Bandaríski tónlistarmaðurinn Tom Petty lést í nótt í Kaliforníu. Hann var 66 ára gamall. Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá fjölskyldu hans. Afar misvísandi fréttir hafa borist af heilsufari Petty undanfarinn sólarhring eða frá því hann fannst meðvitundarlaus á heimili sínu í Malibu snemma í gærmorgun.
Petty hafði fengið hjartaáfall og var reynt að endurlífga hann án árangurs. Lést hann síðar í gær.
Petty er sennilega þekktastur fyrir að vera söngvari hljómsveitarinnar Tom Petty and The Heartbreakers og lög eins og American Girl, Breakdown, Free Fallin', Learning to Fly og Refugee.
Umboðsmaður hans segir í samtali við BBC að Petty hafi látist klukkan 20:40 að staðartíma, klukkan 3:40 í nótt að íslenskum tíma.