Veita vegglist betri farveg

Vegglist í óleyfi kann að vera vandamál í sumum sveitarfélögum. Til að sporna við þessu hefur Kópavogsbær farið þá leið að vinna betur með vegglistamönnum og kroturum. Verkefnið er tvíþætt, annars vegar að skapa vegglist í Kópavogi með því að fá fimm listamenn til að skreyta þrjá staði í Kópavogsbæ. Hins vegar að koma þeim sem stunda sína vegglist í óleyfi í betri farveg með því að gera æfingasvæði fyrir unga vegglistamenn og krotara. Bjarki Valberg umhverfisfulltrúi Kópavogs stýrir þessu starfi í samstarfi við ungmennahúsið Molann. Hann vonast til að verkefnið breyti hugarfari fólks gagnvart kroti og vegglist. 

Fimm listamenn

Listamennirnir sem vinna að vegglistagerð í sumar má skipta í eldri og yngri listamenn. Hinir eldri eru á þrítugsaldri þau Kristín Þorláksdóttir, Rögnvaldur Skúli Árnason og Sól Hilmarsdóttir. Yngri listamennirnir eru þau Ísak Snorri Marvinsson og Margrét Rún Styrmisdóttir, 19 og 18 ára.

Bjarki Valberg segir mjög spennandi að sjá ólíka stíla listamannanna sameinast, þá sérstaklega stíl Rögnvalds, sem sé frekar klassískur olíuverkalistamaður og Kristínar, sem hefur meiri reynslu af eiginlegri vegglist. „Það verður mjög áhugavert að sjá hvernig þau munu bræða tækni sína saman,“ segir Bjarki.

Yngri listamennirnir, Ísak Snorri og Margrét Rún vinna að verkefninu jafnt á við hina listamennina. Hugmyndin með þessari samvinnu er að hinir yngri læri af hinum eldri. Þau yngri koma með ferskar hugmyndir. Ísak er tengdur inn í krotsenuna og þekkir til marka (e. tags) og markara (e. taggers).

Listamennirnir munu skreyta tvenn undirgöng, undir Dalveg og Borgarholtsbraut, ásamt því að skreyta vegg við Hálsatorg sem er bak við tónleikahúsið Sviðið. Undanfarnar vikur hafa þau unnið að hugmyndavinnu og undirbúníni en hófu eiginlega vegglistagerð á Hálsatorgi á þriðjudag.

Æfingasvæði fyrir markara og krotara

Listamennirnir hafa fengið sérstakt æfingasvæði við gömlu strætisvagnaundirgöngin í Kópavogi. Tilgangurinn er að að fá markara og krotara til að hætta að gera mörk og krot þar sem þess er ekki óskað. Þeir ættu fremur að leggja vinnu í að búa til stærri og flóknari listaverk. Bæði listamaðurinn og íbúar bæjarins myndu hagnast af því samstarfi. Bjarki segir sjálfsagt að allir geti stundað frístundir sínar og svæðið sé hugsað til þess. „Það eru til æfingasvæði víða fyrir körfubolta, fótbolta og tennis en það er engin sérstök æfingasvæði til fyrir vegglist.“

Æfingasvæðið er við gömlu strætisvagnaundirgöngin í Kópavogi og er opið öllum þeim sem vilja taka þátt. Það verður reglulega grunnað og málað grátt og þannig endurnýjað. Listamennirnir geta þá byrjað á nýjum fleti. Áður en málað er yfir verkin eru þau ljósmynduð og þannig verða þau varðveitt fyrir Kópavogsbæ og listamennina.

Bjarki Valberg segist helst vilja koma verkunum á striga eða filmu svo hægt sé að sýna þau í Salnum, tónlistarhúsi Kópavogs. Hann segir að forsvarsmenn Salarins tekið vel í hugsanlegt samstarf og sýningarhald verkanna.

Allir þeir sem nýta æfingasvæðið geta svo komið í hálfgerðar vinnubúðir í ungmennahúsinu Molanum. Þar geta þeir hitt listamennina fimm, fengið leiðbeiningar og tilsögn um listsköpunina. Kópavogsbær er einnig að vinna að umbótum á æfingasvæðinu. „Við erum í því að hreinsa, loka svæðið betur af, setja upp betri lýsingu og setja innstungur. Gera þetta skemmtilegra,“ segir Bjarki Valberg.

