Breski gamanleikarinn Rowan Atkinson, sem Íslendingar þekkja væntanlega best í hlutverki hins klaufalega Bean, segir ummæli Boris Johnsson, fyrrverandi utanríkisráðherra, um búrkuna vera fyndin og hvetur Johnson til að biðjast ekki afsökunar.
Í grein sem Atkinson skrifaði í Times styður hann rétt Johnson til að gera grín að trúarbrögðum. Greint var frá því fyrir skemmstu að breski Íhaldsflokkurinn ætlaði að hefja rannsókn á Johnson sem líkti konum sem klæðast búrkum við „póstkassa“ og „bankaræningja“.
„Sem einstaklingur sem notið hefur góðs af frelsi til að gera grín að trúarbrögðum fannst mér brandari Boris Johnson um að þeir sem klæðist búrkum minni á póstkassa vera frekar góður,“ skrifar Atkinson og kveður myndlíkingu ráðherrans fyrrverandi vera góða. „Allir brandarar um trúarbrögð móðga, þannig að það er tilgangslaust að biðja afsökunar á þeim. Maður ætti í raun bara að biðjast afsökunar á slæmum brandara. Á þeim grundvelli er ekki þörf á neinni afsökunarbeiðni.“
Atkinson hefur áður barist gegn tilraunum til að koma í veg fyrir að grín sé gert að trúarbrögðum. Fór hann m.a. fyrir hópi leikara og rithöfunda sem lögðust gegn frumvarpi í stjórnartíð Tony Blair þar sem banna átti að hvatt væri til haturs gegn trúarbrögðum.
Iain Duncan Smith, fyrrverandi ráðherra lífeyris- og atvinnumála í Bretlandi, hefur stutt athugasemdir Atkinson. „Ég er nokkuð sammála því sem hann segir og að báðar hliðar verða að geta sýnt umburðarlyndi,“ sagði Duncan Smith í viðtali við BBC Radio 4 útvarpsstöðina.
„Staðreyndin er sú að maður getur haft trú á valfrelsi fólks til að klæðast búrku, án þess að leggja blessun sína yfir hvað búrkan er. Hafi maður sterka skoðun á jafnrétti kynjanna getur maður litið þennan klæðnað allt öðrum augum.“
Times segir búrkumálið hafa klofið Íhaldsflokkinn og að Theresa May forsætisráðherra sé fremst í flokki þeirra sem krefja Johnson um afsökunarbeiðni.
Hundrað múslimakonur sem klæðast niqab-andlitsslæðu hafa ritað Brandon Lewis, stjórnarformanni Íhaldsflokksins, bréf þar sem þær segja Johnson vera að höfða til þeirra sem séu andsnúnir íslamstrú.
„Ákvörun okkar að klæðast niqab eða búrku er ekki auðveld, ekki hvað síst vegna þess haturs sem margar okkar sæta reglulega. Við gerum þetta af því að með því færumst við nær guði,“ sagði í bréfi kvennanna sem hvöttu til rannsóknar á múslimahatri í Íhaldsflokknum.