Kvikmyndin „Three Billboards Outside Ebbing, Missouri“ í leikstjórn Martin McDonagh hlaut flest verðlaun á BAFTA-verðlaunahátíðinni sem fram fór í kvöld. Myndin hlaut samtals fimm verðlaun en var tilnefnd til níu.
Myndin var valin besta myndin í kvöld auk þess sem Frances McDormand var valin besta leikkonan í aðalhlutverki. „Ég reyni að hafa sterkar kvenpersónur í myndunum mínum,“ sagði leikstjórinn Martin McDonagh. Hann sagði að sigurinn væri sterk yfirlýsing í anda #metoo-byltingarinnar.
Kvikmyndastjörnur og -framleiðendur streymdu í Royal Albert Hall í svörtu til að sýna samstöðu með #metoo-byltingunni og benda á mikilvægi þess að skera þarf upp herör gegn kynbundnu ofbeldi og annarri kynbundinni mismunun.
Bafta-hátíðin fer fram mitt á milli Golden Globe og Óskarsins og mun því ýta enn frekar undir hverju von er á í mars þegar Óskarsverðlaunin verða afhent.
Mexíkóski leikstjórinn Guillermo del Toro var valinn besti leikstjórinn fyrir rómantísku fantasíuna „The Shape of Water“.
Gary Oldman var valinn besti leikarinn fyrir hlutverk sitt í myndinni „Darkest Hour“. Oldman leikur Winston Churchill, fyrrverandi forsætisráðherra Bretlands. „Þakka þér, herra Winston,“ sagði Oldman meðal annars þegar hann tók á móti verðlaunum sínum og sagði að Churchill hefði staðið sig vel á erfiðum tímum í seinni heimsstyrjöldinni.