Uppruni verkefnisins

Bjarki segir verkefnið vera tilraun til að breyta hugarfari fólks gagnvart kroti og vegglist. Oft sé sagt að veggjakrot sé bara krot í hvaða formi sem það er haft eða að veggjakrot laði að sér meira veggjakrot. „Þetta er hugarfarið sem við erum að reyna að breyta.“ Hann segist lengi hafa reynt að finna betri leiðir til að glíma við krotið. „Í stað þess að mála alltaf yfir það, var ég að hugsa: „Hvaða aðrar leiðir gæti ég farið til að koma þessu í jákvæðan farveg?“ Jákvæðan farveg fyrir íbúanna því það væri ekki veggjakrot þar sem það ætti ekki að vera og jákvæðan farveg fyrir þá sem stunda þessa tómstund og áhugamál!“

Bjarki Valberg ræddi við markara um veggjakrot í undirbúningi verkefnisins til að heyra þeirra sjónarmið. Eftir það hafi hugmyndin að verkefninu komið. Hún var svo lögð fyrir Umhverfis- og samgöngunefnd Kópavogs og fékk mjög jákvæð viðbrögð, þrátt fyrir að vera óhefðbundin.

Vonandi langtímaverkefni

Bjarki vonast til að hér sé ekki bara um að ræða sumarverkefni, heldur miklu fremur langtímaverkefni. Hann vill tengja það við Iceland Airwaves sem hefur komið erlendum vegglistamönnum til að gera vegglistaverk hérlendis. Hann segir að forsvarsmenn Iceland Airwaves séu mjög áhugasöm um að halda jafnvel einhvers konar sameiginlegar vinnubúðir. „Erlendir listamenn kæmu og kenndu okkar krökkum sem myndu svo fara til þeirra. Þegar krakkarnir okkar hefðu æft sig og þróast þá gætu þeir síðan orðið listamenn sem tækju þátt í verkefni Iceland Airwaves,“ segir Bjarki Valberg.

Einnig hefur hann áhuga á að ræða við forsvarsmenn Secret Solstice-hátíðarinnar til að ná andrúmslofti hátíðarinnar á vegglistarform. Að lokum stefnir verkefnið á að færast yfir í skóla Kópavogsbæjar. Þá myndu listaverk tengd kennslu og menntun fara á skólaveggina. „Við vorum til dæmis með listamann í fyrra sem teiknaði útfrá stærðfræði, sólkerfi og þríhyrningum. Þetta yrði eitthvað í þeim stíl,“ segir Bjarki Valberg. Hann segir Kópavogsskóla hafa einnig lýst áhuga að fá vegglistaverk á veggi skólans. „Þetta var kynnt á skólastjórafundi hjá Menntasviði og allir tóku vel í að skoða þetta á næsta ári,“ segir Bjarki Valberg. 

Undirtektir listamannanna góðar

Bjarki segir undirtektir ungu listamannanna ótrúlegar. „Undirtektirnar, þegar hálf-fullorðnir menn eins og við tökum svona unga krakka tali , hafa verið svo ofboðslega jákvæðar. Þau eru svo ánægð að þeirra áhugamál, íþróttagrein og tómstund fái farveg líkt og önnur tómstundamál hafa fengið farveg,“ segir Bjarki.  

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Það er nauðsynlegt að eyða tíma með ungviðinu og um leið að finna barnið í sjálfum sér. Gættu þess að ganga ekki á rétt annarra.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Birgitta H. Halldórsdóttir
2
Birgitta H. Halldórsdóttir
3
Solja Krapu-Kallio
4
Torill Thorup
5
Sarah Morgan
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Það er nauðsynlegt að eyða tíma með ungviðinu og um leið að finna barnið í sjálfum sér. Gættu þess að ganga ekki á rétt annarra.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Birgitta H. Halldórsdóttir
2
Birgitta H. Halldórsdóttir
3
Solja Krapu-Kallio
4
Torill Thorup
5
Sarah Morgan