málinu komst alþjóðleg nefnd sak­sókn­ara og sér­fræðinga frá Hollandi, Ástr­al­íu, Belg­íu og Malas­íu að þeirri niðurstöðu að flugskeytið sem skaut þotuna niður var rússneskt og því skotið upp frá yfirráðasvæði uppreisnarmanna.

298 létu lífið þegar þotan hrapaði.
298 létu lífið þegar þotan hrapaði. AFP

Sameinuðu þjóðirnar hafa alltaf verið á þeirri skoðun að aðgerðir Rússa, bæði á Krímskaga og í Austur-Úkraínu séu skýr brot á alþjóðalögum. Vesturlönd hafa brugðist við með viðskiptahömlum gegn Rússum og Rússar svöruðu í svipuðum dúr, m.a. með því að stöðva allan innflutning á mat frá Vesturlöndum.

En hvernig er staðan í Austur-Úkraínu í dag?

Þó nokkur friðarsamkomulög hafa verið undirrituð milli Úkraínu, Rússlands og aðskilnaðarsinna, fyrst í september 2014. Það var ítrekað brotið og hafði ekki veruleg áhrif að mati Sameinuðu þjóðanna. Fólk hélt áfram að deyja en skrifstofa mannréttindafulltrúa SÞ, greindi frá því í mars 2015 að meira en 6.000 manns hafi látið lífið í átökunum og var talan komin í 6.800 í september sama ár.

Nýtt friðarsamkomulag var undirritað í febrúar 2015 en leiddi ekki til raunverulegs vopnahlés. Í grein Samtaka Sameinuðu þjóðanna er greint frá því að Úkraína hafi í samræmi við nýja friðarsamninginn stefnt að stjórnarskrárbreytingu sem myndi gefa átakasvæðinu meira sjálfstæði. Eru taldar líkur á því að það gæti hjálpað til við lausn deilunnar en andstæðingar Rússa í Kænugarði hafa mótmælt þessum áætlunum harðlega og óttast að þessi breyting gæti orðið til þess að Rússar myndu taka yfir austurhluta landsins.

Fólk á gangi fram hjá skriðdrekum uppreisnarmanna í Donetsk 3. …
Fólk á gangi fram hjá skriðdrekum uppreisnarmanna í Donetsk 3. maí síðastliðinn. AFP

Síðasta tilraun til vopnahlés hófst 6. apríl en án árangurs enn og aftur. Strax tveimur dögum seinna greindu hersveitir úkraínskra stjórnvalda frá því að fjórir hermenn hefðu særst í árásum uppreisnarmanna. Daginn eftir tilkynnti herinn um 30 brot á vopnahléinu og uppreisnarmenn um 36 brot.

Bitnar helst á almennum borgurum

Síðustu fregnir af dauðsföllum á átakasvæðinu þegar þetta er skrifað bárust á fimmtudaginn en sá sólarhringur var sá blóðugasti frá því vopnahléið var sett á tæpum mánuði áður. Þá  létu fjórir hermenn lífið og einn almennur borgari.

Þá var greint frá því í frétt AFP að úkraínskar hersveitir hefðu misst 19 hermenn frá 1. apríl en síðasta mánuðinn höfðu uppreisnarmenn greint frá 10 dauðsföllum.

Einn bandarískur sjúkraliði lét lífið í Lugansk í apríl eftir sprengingu. Sjúkraliðinn starfaði með Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu (OSCE) og er talið að um jarðsprengju hafi verið að ræða en tveir særðust. SÞ segjast líta málið gríðarlega alvarlegum augum og hafa kallað eftir rannsókn á möguleikanum á því að jarðsprengjur séu notaðar í átökunum.

Í dag, rúmum þremur árum eftir að átökin brutust út, sér ekki fram á að þeim ljúki á næstunni. Eins og fyrr segir hefur stríðið bitnað mest á almennum borgurum og þá helst börnum. SÞ telja að stríðið hafi haft alvarleg áhrif á meira en 200.000 börn í Donetsk og Luhanks og þurfa þau andlegan stuðning til þess að horfast í augu við það sem þau hafa upplifað síðustu ár.

