Svala Björgvinsdóttir, flytjandi lagsins Paper, komst ekki áfram upp úr undankeppni Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva.
Alls komust tíu lönd áfram af þeim átján sem kepptu í kvöld og var Ísland ekki dregið upp úr hattinum að þessu sinni.
Svala flutti lag sitt Paper af miklu öryggi eins og búast mátti við á stóra sviðinu. Henni var fagnað rækilega í blaðamannahöllinni, rétt eins og eftir dómararennslið í gærkvöldi og sungu nokkrir erlendir blaðamenn með og dönsuðu, eins og blaðamaður mbl.is í Kænugarði greindi frá fyrr í kvöld.
Svala flutti lagið í sama hvíta samfestingi og á æfingunum síðustu daga og með dramatískt hátt tagl. Hún var dugleg að brosa í myndavélina en hélt töffaraskapnum.
Stemningin í salnum var mjög góð, reyndar eins og í allt kvöld, og var Svölu fagnað vel af áhorfendum. Eftir flutninginn hrópaði okkar kona „Thank you!“
Þessi lönd komust áfram: Moldavía, Aserbaídsjan, Grikkland, Svíþjóð, Portúgal, Pólland, Armenía, Ástralía, Kýpur og Belgía.