„Mjög fínn fagmennskustimpill“

Anton Máni í Cannes.
Anton Máni í Cannes. mbl.is/Halldór Kolbeins

„Cannes kvikmyndahátíðin er mér mjög kær og mikilvæg þar sem hún er ekki eingöngu sú virtasta í heiminum heldur einnig fyrsta erlenda kvikmyndahátíðin sem ég fór á. Það var einstök reynsla er ég fór þangað fyrst 2013 ásamt vini mínum og leikstjóra Guðmundi Arnari. Við fórum þá með stuttmynd okkar Hvalfjörður í aðalkeppnina og unnum sérstök dómnefndarverðlaun en sá árangur kom okkur almennilega á kortið og opnaði margar dyr. Síðan þá heimsæki ég hátíðina á hverju ári,“ segir kvikmyndaframleiðandinn Anton Máni Svansson en hann var einn þeirra Íslendinga sem sóttu alþjóðlegu kvikmyndahátíðina í Cannes í Frakklandi sem lauk um helgina. 

Lánsamur

Anton Máni segist þetta árið hafa verið svo lánsamur að hljóta þann heiður að vera valinn í sérstakt verkefni hátíðarinnar sem kallast „Producers on the move“. Framleiðendur frá Evrópulöndum geta sótt um að taka þátt í því og er markmiðið að tengja saman framleiðendur á uppleið í faginu og styrkja þannig tengslanet hvers og vekja athygli á þeim um leið.

Einungis tveir norrænir framleiðendur voru valdir þetta árið, frá Íslandi og Danmörku, en í heildina voru framleiðendurnir 20 frá Evrópulöndum. „Þetta prógramm er skipulagt af European Film Promotion og eru þau mjög öflug í að auglýsa okkur, hina völdu framleiðendur, t.d. í stærstu kvikmyndatímaritunum. Þetta er mjög fínn fagmennskustimpill, ef svo má segja og líka frábært viðskiptatækifæri þar sem maður nær að kynnast vel framleiðendum frá 19 öðrum Evrópulöndum sem og ýmsum stærri aðilum úr bransanum. Þetta snýst mest um tengslamyndun þar sem það er einn aðallykillinn að velgengni í þessum bransa. Ennfremur fáum við svo áhugaverða fræðslu sem gefur manni oft nýja sýn og opnar huga manna fyrir ýmsum nýjum aðferðum og möguleikum í framleiðslu,“ segir Anton Máni.

Hjartasteinn seldur til yfir 50 landa

„Ég er hér mest að nýta tækifærið til að kynna nýjustu verk mín og finna bestu mögulegu samstarfsaðilana, meðframleiðendur og sölufyrirtæki. Það hefur gengið alveg einstaklega vel og ég finn að mikil spenna er fyrir næstu verkum okkar hjá Join Motion Pictures.

Við erum enn að fylgja eftir kvikmynd okkar Hjartasteini en hún hefur verið seld núna til yfir 50 landa og hefur hlotið 30 alþjóðleg verðlaun. Hún er að byrja í kvikmyndahúsum núna á næstu vikum í Danmörku og Svíþjóð en hún verður sýnd áfram á Íslandi í sumar í Bíó Paradís,“ segir Anton Máni.

Vetrarbræður og spennutryllir

Anton Máni segir næst á dagskrá hjá Join Motion Pictures að frumsýna í haust fyrstu mynd Hlyns Pálmasonar, leikna kvikmynd í fullri lengd sem nefnist Vinterbrødre, þ.e. Vetrarbræður, sem fyrirtækið framleiði með danska framleiðslufyrirtækinu Masterplan Pictures. „Sú mynd var tekin upp í Danmörku með dönskum leikurum. „Vetrarbræður gerist í einangraðri verkamannabyggð á köldum vetri. Við fylgjumst með bræðrunum Emil og Johan og verðum vitni að því er ofbeldisfullar deilur brjótast út milli þeirra og annarrar fjölskyldu á vinnustaðnum. Þetta er saga um skort á ást sem fókusar á yngri bróðurinn, Emil, og þörf hans fyrir að vera elskaður og þráður,“ segir Anton Máni.

Hlynur er kominn langt á leið með næstu kvikmynd sína og segist Anton Máni hafa nýtt dvölina í Cannes í að stilla upp fjármögnun þeirrar myndar sem vonir standi til að tekin verði upp á næsta ári. Kvikmyndin verði íslenskur spennutryllir og ólíkur öðrum slíkum sem gerðir hafi verið á Íslandi.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Lífið leikur við þig þessa dagana og rómantíkin blómstrar. Hún er allra meina bót og byggir þig upp til frekari átaka.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Birgitta H. Halldórsdóttir
2
Torill Thorup
3
Sofia Rutbäck Eriksson
4
Solja Krapu-Kallio
5
Sarah Morgan
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Lífið leikur við þig þessa dagana og rómantíkin blómstrar. Hún er allra meina bót og byggir þig upp til frekari átaka.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Birgitta H. Halldórsdóttir
2
Torill Thorup
3
Sofia Rutbäck Eriksson
4
Solja Krapu-Kallio
5
Sarah Morgan
Loka