Stjörnurnar minnast Jerry Lewis

Grínistinn Jerry Lewis er allur.
Grínistinn Jerry Lewis er allur. AFP

Margt frægðarfólk í bandarísku menningarlífi minnist nú skemmtikraftsins Jerry Lewis, sem lést í gær, 91 árs að aldri. Hann átti litríkan feril sem grínisti og leikari og var ein skærasta stjarna Hollywood á hápunkti ferils síns, á sjötta og sjöunda áratug síðustu aldar.

Grínistinn Jim Carrey leit á Lewis sem eina af sínum helstu fyrirmyndum og vitnar í þekktar línur úr verkum Lewis í kveðju sinni til hans.

Þá segir stórleikarinn Samuel L. Jackson að það hafi verið ótrúlegt að hlæja með hinum magnaða Jerry Lewis.

Skrautlegur ferill

Lewis fæddist árið 1926 í Newark í New Jersey á austurströnd Bandaríkjanna og var upphaflega gefið nafnið Joseph Levitch. Foreldrar hans voru bæði í skemmtanbransanum og sonurinn fetaði fljótt í fótspor þeirra, en hann kom fyrst fram á sviði einungis fimm ára gamall.

Næstu árin skemmti hann ferðamönnum á sumardvalarstöðum í nágrenni New York og er hann var fimmtán ára gamall var hann orðinn ansi fær búktalari. Hann ákvað að fara til stórborgarinnar og reyna fyrir sér í skemmtanabransanum þar, en umboðsmenn í New York kunnu ekki að meta hæfileika hans.

Gæfuríkt samstarf

Það átti þó eftir að breytast. Er Jerry var tvítugur að aldri hóf hann samstarf við Dean Martin. Tvíeykið sló í gegn með gríni sínu, sem einkenndist af ýktu líkamlegu látbragði. Það skilaði þeim félögum löngum samning við kvikmyndaverið Paramount.

Þeir störfuðu saman í tíu ár, til ársins 1956, en þá héldu félagarnir hvor í sína áttina eftir að hafa gert alls 17 myndir saman. Ferill Lewis hélt þó áfram að blómstra og meðal helstu mynda sem hann lék í eru Funnybones frá 1984 og The Geisha Boy sem kom út árið 1958, auk þess sem hann skrifaði, leikstýrði og lék aðalhlutverkið í myndinni The Nutty Professor árið 1963.

Hann hlaut líka afbragðsdóma fyrir leik sinn í alvarlegu hlutverki á móti Robert De Niro í kvikmyndinni The King of Comedy undir leikstjórn Martins Scorcese árið 1982.

Jerry Lewis var gerður að heiðursforseta frönsku vöðvarýrnunarsamtakanna árið 1984.
Jerry Lewis var gerður að heiðursforseta frönsku vöðvarýrnunarsamtakanna árið 1984. AFP

Umdeildur á stundum

Lewis eyddi miklum tíma í starf sitt fyrir bandarísku vöðvarýrnunarsamtökin (MDA) og var í forsvari fyrir sjónvarpssafnanir þeirra í hartnær hálfa öld. Hlaut hann Jean Hersholt-mannúðarverðlaunin á Óskarsverðlaunahátíðinni árið 2009, fyrir framlag sitt til samtakanna.

Leikkonan Whoopi Goldberg minnist á framlag hans til barna með vöðvarýrnunarsjúkdóma í kveðju sinni til hans á Twitter.

Árið 2007 varð honum þó heldur betur á í messunni. Hann notaði niðrandi orðalag um samkynhneigða í beinni sjónvarpsútsendingu vöðvarýrnunarsamtakanna og var hann á endanum látinn hætta störfum sínum fyrir samtökin.

Hann hefur oftar verið gagnrýndur fyrir framkomu sína, þótti stundum skapstyggur og oftar en einu sinni var hann sakaður um munnhöggvast við aðdáendur sína er hann tróð upp.

Heilsan brast á efri árum

Síðustu áratugi hefur Jerry Lewis glímt við ýmis heilsufarsvandamál. Hann fékk alvarlegt hjartaáfall árið 1982 og var greindur með ristilkrabbamein tíu árum seinna. Árið 1997 greindist  hann svo með sykursýki, svo eitthvað sé nefnt.

Hann reyndi þó að sinna störfum sínum eins lengi og hann hafði tök á, en heilsu hans hrakaði hratt síðastliðna mánuði og hann lést snemma á sunnudagsmorgun á heimili sínu í Las Vegas, umkringdur nánustu fjölskyldu. Lewis var tvígiftur og eignaðist sjö börn.

Lewis pósar með heiðurverðlaunin sem hann hlaut á Óskarsverðlaunahátíðinni árið …
Lewis pósar með heiðurverðlaunin sem hann hlaut á Óskarsverðlaunahátíðinni árið 2009. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Það eru oft einföldustu hlutir sem vefjast mest fyrir manni. Ef þú gengur fram af þeim munu þeir svara þér fullum hálsi. Mundu bara að ekki er allt sem sýnist.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Torill Thorup
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Það eru oft einföldustu hlutir sem vefjast mest fyrir manni. Ef þú gengur fram af þeim munu þeir svara þér fullum hálsi. Mundu bara að ekki er allt sem sýnist.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Torill Thorup