Rússneski blaðamaðurinn Anton Samsonov er mikill Eurovision-aðdáandi. Reyndar svo mikill að hann hefur fylgst með Björgvini Halldórssyni í 22 ár, eða allt frá því að Björgvin tók þátt í Eurovision árið 1995 með lagið Núna.
„Eftir keppnina 1995 var gefinn út diskur með bestu lögum Söngvakeppni Sjónvarpsins frá upphafi og ég fékk mér þann disk. Þar eru mjög góð lög eftir Björgvin. Uppáhaldslögin mín með honum eru Í tango og Himinn og jörð,“ segir Samsonov í samtali við mbl.is.
Hann segir þó frekar erfitt að verða sér út um plötur Björgvins í Rússlandi og þekkir hann því eiginlega bara lög söngvarans af disknum fræga.
Að sjálfsögðu vissi Samsonov allt um íslenska framlagið í ár en hann er mjög fróður um Eurovision yfir höfuð. Hann segir það hafa verið vonbrigði að Svala komst ekki upp úr riðlinum.
„Lagið hennar Svölu var mjög gott en kannski ekki eitt af þessum „skyndibitalögum“ sem eru að fara að skora hátt í ár. Þú þarft að hlusta á það kannski tvisvar til þess að hrífast af því. Síðan er þetta syntha-popp sem er ekki beint popp og erfitt fyrir marga að skilja. Þess vegna var ég mjög ánægður að Noregur komst áfram. Þeir eru með svipaðan stíl og íslenska lagið,“ segir Samsonov. „En Íslendingar áttu ekki skilið að detta út, ég vildi fá hana í úrslitin.“
Hann segist spenntur að sjá Björgvin í beinni á laugardaginn þegar hann kynnir íslensku stigin. „Jú auðvitað er ég spenntur,“ segir Samsonov við spurningu blaðamanns.
Uppáhaldslag hans í keppninni í ár er portúgalska lagið. Hann vonar að þeir vinni, sérstaklega því hann langar til Portúgal á næsta ári. „Ein af ástæðunum fyrir því að ég elska þetta lag er að ég tala portúgölsku en lagið er sungið á móðurmálinu. Ég tala ensku, spænsku, portúgölsku og eistnesku, fyrir utan rússnesku auðvitað.“
Hann segir það alveg mögulegt að Portúgalinn nái að sigra Ítalann Fransesco sem flestir hafa spáð sigri.
Þegar blaðamaður mbl.is ræddi við Samsonov var hann með eistneska fánann bundinn um herðarnar en hann var mikill stuðningsmaður eistneska lagsins sem komst ekki áfram. „Það voru mikil vonbrigði, ég skil ekki hvernig það gat gerst.“