„Ýttu aðeins hraðar og vertu svo ósýnileg“

Margrét Jónasdóttir framleiðandi Sagafilm.
Margrét Jónasdóttir framleiðandi Sagafilm. mbl.is/Árni Sæberg

Margrét Jónasdóttir, sagnfræðingur og framleiðandi hjá Sagafilm, framleiddi myndina Out Of Thin Air sem frumsýnd var hérlendis í vikunni í Bíó Paradís. Margrét hefur mikla ástríðu fyrir vinnunni sinni og sökkti sér allt of djúpt ofan í Guðmundar- og Geirfinnsmálið við gerð myndarinnar. Hún las þó ekki bara skjöl og pappíra heldur prjónaði peysu eins og Sævar Ciesi­elski klæddist í dómsalnum hér um árið. Það reyndist heldur seinlegt að prjóna peysuna og því náðist ekki að klára hana áður en tökum lauk á myndinni. En hvernig kom það til að Margrét framleiddi myndina?

„Breska framleiðslufyritækið Mosaic Films hafði samband við mig eftir að kollegar mínir þar í landi bentu á mig árið 2015 þegar ég var að undirbúa frumsýningu myndar okkar Benedikts Erlingssonar The Show of Shows í Bretlandi.  Þeir sögðu mér að þeir væru að íhuga að gera mynd um Guðmundar- og Geirfinnsmálið og fylgjast með mögulegri endurupptöku á málinu. Þeir höfðu heyrt umfjöllun BBC um málið nokkrum árum fyrr og voru mjög spenntir. Ég hafði auðvitað sem framleiðandi hugsað með mér mörgum sinnum að þessu þyrfti að fylgja eftir með heimildamynd fyrir alþjóðamarkað, en þar sem málið er gríðarlega flókið og mjög samofið íslensku samfélagi, hafði ég innra með mér ákveðið að leggja ekki í það. En, þegar ég hitti leikstjórann breska Dylan Howitt, ákvað ég að slá til og við í Sagafilm vorum sammála um að þetta væri verkefni sem við vildum framleiða með Bretunum. Auðvitað hafði ég eins og margur hér á landi fylgst með framgangi þessara mála - og hafði mikinn áhuga á að leggja mitt af mörkum svo að myndin yrði sem allra best,“ segir Margrét. 

Áður en Margrét fór að vinna að myndinni Out Of Thin Air hafði hún lesið margt um málið, en eftir að hún ákvað að taka þetta verkefni að sér sökkti hún sér ofan í það bókstaflega. Las bækur og skjöl og allt sem hún komst í sem tengdist málinu. 

„Bretarnir voru líka ótrúlega vel upplýstir um málið enda voru þeir með frábæran mann í undirbúningsrannsókninni, Ant Adane, ungan dreng sem hafði mikinn metnað. Mér leist vel á þetta teymi og ákvað því ganga til liðs við þá. Það var líka greinilegt að þeir tóku á þessu með mikilli virðingu fyrir viðmælendum sínum og aðstæðum þeirra og það er vinnuregla sem ég hef reynt að tileinka mér í mínum störfum. 

Við tókum því höndum saman og fórum af stað í undirbúning og fjármögnun ég og framleiðandinn breski Andy Glynne. Þetta var mjög metnaðarfullt því við ákváðum strax að leggja mikla áherslu á faglega, flotta og mjög stíliseraða endurgerð einstakra atburða í sögunni, aðallega frá árinu 1974-1977.“

Margrét segir að þau hafi kynnt verkefnið á stærstu fjármögnunarmessu heimildamynda í Amsterdam seint haustið 2015. Hún segir að þau hafi fengið stórkostlegar viðtökur. 

„Það er eðlilegt að svona verk taki allt að tvö ár í fjármögnun, en þessi tók innan við ár. BBC Storyville sem mun sýna myndina næsta mánudag, 14. ágúst, kom strax inn, en þessi mynd er sú fjórða í röðinni sem ég hef framleitt fyrir BBC. RÚV gekk líka strax í lið með okkur sem og fjöldinn allur af norrænum og evróspkum sjónvarpsstöðvum. Netflix kom svo inn í myndina og þegar þeir voru komnir að borðinu vildu þeir fá heimsrétt á myndinni. Við ákváðum því að taka því tilboði og halda samningum við RÚV og við BBC, okkar heimalönd en fara svo áfram bara með Netflix,“ segir hún. 

