Rapparinn Future heldur tónleika í Laugardalshöll 8. október. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Senu Live. Aron Can og Emmsjé Gauti munu hita upp fyrir kappann. Future er á tónleikaferðalagi um heiminn þessa dagana og mun hann koma við á Íslandi milli þess sem hann treður upp í Bandaríkjunum og Englandi. Fylgir hann þar eftir tveim plötum, FUTURE og HNDRXX, sem báðar komu út í febrúar og skutust beint á topp bandaríska Billboard-listans.
Miðaverð er 9.990 krónur í stæði en 14.990 í númeruð sæti. Hefst miðasalan föstudaginn 25. ágúst kl. 10 á miðasöluvefnum Tix.is, en forsala sólarhring fyrr. Þau, sem skráð eru á póstlista Senu Live fá þá sendan póst með tengli sem gerir þeim kleift að kaupa miða í forsölu.
Future hefur unnið með fjölda þekktra listamanna í gegnum tíðina og má þar nefna Rihönnu, Kanye West og kanadíska hjartaknúsarann Drake. Meðal helstu smella hans eru Mask Off, Honest og Jumpman, en af nógu er að taka.