Spennandi verkefni biðu hjá Globe

Gísli Örn Garðarsson hyggst leika Ríkarð III undir stjórn Þorleifs …
Gísli Örn Garðarsson hyggst leika Ríkarð III undir stjórn Þorleifs Arnar Arnarssonar árið 2019. mbl.is/Ásdís

Gísli Örn Garðarsson tók sæti í listrænu teymi Globe-leikhússins í London þegar Emma Rice var ráðin listrænn stjórnandi. Ráðgert var að hann myndi leikstýra Hamlet og leika Ríkarð III undir stjórn Þorleifs Arnar Arnarssonar í London. Áformin urðu að engu þegar Rice var bolað úr starfi. 

„Þegar Emma tók við sem listrænn stjórnandi leitaði hún til okkar Nínu [Daggar Filippusdóttur] og bað okkur að taka sæti í listrænu ráði Globe-leikhússins í London fyrir hönd Vesturports sem yrði þar með aðildarleikhús að Globe með það að markmiði að eiga í blómlegu samstarfi næsta áratuginn.

Emma Rice tók við starfi listræns stjórnanda Globe-leikhússins í London …
Emma Rice tók við starfi listræns stjórnanda Globe-leikhússins í London í apríl 2016. Í október sama ár tilkynnti stjórn leikhússins að hún myndi láta af störfum. Ástæðan sem gefin var fyrir uppsögn hennar var að hún þætti of róttæk í notkun sinni á nútímatæknibúnaði, en að sögn Gísla er það tylliástæða. Ljósmynd/blog.shakespearesglobe.com

Það var komið á teikniborðið að við Nína áttum að leika Antoníus og Kleópötru undir leikstjórn Emmu leikárið 2019-20. Ég ætlaði að leikstýra Hamlet sem átti að vera opnunarsýning leikársins hjá Globe haustið 2018 og Þorleifur Örn [Arnarsson] ætlaði að leikstýra mér í titilhlutverkinu í Ríkarði III árið 2019.

Síðan vorum við komin á gott skrið með að ætla að bjóða fleiri íslenskum leikstjórum að setja upp sýningar í Globe, alveg óháð því hvort við Nína værum með í því,“ segir Gísli og tekur fram að vegna þess að Rice var bolað úr starfi verði því miður ekkert af þessum sýningum hjá Globe. 

Þorleifur Örn Arnarsson leikstjóri.
Þorleifur Örn Arnarsson leikstjóri. mbl.is/Guðmundur Rúnar Guðmundsson

„Það stóð alltaf til að Ríkarður III færi líka á svið hérlendis og því er Hallgrímur Helgason kominn af stað með að þýða verkið. Ég reikna með að verkið rati á svið á Íslandi 2019 og mögulega víða um lönd, enda voru komnir nokkrir samstarfsaðilar að borðinu,“ segir Gísli. 

Kemur manni stöðugt á óvart

Gísli glímdi fyrst við Shakespeare sem leikstjóri þegar Vesturport setti upp Rómeó og Júlíu 2002. Næsta Shakespeare-leikstjórnarverkefni kom þegar hann setti Ofviðrið upp í München 2013 og í fyrra glímdi hann við Óþelló. Spurður hvort það sé tilviljun að Shakespeare sé að setja svona sterkan svip á feril hans núna svarar Gísli því játandi. 

Gísli Örn Garðarsson og Nína Dögg Filippusdóttir léku Rómeó og …
Gísli Örn Garðarsson og Nína Dögg Filippusdóttir léku Rómeó og Júlíu víða um heim yfir 400 sinnum frá því uppfærslan var frumsýnd 2002. mbl.is/Golli

„Það er hins vegar ekkert leyndarmál að mér finnst gaman að vinna með texta Shakespeare vegna þess að hann kemur manni stöðugt á óvart. Við lékum Rómeó og Júlíu yfir 400 sinnum og á þriðju til fjórðu hverri sýningu að meðaltali opnaðist einhver nýr leyndardómur fyrir manni í textanum.

Fjögur hundruð sýningum seinna er maður samt ekki útskrifaður úr Rómeó og Júlíu. Leikritin eru óendanlegur brunnur þar sem engin ein leið er réttari en önnur. Nálgunin að Shakespeare er alltaf persónuleg. Ég gæti gert Óþelló aftur í næsta mánuði og haft nálgunina allt öðruvísi en síðast þó að ég sé með nákvæmlega sama textann.