Að búa til heimildamynd eins og þessa tók á og verkefnið var erfitt á margan og ólíkan hátt. 

„Þessi mynd er erfiðasta verkefni sem ég hef fengist við á mínum bráðum tuttugu ára ferli í þessum bransa. Mér þótti erfitt að fást við svona stór mál sem eru svo viðkvæm og er svo mikill mannlegur harmleikur í svo ótrúlega stóru samhengi þar sem líf svo margra og æra hefur verið undir. Þá á ég við alla sem tengdust málinu. Ég hitti marga og sökkti mér með strákunum í rannsóknina og auðvitað miklu meira en ég hefði þurft að gera sem framleiðandi verksins. En þar kemur auðvitað inn bakgrunnur minn sem sagnfræðingur inn í, að mér fannst ég bara verða að vera inni í sem flestu. Enda eru þeir Bretarnir vinir mínir illa læsir á íslenskuna svo það var eins gott að hafa lestrarhest á kantinum sem gat hespað af nokkrum ævisögum á langri helgi.

Svo var það auðvitað endurgerð atburða sem kallaði á aðrar framleiðsluvenjur en ég er vön. Venjulega í mínum verkum er ég með lítið teymi, en í þessu verki vorum við með 14 manna crew og allt upp í 30 leikara sem kallaði á alls konar ævintýri. Auðvitað alltaf að reyna að spara setti maður á sig marga hatta til að sinna sem flestu og greip í að sjá um matinn, sjá um að sækja alla skapaða hluti, vera í hlutverki framleiðandans, runners og skipta mér af leikmyndinni, þrífa fangelsi eftir tökur og ýta gömlum bílunum sem ekki fóru í gang. Ein eftirminnilegasta setningin í framleiðslunni var nú kvöld eitt á Akranesi í upptökum, þegar við tókum upp senuna þegar bíll Geirfinns kemur akandi og  Bergsteinn Björgúlfsson kvikmyndatökumaður kallaði: „Magga ýttu aðeins hraðar og vertu svo ósýnileg.“ 

Margrét prjónaði þessa peysu en hún er eftirmynd af peysunni …
Margrét prjónaði þessa peysu en hún er eftirmynd af peysunni sem Sævar Ciesi­elski klæddist í réttarsalnum. mbl.is/Árni Sæberg

Margrét segist bera mikla virðingu fyrir þeim sem framleiða leikið efni eftir að hafa unnið við myndina.  

„Án Katrínar Lovísu Ingvadóttur framleiðanda og Óskars Jónassonar sem leikstýrð með Dylan leiknu senunum veit ég hreinlega ekki hvernig við hefðum farið að. Ég var með frábært crew, Helgu Rós Hannam í búningum, Bjarna Massa í leikmyndinni, Kristínu Júllu og Tinnu Ingimars í förðun.

Helgu Rós þótti nú nóg um þegar ég gekk svo langt að ég prjónaði peysuna frægu sem Sævar Cisielski var í þegar hann sat í dómsalnum og beið niðurstöðu. Soldið crazy og því miður var hún heldur seingerð svo hún var nú aldrei notuð í myndinni. Með okkur frá upphafi voru svo Árni Benediktsson hljóðmaður og Bergsteinn kvikmyndatökumaður sem eru ótrúlegir fagmenn. Leikstjórinn Dylan var aðeins með tvær óskir þegar við hófum verkið. Getur Besti skotið myndina og getum við fengið Ólaf Arnalds til þess að gera tónlistina. Sem sannur Íslendingur sagði ég auðvitað já að sjálfsögðu! Og gekk svo á þeirra fund. Ólafur Arnalds tók okkur fagnandi og gerði dásamlega tónlist við myndina með Snorra Hallgrímson sér við hlið,“ segir Margrét. 

Þótt myndin hafi verið forsýnd hérlendis í vikunni í Bíó Paradís þá er nú þegar búið að sýna hana á nokkrum hátíðum erlendis. 

