Tónlistarmaðurinn Páll Óskar Hjálmtýsson hefur nú bæst í raðir þeirra sem vilja að Íslendingar taki ekki þátt í Eurovision á næsta ári. „Eins og ég elska Eurovision mikið, þá finnst mér litið mál - réttara sagt - hið besta mál að sitja hjá og sniðganga keppnina hjá þjóðum sem hafa gerst brotlegar við alþjóðalög og stunda mannréttindabrot og blóðuga stríðsglæpi næstum dag hvern,“ segir Páll Óskar á Facebook-síðu sinni.
„Upplýsingar um sögu Ísraels flæða núna á gerfihnattaöld til fólks sem hefur kannski hingað til verið glórulaust um hve alvarlegt ástandið er á Gaza svæðinu. Ég var einn af þeim glórulausu. Ég hafði ósköp litla hugmynd um hvað væri í gangi þarna síðast þegar Íslendingar kepptu í Jerúsalem árið 1999.“
Ímyndarherferð Ísraels sé nú að koma í bakið á þar lendum stjórnvöldum og Eurovision blikni og bláni „í samanburði við yfirganginn, stjórnsemina og frekjuna sem sponsuð af Bandaríkjunum og nú á að fara í fegrunaraðgerð á ímynd Ísraels út á við með Eurovision.“
Með því að sniðganga Eurovision gefist kjörið tækifæri til að „mótmæla fjöldamorðum Ísraelhers á Palestínu og setja Ísrael mörk á alþjóðavísu.“
Hvetur Páll Óskar því næst RÚV til að nýta tækifærið og mótmæla með fjarveru Íslands. „Þessu afneitunar-gleðipartíi tökum við ekki þátt í. Skemmtiefni, dægurlög og glamúrgallar eru nefnilega víst bullandi pólitískt mál“ og RÚV geti gert margt frábært við peningana t.d. með meira tónlistarefni.