Ég er mjög stoltur af Óþelló

Óþelló fékk mjög misjafna dóma hér heima. Spurður hvort það dragi úr honum eða efli sem listamann svarar Gísli: „Það kom mér á óvart hvað Óþelló fékk neikvæða gagnrýni í mörgum fjölmiðlum af því að mér fannst – og finnst enn – í alvörunni eins og við hefðum fundið skýra lykla að verkinu sem skilaði sér í útgáfu sem stæði sem sjálfstætt listaverk.

Það kom mér á óvart hversu mikilli heift sýningin mætti. Að því sögðu þá fékk ég mikil og jákvæð viðbrögð frá áhorfendum sem skrifuðu mér persónulega, kannski einmitt út af neikvæðu dómunum. Fólk virtist skipta máli að mynda sér eigin skoðanir, en láta ekki hatursbloggara mata sig. Ég gerði Óþelló af miklum heilindum og þetta er sýning sem ég er mjög stoltur af,“ segir Gísli og tekur fram að leikstjórnarákvarðanirnar hans séu vel ígrundaðar. „Ég geri ekki hluti bara af því að þeir eru töff eða sniðugir ef einhver skyldi halda það.“ 

Nína Dögg Filippusdóttir í hlutverki sínu sem Jagó í uppfærslu …
Nína Dögg Filippusdóttir í hlutverki sínu sem Jagó í uppfærslu Þjóðleikhússins og Vesturports á Óþelló. Gísli segist hafa gert Óþelló af miklum heilindum og vera stoltur af sýningunni. Ljósmynd/Eddi

Að sögn Gísla lærir hann alltaf mjög margt um mannlegt eðli í glímunni við texta Shakespeare. „Ríkarður er eitt af stóru verkunum og ég á eftir að hafa mjög gott af því að takast á við þetta hlutverk. Maður þarf hins vegar að gefa sér góðan tíma, því það er langt ferðalag að takast á við hlutverk á borð við þetta og mikil hugarleikfimi. Maður ætti helst að gera eina Shakespeare-sýningu á þriggja til fimm ára fresti því maður finnur alltaf eitthvað nýtt í þeim fyrir sjálfan sig.“

Kvótakerfið til skoðunar

Gísli og Nína eru með mörg járn í eldinum, en í samstarfi við Björn Hlyn Haraldsson eru þau m.a. að undirbúa átta þátta sjónvarpsseríu sem nefnist Verbúð sem unnin er í samvinnu við RÚV.

„Þetta er í fjármögnunarferli núna, en það gæti verið hættulega stutt í það að tökur hefjist. Við kynntum þetta á Scandinavian Screening hér í júní og það voru nokkrir stórir aðilar sem komu strax til okkar og vildu samstarf þannig að þetta lítur allt mjög vel út. Serían gerist á árunum 1983-91 og fjallar um nokkra vini sem gera upp gamlan bát og fara í útgerð. Þeim gengur vel þar til kvótakerfið kemur til sögunnar, en þá fer allt í heljarinnar uppnám. Þetta er stór, mikil og marglaga saga. Þarna ríkir mikil nostalgía sem margir eiga eftir að kannast við, verbúðarlífið, sex, drugs and rock’n’roll eins og þeir segja.“

Ítarlegra viðtal við Gísla má lesa í Morgunblaðinu í dag. Þar ræðir hann m.a. um viðtökurnar sem Óþelló fékk á alþjóðlegri leiklistarhátíð í Slóvakíu fyrir skemmstu og um næsta leikhúsverkefni sitt, en hann mun leikstýra People, places & things eftir Duncan Macmillan, eins og greint var frá fyrst í Morgunblaðinu og á mbl.is í gær. Leikritið verður frumsýnt í Þjóðleikhúsinu í Ósló í febrúar 2018 og í Borgarleikhúsinu mars/apríl 2018. 

mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Lífið leikur við þig þessa dagana og rómantíkin blómstrar. Hún er allra meina bót og byggir þig upp til frekari átaka.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Birgitta H. Halldórsdóttir
2
Torill Thorup
3
Sofia Rutbäck Eriksson
4
Solja Krapu-Kallio
5
Sarah Morgan
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Lífið leikur við þig þessa dagana og rómantíkin blómstrar. Hún er allra meina bót og byggir þig upp til frekari átaka.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Birgitta H. Halldórsdóttir
2
Torill Thorup
3
Sofia Rutbäck Eriksson
4
Solja Krapu-Kallio
5
Sarah Morgan
Loka