„Í þessum búningi var ég áreitt“

Saga Garðarsdóttir. Myndin er úr safni.
Saga Garðarsdóttir. Myndin er úr safni. mbl.is / Þórður

Leikkonan Saga Garðarsdóttir lýsti því á málþingi sem haldið er í Norræna húsinu í kvöld að samstarfsmaður í leikhúsi hefði áreitt hana kynferðislega, þegar hún var við störf í íslensku leikhúsi. Hún ber að vitni hafi verið að atviki þar sem hún var klipin í kynfærin, en áður hafi sami maður klipið hana í brjóstin. Í kjölfar síðara atviksins hafi hún, og vitnið sem varð að atburðinum, gengið á fund yfirmanna. Það hafi orðið til þess að maðurinn hafi ekki fengið fleiri störf hjá leikhúsinu, sem hún nefnir ekki á nafn.

Í kvöld fer fram málþing á vegum Pírata sem ber yfirskriftina „Raddir þolenda – Konur ræða kynferðisbrot“. Saga Garðarsdóttir er á meðal þeirra sem flytja erindi.

Líkami kvenna söluvara

Saga sagði við upphaf erindis síns að vandamál leikhússins fælist í hlutverkum kvenna í leikhúsi. Leikhúsið væri íhaldssamara en sjónvarp og sjónvarpsþættir og speglaði veruleika þar sem líkami og útlit kvenna væri söluvara. Í leikhúsinu væri æsku og fegurð hyglað, enda væru þar iðulega sett upp gömul verk. Í  stórum dráttum fengju konur í leikhúsum hlutverk sem óspjölluð stúlka eða norn. Á þriðja ári í leiklistaskólanum hefði runnið upp fyrir henni að hún væri nánast bara búin að leika vændiskonur. „Það gerist ótrúlega oft að það séu senur sem hefjast á því að það sé nýbúið að nauðga okkur og við séum að syrgja barnið sem við misstum fyrr í verkinu. Á meðan drekka karlarnir leikhúsviskí og rífast um óðalssetur,“ sagði Saga.

Í erindinu lýsti Saga því að vegna þess að hún væri hávaxin hefði hún oft verið látin leika karla. Hún hefði upplifað að hún gæti aldrei orðið góð leikkona því hún gæti ekki leikið „kynferðislegt rándýr“. „Ef ég er fær um að vera tælandi og seiðandi eru líkurnar á því að ég fái vinnu eða bitastætt hlutverk miklu meiri,“ sagði hún.

Hún sagði að staða nýútskrifaðra leikkvenna væri mjög veik. Leikhúsið væri karlaheimur. Karlkyns leikstjórar væru í miklum meirihluta og hlutverkin væru flest karlahlutverk.

Pressa um nánd utan leikhússins

Hún sagði að í leikhúsinu væri mikið um nánd, enda krefðust hlutverkin þess stundum, og að innan leikhússgeirans væri pressa á að nándin viðhéldist utan leiksviðsins og vinnutímans, sem væri mjög óræður. „Mörkin verða mjög brengluð og það er mjög erfitt að reyna að draga skýr mörk. Þau eru svo mikið á reiki og þú vilt ekki rugga bátnum – heldur vera hress og skemmtilegur starfsmaður,“ sagði Saga og bætti við að sá sem ekki tæki þátt þætti leiðinlegur. „Maður fer að gangast upp í þessu. Maður fer að leika þetta hlutverk í lífinu til að viðhalda þessari ímynd að maður sé hress og skemmtilegur og ekki með eitthvert vesen.“

Saga lýsti því næst atviki sem varð þegar hún starfaði í leikhúsi. Hún hefði hlutverks síns vegna þurft að klæðast mjög þröngum og afhjúpandi búningi. „Í þessum búningi var ég áreitt,“ segir Saga. Fyrst hafi karlkyns samstarfsmaður klipið hana í brjóstin eftir eina senuna.

Hún hafi rætt atvikið við eldri leikkonu sem hafi tjáð henni að maðurinn væri gjarn á að klípa þegar hann „væri fallinn“, eins og raunin hafi verið. „Svo gerist það seinna að þessi sami maður klípur mig í píkuna.“

Fékk stuðning

Hún sagði að það atvik hefði gerst fyrir framan annað fólk í leikhúsinu. Henni hefði brugðið mikið. Bekkjarbróðir hennar hefði komið til hennar og sagst vilja styðja hana með því að ganga með henni á fund yfirmanna. „Leikhúsinu til hróss var vel tekið á þessu. Hann vann ekki meira við leikhúsið,“ sagði Saga.

Hún sagði að síðar hefði maðurinn króað hana af og sagt við hana að um grín hefði verið að ræða. Hann hefði spurt hvers vegna hún gæti ekki tekið þessu gríni. Hann ætti fjölskyldu og feril við þetta hús. Hún segist hafa verið hársbreidd frá því að biðja manninn afsökunar, þannig hafi hanni liðið við þessar aðstæður. „Ég var sannfærð um að ég fengi aldrei vinnu við húsið framar,“ sagði Saga. En af því varð ekki.

Hægt er fylgjast með málþinginu, sem enn stendur yfir þegar þetta er skrifað, hér fyrir neðan.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú heldur af þér með að gera eitthvað. Leyfðu sjálfstraustinu að njóta sín, því það er þitt bezta vopn.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú heldur af þér með að gera eitthvað. Leyfðu sjálfstraustinu að njóta sín, því það er þitt bezta vopn.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar