Tökur á leikinni kvikmynd í fullri lengd um Guðmundar- og Geirfinnsmálin hefjast á næsta ári, en á bak við myndina standa leikstjórinn Egill Örn Egilsson (Eagle Egilsson), framleiðendurnir Ingvar Þórðarson og Júlíus Kemp og tónlistarmaðurinn Damon Albarn sem mun semja tónlist fyrir myndina. Myndin hefur fengið heitið Imagine murder eða Lifun á íslensku.
Þá mun Sverrir Guðnason leika aðalhlutverk myndarinnar, en hann hefur undanfarið skotist upp á stjörnuhimininn í Svíþjóð og mun fljótlega koma út kvikmynd um ævi tennisstjörnunnar Björn Borg, þar sem Sverrir leikur aðalhlutverkið.
Albarn og Ingvar hafa áður unnið saman við gerð myndarinnar 101 Reykjavík þar sem Albarn samdi tónlist.
Í samtali við mbl.is segir Ingvar að handritið að myndinni hafi verið klárt í tvö ár og verkefnið í heild hafi verið fjögur ár í undirbúningi. Áætlað er að myndin verði frumsýnd árið 2019, en nú þegar er búið að selja sýningarrétt að henni í Þýskalandi og Skandínavíu.
Segir Ingvar að fjármögnun sé komin lang leiðina og að ef ákveðið hefði verið að hafa hana á ensku væri það mál frágengið. Framleiðendurnir telji myndina hins vegar hluta af íslenskri sögu og því nauðsynlegt að hafa hana á íslensku. Segir hann að það að hafa Egil sem leikstjóra og Sverri í aðalhlutverkinu hafi hjálpað mikið til við að laða að fjárfesta, en Egill hefur meðal annars þó nokkrum stórþáttum í Bandaríkjunum, eins og CSI Cyber, CSI Miami, Gotham, The Black list og nú síðast Training day þætti.
Fyrr í þessum mánuði var heimildarmyndin Out of thin air, sem einnig fjallar um sama mál, frumsýnd. Það var Sagafilm sem framleiddi þá mynd. Þá hefur verið tilkynnt um framleiðslu á þáttum um Guðmundar- og Geirfinnsmálið sem RVK Studios ætla að framleiða. Munu þeir nefnast The Reykjavík confessions.