„Við höfum sýnt myndina á þremur hátíðum í Kanada og í Bretlandi og svo hefur hún verið sýnd í bíóhúsi í London að auki. En hin eina sanna sýning í mínum huga fór fram í miðvikudagskvöldið þar sem við buðum aðstandendum myndarinnar, viðmælendum og þeirra fjölskyldum og vinum og vandamönnum. Fyrir mér var það stóra stundin, auðvitað mjög kvíðavekjandi en samt spennandi að sýna myndina fólkinu sem treysti okkur fyrir sögum sínum og tilfinningum í viðtölum. Þetta var alveg ótrúlega tilfinningarík stund að mínu mati og þó að ég hafi séð myndina oftar en teljandi er, komst ég við á sýningunni að sitja þarna með þessu fólki sem hefur þurft að ganga í gegnum svo margt vegna þessara mála. Ég ber mikla virðingu fyrir þeim sem hafa sýnt svo mikla einurð í að fá þessi mál endurupptekin,“ segir Margrét. Hún segir að það hafi verið snúið að kvikmyndin hafi verið klippt í Bretlandi. 

„Það var líka erfitt fyrir mig að vera svona langt frá klippisvítunni, því ég er vön að skipta mér mikið af því. En leikstjórinn og klipparinn Miika Leskinen unnu nú þrekvirki þar.

Ég hvet auðvitað alla til þess að sjá myndina í Bíó Paradís, því þetta er mynd sem þarf að sjá á stóra tjaldinu. Hún er mjög áhrifamikil og þó að hún sé afmarkaður vinkill á þessi stóru mál, þá er hún yfirlit yfir þessi mál frá upphafi og hún er framleidd sem kvikmynd í fullri lengd.“

Þegar einu stóru verkefni lýkur tekur annað við. Margrét situr aldrei auðum höndum. 

„Ég er að skila af mér annarri mynd núna, Í kjölfar feðranna, sem fjallar um nokkra ofurhuga sem ákveða að róa yfir Atlanshafið á opnum árabát. Það er langt verkefni sem er löngu kominn tími á að setja loftið. Svo er ég að vinna aðra stóra alþjóðlega heimildamynd með Hrafnhildi Gunnarsdóttur leikstjóra sem er í tökum núna um Steinu og Woody Vasulka, frumkvöðla í vídeólist í heiminum, stórkostlegt fólk  og ótrúlega flotta og heimsfræga listamenn. Við áætlum frumsýningu á henni á næsta ári en hún er unnin fyrir nokkrar erlendar sjónvarpsstöðvar og RÚV. Og það er fjölmargt í pípunum annað. Önnur sería af Nautnum norðursins með Gísla Erni og svo ný stór alþjóðleg heimildamynd sem BBC bað mig og Sagafilm um að framleiða og er þegar komin með fjölmarga kaupendur að borðinu. Það er verkefni sem ég mun kynna seinna í haust en er þegar farið á skrið í fjármögnun. Eins er í smíðum ný sería með Hrafnhildi í anda Aldarinnar hennar sem við framleiddum árið 2015 - og mun snúa að fullveldisárinu. Mynd um starf Hróksins á Grænlandi og ýmislegt fleira á alls kyns stigum framleiðslu. 

Þar sem fjármagn til heimldamyndaframleiðslu er mjög af skornum skammti og Kvikmyndasjóður hefur ekki bolmagn til þess að koma inn nema að litlu leyti og eini kaupandinn að íslenskum heimildamyndum hefur verið RÚV hingað til, er ekki hægt annað en að taka langan tíma í verkin og hugsa út fyrir landsteinana og sætta sig við að fjármögnunartíminn er langur. Sagafilm hefur sem betur fer stutt við þessi þungu verkefni mín og brandarinn þar á bæ er að ég taki ekkert að mér sem tekur undir þremur árum og best sé að árin séu fimm í framleiðslu. En sem betur fer virðast heimildamyndir vera í sókn í heiminum þó að fjármagnið minnki þá er áhuginn meiri. Svo ég held ótrauð áfram enda gríðarlega margar stórbrotnar sögur sem bíða eftir að komast í framleiðsluferli,“ segir hún. 

mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Fólki þykir mikið til vinnusemi þinnar koma. Spennan gæti magnast milli þín og makans því hvorugt er tilbúið til þess að miðla málum.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Birgitta H. Halldórsdóttir
2
Birgitta H. Halldórsdóttir
3
Sarah Morgan
4
Solja Krapu-Kallio
5
Karin Härjegård
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Fólki þykir mikið til vinnusemi þinnar koma. Spennan gæti magnast milli þín og makans því hvorugt er tilbúið til þess að miðla málum.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Birgitta H. Halldórsdóttir
2
Birgitta H. Halldórsdóttir
3
Sarah Morgan
4
Solja Krapu-Kallio
5
Karin Härjegård