Elfar Aðalsteins leikstýrir rísandi stjörnum

Tökur á kvikmyndinni End of Sentence standa nú yfir á …
Tökur á kvikmyndinni End of Sentence standa nú yfir á Írlandi. Leikstjórinn Elfar Aðalsteins og kvikmyndatökumaðurinn Karl Óskarsson. Úr einkasafni

End of Sentence, ný kvikmynd eftir íslenska leikstjórann Elfar Aðalsteins, var kynnt í Cannes í síðasta mánuði en tökur á henni hófust á Írlandi fyrir um tveimur vikum. Fjölmargir Íslendingar koma að gerð og framleiðslu myndarinnar og mun eftirvinnsla að öllum líkindum fara fram á Íslandi.

Aðalhlutverkið í myndinni er í höndum bandaríska leikarans John Hawkes sem íslenskir bíógestir ættu að kannast við úr mörgum kvikmyndum síðustu ár en með eftirminnilegri hlutverkum hans er fatlaða ljóðskáldið í The Sessions, sem Hawkes hlaut fjölda tilnefninga og verðlaun fyrir ásamt móttleikkonu sinni, Helen Hunt. Ólafur Darri Ólafsson fer með lítið hlutverk í End of Sentence og meðal annarra Íslendinga sem koma að myndinni eru Karl Óskarsson sem sér um kvikmyndatöku og Kristján Loðmfjörð sem sér um klippingu.

Leikstjórinn fyrir miðju en í grárri peysu hægra megin á …
Leikstjórinn fyrir miðju en í grárri peysu hægra megin á myndinni má sjá Logan Lerman, sem er rísandi stjarna í Hollywood og fer með eitt af aðalhlutverkum End of sentence.

Elfar Aðalsteins hefur unnið að gerð fjölmargra mynda og skrifaði og leikstýrði stuttmyndunum Subculture og verðlaunamyndinni Sailcloth, þar sem John Hurt fór með aðalhlutverk. End of Sentence er hins vegar íslensk/bandarísk mynd framleidd af Elfari og Guðrúnu Eddu Þórhannesdóttur frá Berserk Films, Evu Maríu Daníels, Samson Films á Írlandi og hinu bandaríska Palomar Pictures, framleiðslufyrirtæki Sigurjóns Sighvatssonar, en hann er nýkominn frá Cannes þar sem hann kynnti myndina ásamt fulltrúum dreifingarfyrirtækisins Rocket Science.

Logan Lerman.
Logan Lerman.

Ungar stjörnur í hópnum

Handrit End of Sentence er skrifað af Michael Armbruster, sem m.a. skrifaði Beautiful Boy, mynd sem skartaði Maria Bello og Michael Sheen í hlutverkum foreldra drengs sem fremur fjöldamorð í skólanum sínum. End of Sentence fjallar hins vegar um feðga sem leggja í ferðalag frá Bandaríkjunum til Írlands til að dreifa ösku eiginkonunnar og móðurinnar í fæðingarlandi hennar. Feðgarnir höfðu skorið á öll tengsl sín á milli og sonurinn er nýkominn úr fangelsi er hann samþykkir treglega að fara í ferðalagið gegn loforði um að þeir þurfi aldrei að eiga samskipti eftir það. Ferðin verður hins vegar óútreiknanlegri en þeir höfðu búist við, siðir og móttökur heimamanna koma þeim í opna skjöldu og bakpokaferðalangur kemur inn í líf þeirra á óvæntan hátt.

John Hawkes.
John Hawkes.

Hinn bandaríski Logan Lerman leikur soninn Sean en Lerman er rísandi stjarna í Hollywood. Hann hóf leiklistarferilinn aðeins átta ára er hann lék son Mel Gibson, bæði í kvikmyndunum The Patriot og What Women Want og hefur mikla reynslu þrátt fyrir ungan aldur en meðal nýlegra mynda hans er stríðsmyndin Fury þar sem hann lék á móti Brad Pitt. Lerman lék einnig Ham, son Nóa, í samnefndri kvikmynd sem tekin var upp á Íslandi og hefur því þegar tengingu við íslenska kvikmyndagerð líkt og John Hawkes, sem fór með hlutverk í Everest. Írska leikkonan Sarah Bolger fer með hlutverk puttaferðalangsins en hún hefur m.a. unnið til verðlauna fyrir leik sinn í sjónvarpsþáttunum The Tudors. Líkt og Lerman hóf hún ferilinn snemma og lék, ásamt yngri systur sinni, í kvikmyndinni In America þegar hún var níu ára gömul. Sú mynd fékk tilnefningar til bæði Óskars- og Golden Globe-verðlauna og allt leikaraliðið var tilnefnt til Screen Actors Guild Awards.

Sarah Bolger.
Sarah Bolger.

Ljúfsár saga

Vanity Fair sagði frá því nýlega að End of Sentence hefði verið kynnt sem kvikmynd í framleiðslu í Cannes en Rocket Science sem hefur tryggt sér alþjóðlegan sölurétt á myndinni. „End of Sentence er hlý, fyndin og hjartnæm saga af ósamlyndum feðgum sem finna tengingu á ný; vegreisumynd sem gerð er af næmi og húmor. Þar á ég við bæði leikarana hæfileikaríku og hið frábæra teymi sem stendur að myndinni. Hún mun áreiðanlega hreyfa við áhorfendum víða um heim,“ er haft eftir Thorsten Schumacher, forstjóra Rocket Science.

End of Sentence er fyrsta kvikmynd Elfars í fullri lengd en hann stefnir á að frumsýna hana í janúar á næsta ári. „Við erum komin með meiriháttar leikarahóp og tökulið og ég hlakka mikið til að vinna með þeim að því að gæða þessa ljúfsáru sögu Michaels lífi,“ sagði Elfar í fréttatilkynningu stuttu áður en tökur hófust, en þær standa yfir fram til mánaðamóta.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú ert gæddur góðum hæfileikum en hefur ekki nægilegt sjálfstraust til að nýta þér þá. Ástamálin ganga vel, þú svífur um á bleiku skýi.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Ragnheiður Gestsdóttir
2
Birgitta H. Halldórsdóttir
3
Hugrún Björnsdóttir
4
Eva Björg Ægisdóttir
5
Anna Margrét Sigurðardóttir
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú ert gæddur góðum hæfileikum en hefur ekki nægilegt sjálfstraust til að nýta þér þá. Ástamálin ganga vel, þú svífur um á bleiku skýi.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Ragnheiður Gestsdóttir
2
Birgitta H. Halldórsdóttir
3
Hugrún Björnsdóttir
4
Eva Björg Ægisdóttir
5
Anna Margrét Sigurðardóttir