Maður situr í rústum íbúðar sinnar í Donetsk í apríl …
Maður situr í rústum íbúðar sinnar í Donetsk í apríl 2015. AFP

740 skólar hafa skemmst

„Heimurinn hefur gleymt þessum ósjáanlegu átökum í Austur-Úkraínu en hundruð þúsunda barna þjást og getur þjáningin staðið yfir alla þeirra ævi án viðeigandi stuðnings,“ var haft eftir fulltrúa UNICEF í Úkraínu, Giovanna Barberis, í fréttatilkynningu í apríl

Sagði hún jafnframt að börnin lifðu við stöðugan ótta og óöryggi vegna sprengjuárása, átaka á jörðu niðri og hættu vegna jarðsprengja.

Þá stofna mörg börn menntun sinni í hættu vegna átakanna. Sjö skólar skemmdust vegna stríðsins í febrúar og mars og rúmlega 740 skólar hafa skemmst í austurhluta landsins síðan átökin hófust árið 2014.

UNICEF hefur kallað eftir 31,2 milljónum Bandaríkjadala eða um 3,3 milljörðum íslenskra króna til þess að styðja við börnin í austur-Úkraínu og fjölskyldur þeirra.

„Börn ættu ekki að þurfa að lifa við tilfinningaleg ör vegna átaka sem þau áttu engan hlut í að skapa. Aukinn stuðningur er nauðsynlegur núna svo að ungt fólk í Donetsk og Luhansk geti orðið heilbrigðir fullorðnir einstaklingar og tekið þátt í að endurbyggja samfélögin þeirra,“ er haft eftir Barberis.

Eyðileggingin er mikil í Austur-Úkraínu.
Eyðileggingin er mikil í Austur-Úkraínu. AFP

Rússinn fékk ekki að vera með

Átökin hafa haft gríðarleg áhrif á samskipti Rússa og Úkraínumanna, skiljanlega. Sem dæmi má nefna að farþegaflug milli landanna hefur legið niðri síðan í október 2015 og þeir sem ætla á Krímskaga þurfa að fara í gegnum opinber úkraínsk landamæri, annars getur þeim verið bannað að koma til Úkraínu.

Það er einmitt það sem Yulia Samoilova, sem átti að keppa fyrir hönd Rússlands í Eurovision í ár, lenti í en hún fór til Krímskaga árið 2015 í gegnum rússnesku landamærin til þess að syngja á íþróttahátíð.

Yuliya Samoilova fékk ekki að vera með í Eurovision í …
Yuliya Samoilova fékk ekki að vera með í Eurovision í ár. AFP

Uppi voru efasemdir um hvort Rússar myndu yfir höfuð taka þátt í Eurovision í Úkraínu en í febrúar greindu þeir frá því að Samoilova myndi vera fulltrúi þeirra í keppninni með lagið Flame is Burning. Í mars greindu Úkraínumenn hins vegar frá því að henni yrði ekki hleypt inn í landið í maí til þess að taka þátt í Eurovision vegna þessarar örlagaríku ferðar fyrir tveimur árum.  

EBU, samtök evrópskra sjónvarpsstöðva, sem heldur Eurovision, reyndi að finna lausn á málunum, og bauð m.a. það að Samoilova myndi flytja lagið sitt í gegnum gervihnattaútsendingu. Þeirri hugmynd var hafnað og 13. apríl greindu Rússar frá því að þeir myndu ekki taka þátt í ár.

700 km skilja átökin frá Eurovision-sápukúlunni

Átökin í Austur-Úkraínu hafa ekki verið áberandi í umræðunni um Eurovision, enda reynir keppnin út í ystu æsar að vera ópólitísk, „byggja brýr“ og „fagna fjölbreytileika“. Þá má ekki gleyma því að um 700 kílómetrar skilja átakasvæðið í Austur-Úkraínu og Eurovision-sápukúluna í Kænugarði og því er engin ástæða fyrir þá sem halda á keppnina að hafa áhyggjur af öryggi sínu. Þrátt fyrir það er öryggisgæslan í kringum keppnina gríðarleg, og jafnvel meiri en síðustu ár. 

Fólk stillir sér upp við Eurovision-skreytingar á Sjálfstæðistorginu, þar sem …
Fólk stillir sér upp við Eurovision-skreytingar á Sjálfstæðistorginu, þar sem næstum því 130 manns létu lífið í mótmælum 2013 og 2014. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú heldur af þér með að gera eitthvað. Leyfðu sjálfstraustinu að njóta sín, því það er þitt bezta vopn.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú heldur af þér með að gera eitthvað. Leyfðu sjálfstraustinu að njóta sín, því það er þitt bezta vopn.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar