Yfirvaraskegg Salvadors Dali er óskaddað og er enn í laginu eins og vísar á klukku sem er tíu mínútur yfir tíu. Þetta kom í ljós þegar jarðneskar leifar spænska listamannsins voru grafnar upp í tengslum við málaferli um faðerni.
Kona að nafni Pilar Abel segir Dali vera föður sinn þar sem hann hafi átt í ástarsambandi við móður hennar árið 1955. Abel höfðaði mál og krafðist þess að fá staðfest að hún sé dóttir listamannsins.
„Þetta var eins og kraftaverk [...] yfirvaraskeggið hans var „tíu mínútur yfir tíu“ og hárið var óskert,“ segir Narcis Bardalet, sérfræðingur sem var viðstaddur uppgröftinn. Erfðasýni voru tekin úr neglum, hári og beinum listamannsins.
Ef það næst að sanna að Abel sé einkabarn Dalis gæti hún átt tilkall til 25% af auðlegðinni sem hann skildi eftir sig og er í umsjón Dalistofnunarinnar á Spáni. Hins vegar gæti hún átt von á stórum reikningi ef rangt reynist, að sögn lögfræðings stofnunarinnar.