Þættirnir um Stellu Blómkvist verða frumsýndir í Sjónvarpi Símans Premium í nóvember. Heiða Rún Sigurðardóttir leikkona fer með hlutverk Stellu Blómkvist en hún heillaðist heimsbyggðina upp úr skónum í þættinum Poldark.
„Stella er hörð og drullusama um hvað öðrum finnst og það er alltaf gaman að tækla svoleiðis. Hún er töffari, 100 sinnum meiri töffari en ég sjálf,“ sagði Heiða Rún aðspurð hvernig týpa Stella Blómkvist sé.
„Ég er alveg viss um að við erum að skila af okkur einhverju mjög áhugaverðu,“ sagði Heiða Rún.
Stella Blómkvist verður fyrsta íslenska leikna þáttaröðin sem hægt verður að horfa á í heild sinni strax á fyrsta degi. Þættirnir samanstanda af þremur sjálfstæðum sögum um lögfræðinginn Stellu og þann harða veruleika sem hún hrærist í. Fyrsta stikla þáttanna lítur nú dagsins ljós – en það er Saga film sem framleiðir fyrir Símann.
„Þetta verður í fyrsta sinn sem við setjum heila innlenda þáttaröð inn í efnisveituna okkar, rétt eins og Netflix gerir með sínar. Þetta er þó ekki í fyrsta sinn sem við setjum glænýjar þáttaraðir í heilu lagi inn í veituna. Við settum til að mynda Handsmaid‘s Tale inn í heild sinni í sumar og fékk hún gríðarlegt áhorf,“ segir Magnús Ragnarsson, framkvæmdastjóri hjá Símanum. Hann segir jafnframt að svona sé framtíðarsjónvarp nákvæmlega.
„Fólk vill einfaldlega ráða því hvenær það horfir og hve lengi og við svörum því kalli,“ segir hann.