Maðurinn sem stökk upp á svið í miðju atriði bresku söngkonunnar SuRie á úrslitakvöldi Eurovision í gærkvöldi klifraði upp á myndavél og komst þaðan upp á brú sem leiddi inn á sviðið. Samband evrópskra sjónvarpsstöðva (EBU) hefur greint frá því að framkvæmd verði formleg innri rannsókn á hvernig manninum tókst að trufla atriðið.
Manninum tókst að hrifsa hljóðnemann af SuRie og samkvæmt breskum miðlum þá öskraði hann „við krefjumst frelsis“ og kvartaði undan nasistum í breskum fjölmiðlum. Öryggisverðir handsömuðu manninn þegar hann hafði verið á sviðinu í örskamma stund.
„Hann var fjarlægður af sviðinu eftir sjö sekúndur,“ segir fulltrúi EBU í samtali við BBC. Maðurinn hefur verið yfirheyrður af lögreglu.
SuRie lét atvikið ekki hafa mikil áhrif á sig og kláraði flutninginn af miklum krafti. Henni bauðst að flytja lagið aftur en afþakkaði það. „Ég hef alltaf sagt að allt geti gerst í Eurovision,“ skrifaði SuRie á Twitter eftir keppnina. Margir tölu að atvikið myndi skila SuRie nokkrum atkvæðum í símakosningunni en það varð hins vegar ekki niðurstaðan þar sem breska atriðið hafnaði í 24. sæti af 26 mögulegum.