Verslunarmiðstöð í Sjanghæ í Kína býður upp á röð svonefndra karlaklefa (e. man pods) sem útbúnir eru tölvuleikjum fyrir kaupleiða eiginmenn og kærasta. Reuters segir klefana hafa slegið samstundis i gegn hjá þeim sem ekki nenna að ramba á milli verslana með betri helmingnum.
Fyrstu karlaklefarnir voru settir upp í Global Harbor-verslunarmiðstöðinni í Sjanghæ í júní á þessu ári og frá því þeir voru teknir í gagnið hafa 1.000 karlar nýtt sér þá að sögn tæknifyrirtækisins Ruwo Smart Technology, sem á heiðurinn af klefunum.
China mall offers 'man pod' havens for husbands wary of shopping https://t.co/lUeXSDoDh1 pic.twitter.com/gHnUq8Y4Zr
— Reuters Top News (@Reuters) July 29, 2017
Í karlaklefunum, sem eru litlir glerklefar, er að finna hægindastól, stóran sjónvarpsskjá og tölvuleiki sem notandinn getur spilað í einangrun frá annríkinu fyrir utan.
„Mér finnst þetta vera mjög góð hugmynd, því að í dag eru margir strákar eins og ég ekki viljugir til að fara í búðir með kærustum sínum,“ hefur Reuters eftir Yao Lei, einum notenda klefanna.
Ruwo Smart Technology hyggst setja upp karlaklefa í fleiri verslunarmiðstöðvum í framtíðinni. „Við komumst að því að í flestum verslunarmiðstöðvum koma karlar og konur saman til að versla en karlarnir eru ekki til í að eyða löngum tíma í búðum,“ segir Zhao Wei, sem sér um rekstur klefanna.
„Stundum fara þau jafnvel að rífast. Þannig að í þessum aðstæðum datt okkur í hug að hafa vöru sem gefur karlinum eitthvað að gera á meðan konurnar versla að vild.“